Vernd og orkunýting landsvæða

Miðvikudaginn 26. september 2012, kl. 15:54:42 (0)


141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:54]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla fyrir þessu mikla máli sem við, a.m.k. náttúruverndarsinnar, höfum borið miklar væntingar til. Engu að síður verður að segjast að vonbrigði með ákveðna þætti í því eru mikil. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra:

Hvers vegna eru jökulsárnar í Skagafirði og Skjálfandafljót sett í biðflokk virkjana, sem sagt í virkjunaráætlun, þegar allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þingmenn frá Samfylkingunni hafa flutt um þetta þingmál á Alþingi? Þetta var meðal kosningaloforða og áherslna Samfylkingarinnar í Fagra Ísland árið 2005, að mig minnir, að þetta væru friðunarkostir nr. 1 eða 2. Þó að þessir flokkar standi að þessari rammaáætlun eru þessi svæði samt sett í eins konar virkjunarflokk þó að það heiti biðflokkur. Ég er mjög ósáttur við þetta og tel að við hefðum átt að hafa burði til að standa við þau fyrirheit sem gefin voru af þessum flokkum í þessari vinnu. Svo mjög er búið að takast á um virkjanirnar í Skagafirði. Ég man eftir því þegar við stóðum hér og töluðum niður virkjunaráformin við Villinganesvirkjun.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvers vegna í ósköpunum er þetta núna sett í biðflokk þegar svo afdráttarlaus vilji beggja ríkisstjórnarflokkanna var að þessi (Forseti hringir.) svæði, jökulsárnar í Skagafirði og Skjálfandafljót, væru friðuð fyrir virkjunum og báðir flokkarnir hafa flutt um það þingmál?