Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 20. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 20  —  20. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
með síðari breytingum (margnota bleiur).

Flm.: Lilja Mósesdóttir, Birkir Jón Jónsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


1. gr.

    Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Margnota bleiur og bleiufóður sem falla undir tollskrárnúmer 9619.0091.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

3. gr.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á 96. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög, nr. 88/2005: Tollskrárnúmerið 9619.0090 skiptist upp og orðast svo:
                             
                        A     E
                        %     %
         –     Annars:
    9619.0091     –     –    Barnableiur og laust bleiufóður úr öðru en pappír eða vatti, margnota     15     0
    9619.0099     –     –     Annað     15     0

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að margnota bleiur verði færðar úr 25,5% virðisaukaskattsþrepi í 7% þrepið. Lækkun virðisaukaskatts á umhverfisvænum vörum er jákvæð og til þess fallin að margir sem ella fjárfesta ekki í slíkum vörum kjósa að kaupa þær. Ein vara sem er líklegt að skattbreytingar muni auka sölu á eru margnota taubleiur. Bleiukostnaður er þungur útgjaldaliður hjá barnafjölskyldum. Flutningsmenn leggja til að þessi hópur, þ.e. fjölskyldur með ungabörn, fái notið skattbreytinga af þessu tagi sem mundi koma sér vel fyrir margar fjölskyldur auk þess að hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Sambærilegar breytingar voru gerðar á virðisaukaskattsprósentunni af raf- og tvinnbílum í vor þegar ökutæki af því tagi voru færð niður um skattþrep vegna umhverfissjónarmiða. Ólíklegt verður að teljast að margir geti nýtt sér þær ívilnanir þar sem innkaupsverð á slíkum ökutækjum er rúmlega 5 millj. kr. Það er tilgangurinn með frumvarpi þessu að skapa umhverfisvæna skattaívilnun sem stærri hópar geta nýtt sér og verður ekki síður til góðs fyrir umhverfið og dregur úr notkun á einnota pappírsbleium.
    Samkvæmt upplýsingum á vef Umhverfisstofnunar notar hvert barn um 5–6 þúsund einnota bleiur á sínum fyrstu æviárum. Það gera um tvö tonn af sorpi og niðurbrotstími þessara tveggja tonna er um fimm hundruð ár í náttúrunni. Því hefur verið haldið fram að einnota pappírsbleiur og margnota bleiur mengi álíka mikið. Mengunin verði við framleiðslu og urðun á einnota bleium en við notkun margnota bleianna. Í þessum samanburði sem byggist á erlendum rannsóknum er gert ráð fyrir að við þvott á margnota bleium sé notað rafmagn sem framleitt er með mengandi orkugjöfum en ekki grænni orku. Það má fullyrða að sú orka sem fer í þetta hér á landi mengi ekki eins mikið og gert er ráð fyrir í þeim rannsóknum sem stuðst er við þar sem orkugjafar hér á landi eru grænni. Hér er notkun margnota bleia því umhverfisvænni kostur en notkun einnota bleia. Af þessum ástæðum leggja flutningsmenn til að margnota taubleiur verði færðar úr 25,5% virðisaukaskattsþrepi í 7%. Breytingin mun fyrst og fremst lækka útgjöld heimila sem eru með ungabörn og mjög þunga greiðslubyrði af fasteignalánum og því mikil búbót fyrir barnafólk í landinu.