141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

190. mál
[16:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að flytja þetta frumvarp fyrir hönd og með hv. allsherjarnefnd og hv. menntamálanefnd.

Mér finnst vera of áberandi, frú forseti, að verið sé að leiðrétta og laga lög stuttu eftir að þau hafa verið sett. Hér er enn eitt dæmið um að menn hafi ekki farið í gegnum þá möguleika sem gætu komið upp í raunveruleikanum, því að raunveruleikinn er ekki alltaf sléttur og felldur. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem mælti fyrir þessu máli, hvort ekki hafi verið fyrirséð, þegar lögin voru sett, að lengri tímafrest þyrfti.

Ég vil líka spyrja hvort eðlilegt sé að þessi tími sé ótakmarkaður þannig að menn geti komið eftir 30 ár og sagt: Heyrðu, ég lauk þarna prófi, nú ætla ég að fá skírteinið eða réttindin. Ég spyr hvort ekki sé eðlilegt að hafa einhver mörk eða að menn geti einhvern veginn látið þetta fjara út með sólarlagsákvæði. Mér finnst mjög slæmt að hafa svona ákvæði frá 2008 í lögum og að menn geti komið löngu seinna og vísað í eitthvert ákvæði um að þeim hafi nú verið breytt 2012, lögunum frá 2008, og þeir ætli að nota sér þann rétt sem gefinn var 2012. Þetta gerir lagabókina afskaplega flókna og leiðinlega yfirlestrar og undirstrikar þær villur sem menn hafa gert í lagasetningunni.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort ekki sé rétt að hafa einhver mörk á þessu þegar þetta verður rætt frekar.