Kennsla í næringarfræði

Mánudaginn 08. október 2012, kl. 17:18:16 (0)


141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

kennsla í næringarfræði.

157. mál
[17:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni brýningu hans. Ég vil nefna að ég ræddi sérstaklega um námskrá og þennan formlega ramma skólastarfsins en þau verkefni sem skólarnir hafa ráðist í skipta líka máli. Í gangi hafa verið heilsueflingarverkefni á ólíkum skólastigum. Í heilsueflandi framhaldsskólum höfum við til dæmis verið með fjögurra ára verkefni sem skólarnir ganga í gegnum. Lögð er áhersla á hreyfingu eitt árið, næringu annað árið og svo er unnið koll af kolli með geðheilbrigði og fleiri þætti.

Við höfum séð gríðarlegan árangur þar sem fræðsla fer fram. Þá getum við talað um hina teoretísku fræðslu en síðan hefur líka verið tekinn upp nýr praxís þar sem tekið er í gegn það sem haft er á boðstólum í skólunum. Víða hafa nemendur og kennarar tekið mjög vel við breyttu framboði á matvælum í skólum.

Þetta er frábært verkefni sem nýtur mikilla vinsælda í skólunum af því að það er byggt upp á lýðræðislegan hátt, nemendurnir taka sjálfir þátt í því að móta áherslurnar og finna leiðirnar. Ég held að það sé lykillinn að því.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það skiptir máli að við upplýsum unga fólkið okkar um mikilvægi þess sem við látum ofan í okkur. Það skiptir máli að við gerum það ekki bara með því að messa yfir því heldur leyfum því líka að taka þátt og finna það í eigin anda og á sínum skrokki hversu miklu máli þetta skiptir.

Ég held að þarna sé unnið að góðum verkefnum en að sjálfsögðu má gera betur. Ég þakka hv. þingmanni fyrir brýninguna.