Vernd og orkunýting landsvæða

Miðvikudaginn 26. september 2012, kl. 16:38:49 (0)


141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:38]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svör hennar. Ég læt mér sannarlega ekki detta í hug að hv. þingmaður eða nokkur annar vilji stefna heilsu fólks í hættu, að sjálfsögðu ekki. Hins vegar eru gríðarlega miklar áhyggjur af einmitt þessum þætti, virkjun háhitasvæða, og þess vegna vil ég inna aftur eftir frekari útlistunum á þessu. Við fengum margar fréttir af þessu í sumar. Það eru sömuleiðis mjög miklar vísindalegar áhyggjur af virkjun háhitasvæða og óvissa sem fylgir þeim. Ég vil einfaldlega spyrja hv. þingmann: Telur hún ekki að okkur öllum beri skylda til að fara fram af varfærni fremur en hitt? Hver er fórnin við það að fara fram af varfærni og varúð frekar en hitt?

Þegar sérstaklega er talað um að setja fleiri kosti í bið þá tel ég, eins og ég sagði áðan, að þeir mættu vera mun fleiri. Eins og hv. þingmaður hefur sjálf sagt í sölum Alþingis var alltaf gengið út frá því að biðflokkurinn yrði mun stærri.

Mig langar líka aftur að inna hv. þingmann eftir því hvort hún telji ekki að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn eigi að fara að lögum og hvort það sé ekki rétt að það eigi að hafa þetta samráð sem lögum samkvæmt er á hendi hæstv. ráðherra (MÁ: Einhver vinstri lög.) og það eigi því augljóslega að hafa bein áhrif á ferlið.

Annað sem mig langar að spyrja um er hin faglega vinna sem mikið er talað um, það liggur auðvitað gríðarlega mikil vinna hér að baki. Faghópur tvö metur það svo að verndargildi svæða í grennd við höfuðborgarsvæðið sé vanmetið. Er hv. þingmaður sammála því faglega mati og hvað finnst (Forseti hringir.) hv. þingmanni að eigi að gera við það mat?