Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 39. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 39  —  39. mál.




Frumvarp til laga



breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944,
með síðari breytingum (rýmri fánatími og notkun fánans í markaðssetningu).


Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Lúðvík Geirsson,
Árni Johnsen, Álfheiður Ingadóttir.


1. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Með reglugerð skal kveða á um fánadaga.
    Fána skal ekki draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og að jafnaði skal hann ekki vera uppi lengur en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis.
    Ef flaggað er við útisamkomu, opinbera athöfn, jarðarför eða minningarathöfn má fáni vera uppi lengur en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn varir, en þó aldrei lengur en til miðnættis.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. má fáni vera uppi allan sólarhringinn frá 15. maí til 15. ágúst ár hvert.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Heimilt er að nota hinn almenna þjóðfána í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu, enda sé vara eða starfsemi sú sem í hlut á íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð.
     b.      Á eftir 1. málsl. 4. mgr. kemur nýr málsliður sem orðast svo: Ráðuneytið veitir leyfi fyrir notkun þjóðfánans í vörumerki sem skal skrásetja.
     c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um nánari skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu.
                  Ráðherra sker úr um álitaefni og ágreining sem upp kann að koma um leyfilega notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Til 31. desember 2013 skal ráðuneytið standa að sérstakri kynningu nýrra reglna um notkun þjóðfánans hjá almenningi og fyrirtækjum með það að markmiði að notkun fánans aukist og verði í samræmi við ákvæði laganna og reglur settar á grundvelli þeirra.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvíþættar breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944. Lagt er til að reglum um þann tíma sem íslenski fáninn má vera við hún verði breytt þannig að sá tími verði rýmri yfir björtustu sumarmánuðina. Enn fremur er ætlunin að gera möguleika á notkun fánans við markaðssetningu á íslenskri framleiðslu aðgengilegri en hann hefur áður verið. Þingsályktunartillaga þess efnis að forsætisráðherra yrði falið að setja reglugerð um notkun þjóðfánans í því skyni að rýmka fánatíma hefur verið flutt á síðustu þremur löggjafarþingum en ekki hlotið afgreiðslu. Á 139. þingi flutti Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra frumvarp um breytingu á 12. gr. fánalaga í þá veru sem hér er lagt til, en frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu. Með frumvarpi þessu er lagt til að tekin verði samtímis þau skref að rýmka fánatíma og reglur um notkun fánans í markaðssetningarskyni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Núgildandi reglur um fánatíma eru í forsetaúrskurði um fánadaga og fánatíma nr. 5/1991. Hér er lagt til að ákvæði forsetaúrskurðarins um fánatíma verði færð í 7. gr. fánalaga og að heimilt verði að hafa fána uppi allan sólarhringinn yfir bjartasta tíma ársins eða frá 15. maí til 15. ágúst ár hvert. Forsætisráðherra hefur áfram heimild til að kveða á um það með reglugerð hvenær flagga eigi við opinberar stofnanir.
    Tilgangur þess að rýmka fánatímann er að auka almenna notkun þjóðfánans. Íslendingar eru stoltir af þjóðfána sínum og vilja margir flagga honum í meira mæli en leyfilegt hefur verið samkvæmt núgildandi reglum. Réttast er að flýta sér hægt við rýmkun fánatímans og rétt að byrja á því að heimila að fánanum verði flaggað allan sólarhringinn yfir björtustu sumarmánuðina, enda er hluta þessa tímabils sólsetur eftir miðnætti og sólarupprás skömmu síðar. Með rýmkun fánatímans að þessu leyti mundi aukin notkun fánans koma fram á sumrin og sérstaklega í íbúðar- og sumarhúsabyggð þar sem fólk þyrfti þá ekki að hafa áhyggjur af því að gleyma að taka fánann niður heldur gæti haft hann uppi við allan sólarhringinn og má þá ætla að fáninn muni blakta við hún fleiri daga en hann gerir nú.

Um 2. gr.


