Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 18. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 18  —  18. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna
og þingfararkostnað, með síðari breytingum.

Flm.: Mörður Árnason, Valgerður Bjarnadóttir, Margrét Tryggvadóttir,
Þór Saari, Skúli Helgason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lúðvík Geirsson,
Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.

1. gr.

    3. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Við 15. gr. bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og hljóðar svo:
    Kjararáði er heimilt að ákveða alþingismönnum álagsgreiðslur fyrir sérstök störf í þágu Alþingis.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að kjararáð ákveði hvort greiða skuli einstökum þingmönnum álag á þingfararkaup vegna sérstakra starfa á vegum Alþingis, og mæli fyrir um upphæð slíkrar álagsgreiðslu.
    Nú er kveðið á um það í lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað að greiða skuli sérstakt álag forsætisnefndarmönnum, þingflokksformönnum, formönnum nefnda og formönnum stjórnmálaflokka utan ríkisstjórnar, auk heimildar til frekari greiðslna.
    Með samþykkt frumvarpsins væru launamál þingmanna að fullu úr þeirra höndum og yrði það sérstök ákvörðun kjararáðs hvort tíðka skyldi slíkar álagsgreiðslur og þá fyrir hvaða störf, í stað þess að um þetta séu ákvæði í lögum.
    Í frumvarpi um álagsgreiðslur sem flutt var á 139. löggjafarþingi (24. mál) var lagt til að hætt yrði hinum sérstöku álagsgreiðslum til formanna þingnefnda og þingflokka. Störf alþingismanna yrðu þannig lögð að jöfnu hvað þingfararkaup varðar, hvar og hvernig sem þau eru unnin, í samræmi við meginreglur lýðræðisskipunar.
    Rök að baki þessum greiðslum hafa verið nefnd þau að um sé að ræða þóknun fyrir þingstörf sem sérstakar skyldur fylgi. Flutningsmenn frumvarpsins á 139. löggjafarþingi sögðu í greinargerð að formennska í þingnefnd og þingflokki væri vissulega ábyrgðarmikið starf og annasamt en ekki yrði annað séð en að jafnframt skyldum og ábyrgð fælust einnig í slíku starfi einmitt þau áhrif og völd sem flestir alþingismenn sækjast eftir fyrir hönd kjósenda sinna og málstaðar. Þess vegna væri ekki líklegt að ásókn minnkaði í þessi störf þótt álagsgreiðslum linnti.
    Viðbrögð við frumvarpi þessu voru misjöfn innan þings, og þótti sumum höggvið nærri störfum sínum og jafnvel heiðri, sem þó var ekki vísvitandi í voða stefnt af hálfu flutningsmanna. Eftir fyrstu umræðu var málinu vísað til allsherjarnefndar. Þar þótti ekki ástæða til að leita mikilla álitsgerða um þetta mál, þar sem reynsla og þekking væri næg innandyra. Álit barst þó frá kjararáðsliðum og kemur þar fram sú skoðun Rannveigar Sigurðardóttur, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar og Guðrúnar Zoëga „að heppilegra sé að ákvörðun um laun þingmanna sé tekin af einum aðila, annaðhvort af þinginu sjálfu eða af óháðum úrskurðaraðila, svo sem kjararáði“.
    Allsherjarnefnd óskaði sérstaklega umsagnar frá þingskapanefnd sem var að störfum á 139. löggjafarþingi og fjallaði um þingskapafrumvarp sem nú er orðið að lögum. Í áliti þingskapanefndar kom fram að nefndarmenn teldu að verið hefði „víðtæk samstaða“ meðal þingmanna um álagsgreiðslur til formanna nefnda og þingflokka. Þá væri það „í höndum kjararáðs að úrskurða um laun þingmanna og ráðherra“ og virðist nefndinni hafa yfirsést við þessa álitsgerð að álagsgreiðslurnar eru einmitt ákvarðaðar með lögum frá Alþingi. Á hinn bóginn má hæglega líta á þessa athugasemd sem viljayfirlýsingu þingskapanefndar um að kjararáð annist verkið. Þingskapanefnd segir einnig í áliti sínu að nefndin vinni að endurskoðun þingskapa – sem nú hefur verið samþykkt – og falli ákvæði um þingfararkaup og þingfararkostnað undir störf nefndarinnar. „Málið er því í vinnslu í þingskapanefnd og rétt að bíða þess að hún ljúki störfum.“ Breytingartillögur nefndarinnar á þessu sviði voru með þeim hætti að fyrsti varaformaður fastanefndar fær nú 10% álag en annar varaformaður 5% álag. Með þessari breytingu geta 38 þingmenn nú notið álagsgreiðslna af þeim 52 sem ekki sinna ráðherra- eða forsetastörfum, sé gert ráð fyrir að hver þingmaður sinni aðeins einu álagsverðu starfi (24 formenn og varaformenn fastanefnda, fimm formenn þingflokka, sex forsætisnefndarmenn og þrír formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu), en 14 þingmenn fá ekki álagsgreiðslu.
    Vegna þessara viðbragða frá þingmönnum og kjararáðsliðum var frumvarpið flutt á 140. löggjafarþingi (28. mál) í því horfi að öll sértæk ákvæði um álagsgreiðslur hverfi úr lögum en í staðinn komi heimild til kjararáðs að skammta þingmönnum álagsgreiðslur fyrir sérstök störf í þágu þingsins. Kjararáð metur þá hvaða störf skulu metin álagshæf, ef ráðið telur yfirleitt rétt að hafa launamun á Alþingi. Við slíkt mat liti ráðið væntanlega til nú- og fyrrverandi skipunar á Alþingi en athugaði einnig hver staða þessara mála er í þjóðþingum grannlanda, auk forsendna sem lagðar eru til grundvallar á vinnumarkaði, opinberum og almennum.
    Í frumvarpinu sem flutt var svipaðs efnis á síðasta þingi var miðað við að slík greiðsla nemi ekki meira en 15% af þingfararkaupi til hvers þingmanns, en nú getur alþingismaður sem bæði situr í forsætisnefnd og gegnir formannsstörfum í þingflokki eða formennsku, eða 1. eða 2. varaformennsku, fengið tvöfalt álag ef hann æskir þess. Í því frumvarpi sem nú er flutt er fallið frá þessu og þykir rétt að binda kjararáð ekki með neinum hætti í þessum efnum. Gert er ráð fyrir að kjararáð meti einnig önnur þau störf en þau sem nú þykja álagsverð.
    Álagsgreiðslur þær sem um ræðir hófust með samþykkt frumvarps sem varð að lögum nr. 88/1995 (greiðslur til formanna stjórnmálaflokka raunar með hinum frægu lögum nr. 141/ 2003). Það var lagt fram á Alþingi 15. júní og afgreitt samdægurs eftir þrjár umræður frá kl. 17.22 til kl. 20.38. Ákvæðin um álagsgreiðslur til formanna nefnda og þingflokka komu inn í 3. gr. samkvæmt breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Athygli vekur að enginn rökstuðningur fylgdi þeirri tillögu, hvorki í nefndarálitinu né framsöguræðu nefndarformannsins, Vilhjálms Egilssonar, og ekki heldur í ræðum annarra þingmanna.
    Það er von flutningsmanna að liðið sé það tímabil í íslenskum stjórnmálum sem þessi saga lýsir.
    Tveir flutningsmenn, Mörður og Valgerður, fluttu frumvarp þau sem um getur að framan á 139. og 140. þingi, en hafa nú fengið góðan liðsauka.



