Staða Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Mánudaginn 22. október 2012, kl. 15:10:27 (0)


141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

staða Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

[15:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (F):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku var rætt um málefni Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu vantar um 70 millj. kr. upp á að endar nái saman í rekstri skólans. Málið er alvarlegt eins og komið hefur fram og ef ekkert verður að gert þarf að segja upp starfsfólki og fækka nemendum.

Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir gat þess hér að um væri að ræða tæknilegt álitamál milli skólans og ráðuneytisins. Ég tel að hér sé um tæknileg mistök ráðuneytisins að ræða. Kjarni málsins er þessi: Fjölbrautaskóli Suðurnesja er vel rekinn skóli og það veit hv. þingmaður. Skólinn hefur hins vegar ekki fengið eðlilega hækkun á fjárveitingum milli ára eins og aðrir framhaldsskólar. Hækkun milli ára 2011 og 2012 nam 3,9%. Á sama tíma var meðaltalshækkun annarra framhaldsskóla um 8%. Hvers vegna nær Fjölbrautaskóli Suðurnesja ekki þessu meðaltali?

Þetta skýtur skökku við, sérstaklega í ljósi fyrri yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar á frægum fundi um borð í víkingaskipi um að rekstur menntastofnana á Suðurnesjum yrði tryggður.

Það verður tæpast sagt að ríkisstjórnin hafi reynst víkingar í verki í þessu máli frekar en mörgum öðrum er varða Suðurnesin. Því spyr ég: Mun hæstv. fjármálaráðherra sjá til þess að Fjölbrautaskóli Suðurnesja fái sömu eðlilegu hækkun á fjárveitingum milli ára og aðrir framhaldsskólar þannig að skólinn standi ekki í sömu sporum að ári liðnu?