Fimmtudaginn 11. október 2012, kl. 10:34:30 (0)


141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

samkomulag ríkisstjórnarinnar við orkufyrirtæki.

[10:34]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er alþekkt að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur gert skriflegt samkomulag við ótal aðila á starfstíma sínum. Að flestra mati hefur hún illa staðið við það en á Alþingi var í gær upplýst um alveg nýja nálgun í þessum efnum, þ.e. að nú eru einhverjir farnir að svíkja samkomulag við ríkisstjórnina og svo virðist sem ríkisstofnanir séu farnar að svíkja þegjandi samkomulag sem ríkisstjórnin hefur gert við þær. Maður spyr sig hvers lags samkomulag þetta sé, hvort hægt sé að nálgast það og hvort það séu einhver fleiri atriði þar inni en þau er varða orkunýtingu.

Það er ekki eins og upplýsingarnar séu komnar frá einhverjum almennum stjórnarþingmanni, það er hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, þingflokksformaður annars stjórnarflokksins, sem upplýsir að framkvæmdir Landsvirkjunar í Bjarnarflagi séu orðrétt, með leyfi forseta, „brigð á þegjandi samkomulagi um að ríkisfyrirtækin að minnsta kosti haldi að sér höndum í virkjanaæði meðan rammaáætlun hafi ekki verið afgreidd úr þinginu“.

Þetta er ekki nein smáræðisyfirlýsing þannig að það er von að spurt sé um málið. Ég inni hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort það sé rétt að ríkisstjórn Íslands hafi gert þegjandi samkomulag við eigin orkufyrirtæki um að þau haldi að sér höndum í þessum efnum meðan rammaáætlun hefur ekki verið afgreidd. Ef svo er, er þá viljayfirlýsing á milli ríkisstjórnar Íslands og sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslu sem undirrituð var 25. maí 2011 um samstarf aðila á þessu sviði marklaust plagg, undirritað af þáverandi iðnaðarráðherra? Var það gert gegn betri vitund? Á hvaða vegferð eru menn í þessum efnum?

Ég vænti þess að hæstv. forsætisráðherra gefi skýr svör um þetta (Forseti hringir.) samkomulag sem gert hefur verið og kallað er þegjandi.