Miðstöð innanlandsflugs

Þriðjudaginn 09. október 2012, kl. 16:31:25 (0)


141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[16:31]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að skoða þarf alla fleti þessa máls. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel að með þessu frumvarpi sé ekki verið að brjóta önnur lög og þaðan af síður stjórnarskrána. Þó að ég hafi misst það út úr mér áðan að nauðsyn brjóti lög var það sagt í öðru samhengi en því að ég teldi að hér væri verið að brjóta lög.

Það er mikið óunnið í þessu máli, því er ég sammála. En því er haldið fram, m.a. af borgarfulltrúum, að komið sé að tímamótum í þessu máli og að ekki standi annað til en að loka einni aðalflugbraut vallarins árið 2016. Þar með horfum við til þess að þessi starfsemi flytjist til Keflavíkur, það er engin önnur lausn á því. Þessi völlur verður ekki rekinn ef annarri aðalflugbraut hans verður lokað, svo einfalt er málið.

Við verðum að horfast í augu við staðreyndir í málinu og setjast yfir það og reyna að ná einhverri málamiðlun og sátt um starfsemi þarna til næstu ára. Af þeim rökum sem ég rakti hér áðan hlýtur öllum að vera ljóst að við erum ekki að fara að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur árið 2016. Um það getur engin sátt orðið meðal íslensku þjóðarinnar, um það er engin sátt hér á Alþingi og um það er ekki sátt hjá borgarfulltrúum. Við verðum því að horfa til þess að starfsemin verði þarna óbreytt á næstu árum.

Þá verðum við að geta byggt sómasamlega upp þarna þannig að flugvöllurinn geti þjónað þeirri starfsemi sem hann býður upp á. Á meðan getum við sest yfir það hvernig við ætlum að haga þessu til lengri tíma. En ég endurtek það að í þessu frumvarpi er ansi langt seilst gagnvart skipulagsmálum, ég geri mér fulla grein fyrir því, en ég tel að full ástæða sé til þess vegna þessara brýnu hagsmuna. Ég tel tímabært að menn (Forseti hringir.) setjist niður í fullri alvöru og horfi á staðreyndir þessa máls.