Fimmtudaginn 11. október 2012, kl. 10:54:51 (0)


141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

efnahagsáætlun AGS.

[10:54]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins viðurkennir sjóðurinn að efnahagsáætlun eins og sú sem AGS keyrði hér í gegn eftir hrun sé kreppudýpkandi.

Í október 2008 varaði ég við efnahagsáætlun AGS og vísaði í slæma reynslu annarra þjóða. Hjarðhagfræðingar háskólanna og fylgisfólk AGS gerðu lítið úr reynslu annarra þjóða og rökum þeirra sem gagnrýndu stefnuna. Efnahagsáætlun AGS var frá upphafi framfylgt af mikilli fylgispekt, afar háir vextir voru hækkaðir enn frekar og sultaról almennings hert með skattahækkunum og niðurskurði á ríkisútgjöldum, allt í samræmi við efnahagsáætlun AGS.

Við vorum nokkur í þingflokki VG sem reyndum að sannfæra aðra stjórnarliða árið 2009 og 2010 um nauðsyn þess að fara hægar í niðurskurð og vinna þannig gegn neikvæðum áhrifum hárra vaxta og skuldakreppu heimila og fyrirtækja. Barátta okkar endaði með hjásetu okkar hv. þingmanna Atla Gíslasonar og Ásmundar Einars Daðasonar við afgreiðslu fjárlaga í desember 2010. Viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við hjásetunni voru þau að hvetja okkur til að íhuga stöðu okkar í stjórnarliðinu.

Nú hefur AGS viðurkennt að efnahagsáætlun eins og sú sem hæstv. forsætisráðherra studdi dyggilega geri lífskjör almennings verri og skuldir hins opinbera hærri en ella.

Frú forseti. Ég vil vita hvort hæstv. forsætisráðherra sé sammála AGS um að efnahagsstefna hennar hafi dregið úr (Forseti hringir.) efnahagsbatanum eftir bankahrun.