Vernd og orkunýting landsvæða

Miðvikudaginn 26. september 2012, kl. 19:46:41 (0)


141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:46]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég sagði þetta í ákveðnu samhengi, þ.e. því samhengi að hér væri ekki um að ræða minn pólitíska óskalista eða óskalista ýmissa hv. þingmanna hér inni. Minn óskalisti væri sú niðurstaða sem ég teldi réttari, ég sem þingmaður, manneskja og þegn í þessu landi, að setja mun fleiri svæði í verndarflokk og mun fleiri í biðflokk o.s.frv. Eins og ég sagði hér áðan gæti ég rökstutt það með ýmsum faglegum rökum.

Við vitum að góð mál komast aldrei nema með meiri hluta í gegnum þingið og ég mun að sjálfsögðu taka afstöðu til þessa máls þegar þar að kemur. Að sjálfsögðu liggur gríðarmikil vinna að baki málinu og ýmislegt jákvætt er hér staðfest og leiðir til góðs. Ég ætla að leyfa mér þann munað, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, að upplýsa hann ekki um það hér og nú hvernig þetta verður. Við munum að sjálfsögðu vinna vel og vandlega í umhverfis- og samgöngunefnd. Svo gerir hver og einn upp við sig hvort hann telur meiri hagsmuni fólgna í því að samþykkja þetta og þá niðurstöðu sem kemur úr nefndinni eða ekki. Það bíður þess tíma og þeirrar vinnu sem fram undan er. Ég ætla ekki að gefa neitt upp fyrir fram um það akkúrat á þessu stigi, enda á eftir að fara í gegnum umsagnir og aðra vinnu sem að þessu lýtur. Á endanum meta síðan allir hvort er betra. Er meiri vörn í því (Forseti hringir.) gegn óskynsamlegum ákvörðunum Sjálfstæðisflokksins til dæmis að samþykkja þetta eða ekki?