141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

190. mál
[16:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Fyrir það fyrsta er ánægjulegt að þetta allt skuli nú vera í einum lagabálki.

Ég ætla að byrja á því að þakka formanni nefndarinnar fyrir frumkvæðið sem er að mínu mati gott og ég styð heils hugar. Þrátt fyrir að allur þingheimur hafi á sínum tíma samþykkt þá miklu breytingu sem varð á skólalöggjöfinni, hvort sem það var á leik-, grunn- og framhaldsskóla eða á menntun og ráðningu kennara o.fl., þá sáu menn ekki fyrir endann á námsskipulagi þeirra sem höfðu hafið nám og voru kannski með réttmætar væntingar, eins og það er kallað, til að klára námið á ákveðnum tíma og öðlast um leið þau réttindi sem því fylgir.

Ég vil draga það fram hér að mér finnst þingið bregðast réttilega við og á skynsaman hátt um leið og það setur ákveðinn ramma um þá sem teljast vera í vanda eða í ákveðinni óvissu eftir að hafa hafið nám samkvæmt gamla fyrirkomulaginu um kennslu og menntun einstaklinga til að sinna hinu mikilvæga kennarastarfi frá leikskóla upp í framhaldsskóla.

Að þessu sögðu hafði ég ætlað að ljúka máli mínu, en hv. formaður nefndarinnar kom inn á mikilvægt málefni sem var meðal annars hreyft við í gær þegar nefndin fór góðu heilli í heimsókn til Háskóla Íslands. Það er margt hægt að ræða um þá heimsókn alla en ég mun koma að henni í máli sem snertir vísindarannsóknir og sameiningu samkeppnissjóða á sviði rannsókna og vísinda. Ég mun koma inn á ákveðna þætti þar í ræðu minni á eftir. En við ræddum líka kennaranámið. Ég vil aðeins rifja það upp að á sínum tíma gafst okkur einstakt tækifæri sem við vorum búin að vinna að — ég vil draga það fram að allir flokkar komu að því, allir sem einn höfðu metnað til að gera ágætt skólakerfi betra. Við einbeittum okkur að heildstæðri breytingu á leik-, grunn- og framhaldsskóla. Það var öllum, ég man ekki til þess að neinn hafi sagt að eitt skólastigið væri eitthvað síðra eða æðra en annað, heldur ræddum við það að við ættum að horfa á skólakerfið sem eina heild frá leikskóla upp í framhaldsskóla og ef til vill háskóla, þess vegna hefur leikskólastigið nokkuð lengi verið flokkað sem fyrsta skólastigið.

Ég hef ekki alltaf verið sammála því sem forsvarsmenn Kennarasambands Íslands hafa sagt í hinum ýmsum málum, m.a. kjaramálum og um fyrirkomulag varðandi kennslu, kennsluskyldu og fleira. Það er gott og blessað. Við höfum átt opinskáar umræður um það í gegnum tíðina og eðlilega sýnist sitt hverjum.

Hitt er þó annað að einmitt í því máli sem formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, hreyfði við hér áðan varðandi leikskólakennaranámið þá var það í hugum flestra sem hér voru inni að með lengingu leikskólakennaranámsins værum við að undirstrika mikilvægi leikskólans sem fyrsta skólastigs. Við sáum líka fram á það sem hefur enn ekki litið dagsins ljós, að eftir fyrstu þrjú árin yrðu væntanlega sett fram ákveðin réttindi sem hver og einn sem mundi sækja og stunda leikskólakennaranám mundi öðlast eftir fyrstu þrjú árin af því við gerðum okkur grein fyrir því að hugsanlega þætti mönnum mikið í lagt. Við bentum meðal annars á útlönd sem við erum iðulega hvött til að gera, bentum á Finnland og aðrar þjóðir, og sögðum: Við viljum undirstrika mikilvægi kennaramenntunar. Samhliða því sameinuðum við reyndar Kennaraháskólann og Háskóla Íslands til þess að byggja upp kennaramenntunina. Við sögðum að við vildum gera sömu kröfu til allra skólastiga. Ég tel enn að það sé rétt, en ef það er mikil hindrun að leikskólakennaranámið er fimm ár þá verðum við að fara yfir það.

Ég er hins vegar á því að við eigum að finna aðrar leiðir en að stytta námið sem slíkt því að ég tel mikilvægt að við höldum áfram því meginprinsippi sem ég tel, eins og ég sagði áðan, að flestir hér inni hafi verið sammála um, þ.e. að líta á skólastigin sem eina heild. Ég sá fyrir mér og hef margoft bent á merkilega skólatilraun og nýjung sem er í hinum yndislega Mosfellsbæ sem er Krikaskóli, frá eins til tíu ára, þar sem við sýnum fram á sveigjanleika og samfellu á milli skólastiga. Þá er mikilvægt að við höfum kennara sem hafa þekkingu, reynslu og grundvöll af kennaranáminu til að geta sinnt slíkum skóla og báðum skólastigum, þ.e. neðri bekkjum grunnskóla og leikskólastiginu. Það sama sáum við fyrir okkur með efri stig, þ.e. að grunnskólakennarar gætu kennt í efri stigum grunnskóla og framhaldsskóla, hægt yrði að samtvinna það. Þetta var allt saman langtímaplan. Ef það plan hikstar eitthvað ber okkur að sjálfsögðu að fara yfir það.

