Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 121. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 121  —  121. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stuðning við íslenska tónlist.

Flm.: Skúli Helgason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Guðmundur Steingrímsson,
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir,
Gunnar Bragi Sveinsson, Magnús Orri Schram, Björn Valur Gíslason, Atli Gíslason,
Lilja Mósesdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þráinn Bertelsson,
Tryggvi Þór Herbertsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að mynda starfshóp sem móti tillögur um aðgerðir til að styðja við íslenskt tónlistarlíf.
    Starfshópurinn skoði m.a. hvernig efla megi sköpun, tónleikahald, útgáfu, kynningar- og markaðsstarf, rannsóknar- og þróunarstarf og útflutning á íslenskri tónlist. Þar verði m.a. litið til þess hvar og hvernig best er staðið að stuðningi hins opinbera við tónlistarlíf í samanburðarlöndum. Markmið hópsins verði m.a. að skapa aukið jafnræði milli einstakra greina tónlistarinnar hvað varðar opinberan stuðning, framlög og aðkomu að stefnumótun.
    Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF) Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda (SFH) og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) auk tveggja fulltrúa sem ráðherra tilnefnir. Lagt er til að starfshópurinn skili niðurstöðum eigi síðar en 1. maí 2013.

Greinargerð.


    Mikilvægi íslenskrar tónlistar fyrir íslenska menningu, landkynningu og ímynd verður seint metið til fjár. Viðhorfskannanir á liðnum árum gefa til kynna að íslensk menning almennt og þá sérstaklega íslensk tónlist sé mikilvægur og vaxandi áhrifaþáttur í vali erlendra ferðamanna á Íslandi sem áfangastað. Ferðamálastofa gerði könnun meðal ferðamanna við brottför þeirra úr landi sumarið 2011 og í ljós kom að um 40% kváðu íslenska menningu og sögu hafa leikið mikilvægt hlutverk við ákvörðun um Íslandsferð. Þessi tala er enn hærri þegar litið er til vetrarferðamanna sem sækjast sérstaklega eftir borgarferðum og hafa mikinn áhuga á menningu.
    Í könnun sem alþjóðlega greiðslukortafyrirtækið American Express gerði á meðal viðskiptavina sinna árið 2009 komst Ísland á lista yfir tíu eftirsóttustu áfangastaðina. Þegar spurt var um ástæðuna svöruðu langflestir að íslenskt tónlistarlíf kveikti áhugann og má rekja það til landvinninga nokkurra íslenskra tónlistarmanna á alþjóðavettvangi. 1 Sykurmolarnir, Björk, Sigur Rós, múm, Gus Gus, Emilíana Torrini, Mezzoforte, Of Monsters and Men og Retro Stefson að ógleymdri Sinfóníuhljómsveit Íslands hafa náð miklum árangri með list sinni undanfarna áratugi og því hefur fylgt jákvæð fjölmiðlaumfjöllun víða á Vesturlöndum.

Umsvif og hagræn áhrif.
    Ekki liggja fyrir nýjar upplýsingar um heildarveltu tónlistarlífsins á Íslandi eða fjölda starfa í greininni. Í rannsókn á hagrænum áhrifum skapandi greina kom fram að velta í skapandi greinum var áætluð 189 milljarðar kr. árið 2009, þar af voru framlög ríkis og sveitarfélaga 25 milljarðar kr. Ársverk í skapandi greinum voru í sömu rannsókn áætluð 9.371. 2 Ágúst Einarsson hagfræðingur lagði mat á hagræn áhrif íslenskrar tónlistar fyrir tæpum áratug og var niðurstaða hans sú að velta tengd tónlist hefði losað 8,5 milljarða kr. árið 2003 eða um 20% af veltu fyrirtækja í menningargeiranum. Ágúst áætlaði að fjöldi starfa við tónlist á Íslandi hefði verið 1200, eða um fjórðungur starfa í menningargeiranum í landinu. 3 Eitt stærsta aðdráttarafl landsins fyrir erlenda ferðamenn utan háannatíma er tónlistarhátíðin Iceland Airwaves sem skapar hundruð milljóna króna veltu fyrir ríki og borg á ári hverju, og hefur verið starfrækt vel á annan áratug. Uppselt hefur verið á hátíðina undanfarin sjö ár og 7000 miðar hafa verið seldir á hátíðina í ár. Svo bregður við í fyrsta sinn að fleiri miðar eru seldir erlendum gestum en innlendum og hefur hlutdeild erlendra gesta vaxið úr 35% árið 2010 í 54% árið 2012. Velta erlendra gesta sem sóttu hátíðina var áætluð um 430 millj. kr. árið 2010 en ríflega helmingi hærri eða 664 millj. kr. árið 2011. Áætlað er að veltan aukist í tæpan milljarð króna á árinu 2012. 4

