Hæstaréttardómur um gengislán

Mánudaginn 22. október 2012, kl. 15:03:09 (0)


141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

hæstaréttardómur um gengislán.

[15:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Nýlega féll dómur í Hæstarétti út af gengislánum og var þá dæmt um annað en það sem tekist hefur verið á um fram til þessa. Það var sem sé ekki tekist á um gengislánatrygginguna heldur um það hvort taka ætti tillit til þess að greitt væri inn á höfuðstól og hvort heimilt væri að hafa vexti afturvirka.

Sem betur fer fyrir lántakendur þessa lands féll dómur þannig að það er tekið tillit til höfuðstólsgreiðslna og sömuleiðis var bannað að reikna vexti afturvirkt. Það er alveg ljóst að lagasetning ríkisstjórnarinnar og framganga eftirlitsstofnana hefur verið til þess að vernda fjármálastofnanir. Þeir sem urðu fyrir barðinu á því eru lántakendur. Þá er ég ekki bara að vísa í svokölluð Árna Páls-lög sem eru auðvitað lög hæstv. ríkisstjórnar, heldur er ég líka að vísa í aðgerðaleysi eftirlitsstofnana þegar bent var á þessa hluti.

Í ofanálag hefur ríkisstjórnin komið í veg fyrir að frumvarp um flýtimeðferð á erlendum lánum næði fram að ganga. Hún hefur sömuleiðis stoppað það að frumvörp þessu tengd sem hefðu komið lántakendum vel færu í gegn. Á þessum tíma hafa heimilin orðið fyrir miklum skaða og fólk, þá sérstaklega smærri atvinnurekendur, misst fyrirtæki sín vegna þess að ekki var rétt reiknað.

Mér finnst rétt að hæstv. ráðherra gefi fólki skýringar á því af hverju svona var gengið fram og skýri það núna hvað ríkisstjórnin muni gera til að auðvelda þessu fólki og bæta fyrir þann skaða sem orðið hefur.