Ég fagna því sérstaklega sem hæstv. ráðherra hefur sagt hvað þetta varðar, en hvet hana til að fara varlega í yfirlýsingum um að beinlínis eigi að stytta leikskólakennaranámið í þrjú ár. Ég held að hún hafi ekki gert það fram til þessa og fagna nálgun hennar við að leysa þessi mál. Ég held að málið sé miklu stærra en hvað leikskólakennarafjöldann og námið varðar. Námið er að mínu mati ekki sú fyrirstaða að við fáum ekki nægilega marga í leikskólakennaranámið heldur er það ekki síður launaumgjörðin. Það verður aldrei of oft sagt að laun kennara eru ekki há, en á móti kemur að Kennarasambandið verður líka, og um það greinir mig og Kennarasambandið á, að slaka á kröfum sínum hvað varðar umgjörð og svigrúm sveitarfélaga til að reka skólakerfið af metnaði. Ef þetta færi saman sæjum við betri kjör til handa kennurum því að þá sæju sveitarfélögin tækifæri í auknum sveigjanleika varðandi rekstur leik-, grunn- og hugsanlega framhaldsskóla eins og sumir hv. þingmenn hafa verið að ræða um, að færa framhaldsskólann yfir til sveitarfélaganna. Það er seinni tíma mál, en er þess virði að verða rætt líka og kannski í samræmi við það sem ég hef sagt hér, að líta á skólakerfið sem eina heild. Þess vegna vildi ég taka þetta upp.

Ég er enn þeirrar skoðunar að við eigum að gera kröfur til þeirra sem eru kennaramenntaðir. Þó að það sé að sjálfsögðu kennaramenntunarstofnananna að setja fram þær kröfur með ákveðnum hætti þá eigum við að gera svipaðar kröfur til allra leikskólastiga og ekkert að gefa afslátt af því. Ég hvet fólk og helst þverpólitíska hópa til samvinnu við helstu hagsmunaaðila, fjölskyldurnar, heimilin í landinu, Kennarasambandið og sveitarfélögin til að fara yfir þessi mál til þess að leita leiða og lausna þannig að við sjáum fleiri menntaða leikskólakennara í framtíðinni. Það er að mörgu að hyggja þegar kemur að því verkefni.

Aðeins aftur varðandi heimsókn okkar til Háskóla Íslands af því ég veit það að hv. formaður nefndarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, hefur ljáð máls á því að við tökum upp sérstaka umræðu um kennaramenntunina og framtíð kennaramenntunar sem slíkrar. Nú eru tæplega fimm ár síðan við samþykktum lögin. Ég held að það væri afar fróðlegt og hugsanlega gott aðhald fyrir kennaramenntunarstofnanirnar, eins og hina merkilegu stofnun Háskóla Íslands, að sjá mótun kennaramenntunar undir nýrri regnhlíf, bæði regnhlíf sameinaðs háskóla og ekki síður undir nýjum formerkjum sem ný skólalöggjöf hefur sett og markað.

Ég tel mikilvæga tíma vera fram undan. Ég hef sagt að eitt mikilvægasta hlutverk Háskóla Íslands í dag sé ekki bara að stunda rannsóknir, sem hann gerir reyndar með stórkostlegum árangri og nær m.a. merkilegu skori í Times Higher Education þar sem hann nær hærra en síðast og voru þó margir svartsýnir á það og gerðu góðlátlegt grín að því að háskólinn skyldi á sínum tíma setja sér háleit markmið, heldur um leið og hann stuðlar að og heldur áfram að efla rannsóknir og vísindi hvar sem er í samfélaginu en ekki síst í grundvallarstofnuninni, sem er í háskólanum sjálfum, verðum við að vita nákvæmlega hvað Háskóli Íslands ætlar sér að gera með kennaramenntunina. Ég ætla með engu móti að fara inn á hið akademíska frelsi Háskóla Íslands sem ég undirstrika að er afar mikilvægt fyrir hvert samfélag sem vill vera þekkt fyrir að vera rannsóknar-, vísinda- og menntasamfélag. Við eigum engu að síður að hafa skoðun á hlutverki Háskóla Íslands varðandi mótun kennaramenntunar með tilliti til nýrra laga, sem allt Alþingi samþykkti og stóð að í gegnum margra ára hópavinnu, margra ára samstarf í gegnum árin, gegnum margar ríkisstjórnir, og því hvernig kennaramenntun við viljum sjá, hvort sem við erum að tala um kennaramenntun á sviði leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla og hvernig sveitarfélögin geta meðal annars komið inn í þá þróun og haft skoðanir á því hvernig slík menntun eigi að vera uppbyggð.

Að þessu sögðu og eftir að hafa rammað þetta inn ítreka ég enn og aftur ég styð þetta mál. Við munum að sjálfsögðu fara vel yfir það aftur og fá einhverjar umsagnir um málið sem við erum að ræða, þ.e. um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda. Þetta er að vissu leyti tæknilegt mál, en það skiptir ákveðna einstaklinga máli, þótt þeir séu ekki margir, og því fagna ég því að við á þinginu höfum burði, snerpu og ákveðið svigrúm til þess að bregðast við þegar fólkið kallar.