Fylgiskjal I.



Umsögn fulltrúa í kjararáði
um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup
alþingismanna og þingfararkostnað, með síðari breytingum.

(24. mál á 139. löggjafarþingi.)
(3. nóvember 2010.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Álit um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1995,
um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað,
með síðari breytingum.

(24. mál á 139. löggjafarþingi.)


Frá þingskapanefnd.

    Nefndin hefur að ósk allsherjarnefndar tekið fyrir á fundi sínum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, með síðari breytingum (24. mál).
    Þingskapanefnd tekur ekki undir efni frumvarpsins og eru fyrir því nokkrar ástæður, m.a. að það er í höndum kjararáðs að úrskurða um laun þingmanna og ráðherra. Þá hefur víðtæk samstaða verið meðal þingmanna um að viðurkenna með sérstökum álagsgreiðslum það álag sem fylgir formennsku í þingflokkum og nefndum.
    Nefndin vinnur nú að endurskoðun þingskapa og falla ákvæði um þingfararkaup og þingfararkostnað undir störf nefndarinnar. Málið er því í vinnslu í þingskapanefnd og rétt að bíða þess að hún ljúki störfum.


Alþingi, 19. maí 2011.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Árni Þór Sigurðsson.
Birgir Ármannsson.
Gunnar Bragi Sveinsson.
Ragnheiður E. Árnadóttir.
Þuríður Backman.
Birgitta Jónsdóttir.