Umræður um störf þingsins 10. október

Miðvikudaginn 10. október 2012, kl. 15:33:52 (0)


141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í þessum sal fáum við trekk í trekk að heyra stjórnarandstöðuna fjalla um eymdarástand, atvinnuleysi, vonleysi og svartnættið. Vissulega var staðan vond þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin tóku við völdum í kjölfar þess að frjálshyggjan, einkavæðingin, skattalækkanir, ívilnanir til hinnar efnameiri keyrði samfélagið í kaldakol og skildi ríkissjóð eftir með veikan tekjugrunn.

En nú er hins vegar annað upp á teningnum eins og fram hefur komið í gögnum frá Hagstofunni og fjallað er um í Hagfréttum í dag. Ráðstöfunartekjur heimilanna hækkuðu um 9,6% á síðasta ári eftir að hafa dregist saman á milli ára frá hruni. Samdrátturinn var óhjákvæmilegur og viðsnúningurinn sem við nú sjáum er uppskera af ábyrgri og traustri efnahagsstjórn.

Kjörorð sjálfstæðismanna fyrir kosningarnar 2007 var: Traust efnahagsstjórn er stærsta velferðarmálið. Það er vinstri stjórn sem er að efna kosningaloforð sjálfstæðismanna, gætið að því. En Sjálfstæðisflokkurinn bar þó ekki gæfu til að láta efndir fylgja þeim loforðum. Enda fór sem fór.

Fleiri góð teikn eru á lofti. Vísar og tölur sýna svo ekki verður um villst að staðan fer batnandi. Í Hagfréttum dagsins kemur fram að á síðasta ári hækkuðu laun um 9,2%, kaupmáttur launa jókst um 2,6%, eignaverð hækkaði, atvinnulausum fækkaði og skuldir heimila héldu áfram að lækka.

Við verðum að leyfa okkur að gleðjast yfir því sem gott er og við skulum fagna því að rauðgræn ríkisstjórn skuli við erfiðar aðstæður hafa náð þeim árangri sem raun ber vitni. Við erum svo sannarlega að uppskera eftir erfiða tíma og þjóðin á það skilið að við varðveitum þann árangur og fáum tækifæri til að byggja áfram á þeim grunni.

Ef við tökumst á við vandann með jákvæðu hugarfari verður allt auðveldara.