Gengistryggð lán

Mánudaginn 08. október 2012, kl. 15:30:10 (0)


141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

gengistryggð lán.

[15:30]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi fyrri spurninguna hvort þessi 11 mál sem menn völdu út sem prófmál svari öllum spurningum, ég get í raun ósköp lítið gert annað en treyst á það fagfólk og þá sérfræðinga sem mátu þetta og komust að þeirri niðurstöðu að með þeim 11 málum teldu menn sig vera búna að tæma allar þær spurningar sem dómstólar gætu þurft að taka afstöðu til. Í ljósi reynslunnar treystir maður því að þar hafi menn vandað sig eins og þeir hafa getað.

Það hefur út af fyrir sig alltaf legið fyrir að niðurstöðurnar gætu orðið á báða vegu. Í einhverjum tilvikum yrðu lán dæmd lögleg og sérstaklega kannski hefur það legið í loftinu að í tilviki lögaðila yrði það niðurstaðan í einhverjum mæli og þeir fái þá ekki í gegnum dómstólana leiðréttingu eða lækkun sinna skulda. Það þýðir ekki að þeir geti ekki náð einhverju slíku fram í samskiptum við lánardrottna sína og/eða geti átt rétt á því eftir öðrum úrræðum sem fyrirtækjum og/eða heimilum hefur verið boðið upp á. Ég nefni til dæmis beinu brautina. Þó að fyrirtæki hafi tekið erlent lán og það sé dæmt löglegt þá standa þau úrræði eftir sem áður til boða til skuldaendurskipulagningar sem öðrum hafa staðið til boða með til dæmis innlend lán.