    Með lögum nr. 67/1998 var lögum nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, breytt m.a. á þá leið að forsætisráðuneytið fékk heimild til að veita leyfi til notkunar fánans í vörumerki eða á söluumbúðir, umbúðir um eða í auglýsingu á vörum enda væri starfsemi sú sem í hlut ætti að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælti fyrir um í reglugerð og fánanum ekki óvirðing gerð. Voru rökin fyrir þessari heimild m.a. þau að auka þyrfti frjálsræði um notkun fánans með sérstöku tilliti til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu. Tillaga að reglugerð fylgdi frumvarpinu en hún var þó aldrei sett, aðallega vegna þess að örðugt reyndist að skilgreina hlutlægar gæðaviðmiðanir sem nýst gætu til að uppfylla þetta skilyrði laganna á viðunandi hátt. Hefur því ekki verið hægt að verða við beiðnum um sérstakt leyfi til að nota fánann. Markmið þeirra breytinga á 12. gr. fánalaga sem lagðar eru til í þessu frumvarpi er að gera möguleikann á notkun þjóðfánans til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu aðgengilegri en áður hefur verið. Má ætla að notkun fánans í slíkum tilvikum geti verið til þess fallin að efla atvinnulíf og efnahag landsmanna. Má í þessu sambandi líta til framkvæmdar í Danmörku en þar hefur þjóðfáninn um langt skeið verið mikið notaður í markaðssetningu á dönskum vörum án þess að til þess hafi þurft sérstakt leyfi. Hefur notkun fánans í þessum tilgangi haft jákvæða þýðingu fyrir danska framleiðslu, svo sem í landbúnaði, og verið ákveðinn mælikvarði á gæði. Þrátt fyrir þá erfiðleika sem mætt hafa mörgum íslenskum fyrirtækjum síðustu missirin hefur framleiðsla á íslenskum afurðum eflst og dafnað og ber að styðja við þann vöxt. Áfram verður þó að hafa það að leiðarljósi að í engu sé skert virðing við fánann, hvorki í orði né verki.
    Ákvæði 4. mgr. 12. gr. laganna fjallar m.a. um heimild til notkunar á fánanum á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu. Sú breyting er gerð á málsgreininni að í stað þess að leyfi þurfi hjá forsætisráðuneyti til notkunar fánans í þessum tilgangi er heimildin orðin almenn en að uppfylltum skilyrðum. Þá er fellt brott það skilyrði að starfsemi sú sem í hlut á sé að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælir fyrir um með reglugerð. Í staðinn segir að starfsemi sú sem í hlut eigi sé „íslensk að uppruna“ og áfram þarf hún að vera þannig að fánanum sé ekki óvirðing gerð. Markmið þessarar breytingar er að auka möguleika á notkun fánans, íslenskri framleiðslu og þjónustu til framdráttar. Þrátt fyrir að skilyrði um gæði sé fellt brott er sú krafa eðli máls samkvæmt áfram til staðar, samofin því að fánanum sé ekki óvirðing gerð. Sama á við um orðalagið „íslensk að uppruna“. Orðalagið er nýtt í lögunum og leggur þær skyldur á herðar þeim sem nota fánann að það sé ekki gert á röngum forsendum eða villandi máta. Þannig má gera ráð fyrir að það feli í sér að matvæli teljist íslensk að uppruna ef t.d. grænmeti og ávextir eru ræktaðir hér á landi, kjöt er af íslenskum húsdýrum eða villibráð og mjólkurvörur úr íslenskri mjólk. Ekki nægi að vörurnar séu innfluttar en pakkað hér á landi. Öðru máli kann að gegna um annan varning sem geti vel talist íslenskur þótt úr erlendu hráefni sé, t.d. framleiðslu á íslenskri hönnun, húsgögnum eða fatnaði, o.s.frv. Þá er lagt til að forsætisráðherra fái sérstaka heimild til að setja nánari reglur um skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæðinu og tiltekið að það sé hlutverk forsætisráðherra að skera úr um álitaefni og ágreining sem upp kann að koma um leyfilega notkun fánans samkvæmt framangreindu.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Lagt er til að forsætisráðuneytið standi fyrir sérstöku átaki til kynningar á þeim nýju reglum um notkun þjóðfánans sem frumvarp þetta hefur í för með sér. Mikilvægt er að einstaklingum og fyrirtækjum sé ljóst hvaða reglur gilda um fánann og hvernig beri að nota hann. Eins og vikið hefur verið að getur notkun íslenska fánans í markaðssetningu á íslenskum vörum verið íslenskri framleiðslu mjög til framdráttar og nauðsynlegt að fyrirtækjum og framleiðendum sé ljóst að þeir megi nota fánann við markaðssetningu og einnig að þeim sé ljóst hvaða reglur gildi þar um. Lagt er því til að ráðuneytið sjái um kynningu nýju reglnanna út árið 2013.