Vernd og orkunýting landsvæða

Miðvikudaginn 26. september 2012, kl. 18:59:59 (0)


141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:59]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur þann hvimleiða ávana að túlka orð manna og leggja þeim hálfpartinn orð og hugsanir í munn og höfuð. Í ræðu sinni lagði hann ráðherrunum og okkur málsvörum þessarar þingsályktunartillögu þau rök í munn að ráðherrarnir hefðu bara verið að taka tillit til ákveðinna sjónarmiða þegar staðreyndin er sú að ráðherrunum bar að taka þetta tillit samkvæmt því ferli sem ákveðið var og samþykkt á Alþingi. Þingmaðurinn vísar oft til þess að málið hafi átt að fara í ákveðið ferli og gefur þar með í skyn að nú hafi því verið kippt út úr því ferli með einhverjum óeðlilegum hætti. Því finnst mér heiðarlegast og einfaldast að spyrja þingmanninn: Á hvaða hátt viku ráðherrarnir frá þeim löglega og samþykkta farvegi sem Alþingi sjálft ákvað að málið skyldi fara í?