Umræður um störf þingsins 26. september

Miðvikudaginn 26. september 2012, kl. 15:11:50 (0)


141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil enn gera að umfjöllunarefni ástandið á lækningatækjum á Landspítalanum og vitna í orð Björns Zoëga forstjóra þegar hann talar um að það þurfi að endurnýja tæki fyrir 2–3 milljarða á næstu tveimur árum til að sleppa fyrir horn. Bráðalistinn sem þarf að kaupa eftir er upp á 1 milljarð.

Öryggi sjúklinga er ógnað. Björn Zoëga sagði að spítalinn væri á mjög fínni línu hvað öryggi varðar en það væri stutt í að öryggi væri ógnað.

Líftími tækja er almennt talinn vera um sex ár en hann er nær tíu árum hjá okkur núna. Ég sagði í umræðunni um þetta mál sem var til sérstakrar umræðu við hæstv. velferðarráðherra á mánudaginn að það ætti ekki að vera mikið vandamál að leysa þetta. Nú vil ég beina orðum mínum til hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur sem er í velferðarnefnd og fyrrverandi varaformaður þar. Ég sagði í ræðu minni að það ætti ekki að vera vandamál að leysa þetta miðað við það sem þessi ríkisstjórn hefur sett fram um fjárfestingarhugmyndir sínar fyrir næsta ár. Það er undarlegt að sjá að í þessari fjárfestingaráætlun er ekki stafkrókur um fjárfestingu í þessum mikilvæga málaflokki og ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála þeim áherslum sem þar koma fram, hvort ekki megi til dæmis fyrir næsta ár fresta atriðum eins og grænum fjárfestingarsjóði upp á 1 milljarð, netríkinu Íslandi upp á 200 milljónir, grænkun fyrirtækja, því að mála öll fyrirtæki græn, 500 milljónir, Húsi íslenskra fræða upp á 800 milljónir. Þetta eru samtals 2.500 milljónir og eru þó bara teknir út liðir sem eru á þessari fjárfestingaráætlun á næsta ári. Væri okkur ekki nær að taka þær upphæðir sem ríkisstjórnin ætlar að setja í þessi verkefni og setja þær í að vinna bragarbót á (Forseti hringir.) þessum alvarlegu málum?

Ábyrgð Alþingis er mikil í þessu máli. Hæstv. ráðherra sagði í umræðunni að nú væri málið í höndum þingsins. (Forseti hringir.) Það var ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo að hann hafi orðið undir í ríkisstjórninni með áherslur sínar við gerð fjárfestingaráætlunarinnar (Forseti hringir.) og nú langar mig að fá að heyra viðbrögð hv. þingmanns.