Vernd og orkunýting landsvæða

Miðvikudaginn 26. september 2012, kl. 20:04:46 (0)


141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í þeirri tillögu sem við ræðum hér um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða er vinnan notuð til að raða í biðflokk, verndarflokk og virkjunarkost, þannig að skýrslan er notuð. Þarna liggur mikil og góð vinna að baki þar sem lagt er mat á fjöldann allan af þáttum sem koma inn í dæmið. Þarna eru ekki bara efnahagslegir þættir heldur er einnig kannað hvernig þeir virka jafnvel á fegurðarskyn, jarðminjar og fleira. Því er svo gefin einkunn.

Ríkisstjórnin notar skýrsluna til þess að setja svæði í flokka. Ég tel að menn hafi einblínt um of á að setja svæði í biðflokk, að taka þau úr nýtingarflokki og setja þau í biðflokk. Það er mjög erfitt að rannsaka virkjunarkosti í biðflokki, ekki er séð til þess að þeir séu raunverulega rannsakaðir.

Mér finnst því að menn hafi brotið þá sátt sem náðst hafði með þessari vinnu. Það hefði auk þess átt að vera miklu meira samráð, til dæmis við stjórnarandstöðuna, um hvað menn ætluðu að gera en ekki bara að einstakir þingmenn hótuðu að sprengja ríkisstjórnina ef ekki væri farið að skoðunum þeirra. Það er mikilvægt að horft sé á sjónarmið allra í þessu máli og að skoðanir manna virtar, ekki bara þeirra sem vilja vernda, vernda, vernda.