141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[11:50]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil eins og aðrir hér byrja á að þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir yfirgripsmikla skýrslu. Ég þakka jafnframt fyrir það að undir forustu hæstv. ráðherra virðist manni að fram fari mjög vönduð vinna og eftirfylgni við þetta umfangsmikla og mikilvæga mál. Svo virðist sem leggja eigi allan metnað í að vanda til verka og nýta þetta spennandi tækifæri til að reisa til langrar framtíðar stoðir sem við getum byggt á.

Mig langar líka að nota tækifærið til að þakka og hrósa sérstaklega hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, sem hefur verið merkisberi þessa máls frá upphafi, ekki bara hér heima heldur líka erlendis. Þetta hefur víða vakið eftirtekt og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hefur verið gríðarlega öflugur málsvari í þessum efnum fyrir hönd okkar Íslendinga erlendis, og hægt að þakka fyrir það.

Það er margt mikilvægt í þessum efnum sem enginn tími er til að fara yfir, en ekki er hægt að draga úr mikilvægi þess að fjárveiting fylgi metnaðarfullum málum. Hæstv. ráðherra kom inn á þetta í máli sínu en þetta er gríðarlegt vandamál, auðvitað ekki bara í þessu máli heldur á svo mörgum vígstöðvum í okkar starfi hér. Við erum að samþykkja góða og metnaðarfulla hluti en í praxís og í veruleikanum fylgir ekki það sem til þarf. Hér voru til dæmis nefnd gjafsókn og önnur brýn og góð mál. Ég get nefnt eitt lítið lýðræðismál sem er lýðræðisumbætur í umhverfismálum. Ef þeim fylgja ekki fjárveitingar til frjálsra félagasamtaka og þeirra sem dag frá degi eiga að fylgja því eftir þá eru þetta bara orðin tóm í reynd. Þetta er mjög mikilvæg umræða sem við þurfum einhvern veginn að setja í öflugri farveg hér innan þingsins.

Aðrir þingmenn hafa farið vel í gegnum þá fjóra meginþætti sem hér eru til umræðu, þ.e. endurskoðun varðandi refsingu, ærumeiðingar, vernd afhjúpanda, varðveislu fjarskiptagagna og hömlur á tjáningarfrelsi, þ.e. lögbann gegn birtingu efnis. Ég ætla ekki að fara frekar í það heldur hvetja til þess að áfram verði haldið uppi vandvirkri vinnu í þessum efnum svo að sem flest og fjölbreyttust sjónarmið fái að koma fram og komi inn í þessa vinnu, að þetta sé opið lýðræðislegt ferli, þar sem tjáning ólíkra skoðana fær að njóta sín til að tryggja að þetta sé eitthvað sem stendur til frambúðar, óháð pólitískum veðrum og vindum eða hagsmunum augnabliksins.

Að lokum, herra forseti. Við ræðum hér í grunninn mál sem varðar tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlum og útgáfufrelsi. Þetta eru í grunninn mál sem fólk lætur lífið fyrir víða um heim. Það er þörf á umræðu, finnst mér, ekki bara um lagasetningu heldur um kúltúr. Hvernig kúltúr búum við til í samfélagi og bara hér innan þings til dæmis, innan flokka og milli flokka? Getum við stuðlað að kúltúr þar sem ólík viðhorf og ólík sjónarmið eru metin og þeim fagnað en þau ekki þögguð niður eða jörðuð eða fólk gert áhrifalaust eða hrætt um stöðu sína vegna þess að það vogar sér að tjá skoðun sína?

Sjálfsritskoðun er ef til vill okkar stærsta vandamál í þessum efnum (Forseti hringir.) innan stjórnsýslunnar, innan stjórnmálanna og innan samfélagsins yfir höfuð. Fólk er einfaldlega hrætt við að það fái refsingu, (Forseti hringir.) ekki endilega lagalega heldur menningarlega, kúltúrlega, stöðu sinnar vegna o.s.frv., (Forseti hringir.) fyrir það að tjá sig. Um þetta þyrftum við líka að taka veglega umræðu hér í þingsal.