Nýjar áskoranir.
    Íslenskir tónlistarmenn hafa notið verðskuldaðrar athygli á alþjóðavettvangi en það er þó fremur undantekningin sem sannar regluna um að smáþjóðir eins og Ísland geti ekki vænst þess að vinna stóra sigra með reglubundnum hætti á alþjóðlegum markaði nema til komi markviss stefnumótun og stuðningur við íslenskt tónlistarlíf.
    Hinn alþjóðlegi tónlistariðnaður hefur tekið stakkaskiptum með tilkomu stafrænnar miðlunar tónlistar og hefur það skapað tónlistarmönnum ný og spennandi tækifæri til frekari útbreiðslu og stóraukið aðgengi tónlistarunnenda að tónlist sem er að sjálfsögðu jákvæð þróun. Hins vegar hefur þróunin komið hart niður á tilteknum þáttum tónlistariðnaðarins hér á landi, einkum hvað varðar innflutning á erlendri tónlist. Óhætt er að segja að sala á erlendri tónlist hafi hrunið á Íslandi en hún hefur dregist saman um ríflega 80% á undanförnum áratug. Ljóst er að dreifingaraðilar hér á landi munu hafa óverulegar tekjur af sölu á erlendri tónlist í framtíðinni. Þróun á alþjóðamarkaði er sambærileg og hefur leitt til aukins atvinnuleysis meðal tónlistarmanna. Erlendar athuganir gefa til kynna að listamönnum sem hafa tónlist að atvinnu hafi fækkað um fjórðung frá árinu 2000 og tekjur af útgefinni tónlist dregist saman um 64% á rúmum áratug. 5 Á sama tíma hefur notkun á tónlist stóraukist, mest vegna streymis og niðurhals í gegnum ólöglegar vefsíður.
    Mikilvægt er að greina atvinnustig og atvinnuhorfur tónlistarmanna á Íslandi til samanburðar.

Barátta við ólöglega dreifingu tónlistar.
    Ein helsta áskorun tónlistargeirans á Íslandi og á alþjóðavettvangi er baráttan við ólöglega dreifingu tónlistar. Í könnun á neyslu og niðurhali á tónlist sem Capacent Gallup gerði í mars 2011 fyrir Innheimtumiðstöð gjalda kom fram að sala á hljómdiskum innanlands væri ríflega 800 þúsund eintök eða um 40% af áætluðum heildarmarkaði á ársgrundvelli. Ríflega 9% hljómdiska eru keypt erlendis, keypt tónlist á netinu nemur tæpum 7% en þá standa eftir um 44% sem eru ólöglega fengin, með niðurhali á netinu (27,3%) eða láni á stafrænu formi frá vinum, kunningjum eða ættingjum (16,6%). Athygli vekur að tæpur helmingur þeirra sem hala niður tónlist á netinu án þess að greiða fyrir hana telur að hann mundi hætta niðurhali ef hann fengi aðvörun frá netþjónustuaðila um lagalegar afleiðingar niðurhalsins. 56% mundu að líkindum hætta niðurhali ef netþjónustuaðilar gætu lokað fyrir netaðgang þeirra sem hunsa margar aðvaranir um lagalegar afleiðingar niðurhals. Könnunin gefur jafnframt til kynna stuðning yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar við þá stefnu að listamenn og rétthafar fái greitt fyrir notkun á höfundaverkum þeirra. 6
    Í samantekt samstarfsvettvangs rétthafa um hugverkavernd kemur fram að áætlað smásöluvirði verka sem miðlað er í gegnum ólöglegt niðurhal á Ísland sé um 1,7 milljarðar kr. á ári en beint sölutap vegna niðurhals um 300 millj. kr. ef mið er tekið af fyrrnefndri könnun Capacent Gallup þar sem fram kom að tæp 17% aðspurðra hefðu keypt efnið ef ólöglegar leiðir væru ekki í boði.
    Ólögleg dreifing tónlistar hefur haft í för með sér að störf tónlistarmanna og annarra í geiranum hafa tapast enda hafa fjárhagsleg skilyrði fyrir nýsköpun, þróun og framleiðslu verkefna skaðast verulega. Ríkissjóður verður að auki af miklum tekjum vegna missis tekna af virðisaukaskatti og öðrum sköttum sem greiðast ættu af réttum viðskiptum með þetta efni. Tekjutap ríkissjóðs nemur af þessum sökum a.m.k. 500 millj. kr. árlega. 7

Fjárfestingaáætlun 2013–2015.
    Í fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir tímabilið 2013–2015 er lagt til að settur verði á fót verkefnasjóður skapandi greina. Varið verði 750 millj. kr. til sjóðsins á tímabilinu. Einn tilgangur þessa sjóðs er að efla íslenska tónlist og eðlilegt er að líta á vinnu starfshópsins í samhengi við þá stefnumörkun.

Markmið og verkefni starfshóps.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að stofnaður verði starfshópur sem greini hvernig megi auka stuðning hins opinbera við sköpun, þróun, útgáfu, kynningu, markaðssetningu og útflutning á íslenskri tónlist. Sérstök áhersla verði lögð á stuðning við unga og upprennandi tónlistarmenn með stoðþjónustu sem geri þeim kleift að afla sér reynslu af útgáfustarfsemi og tónleikahaldi, sem geti m.a. nýst í markaðssókn á alþjóðlegum vettvangi.
    Lagt verði mat á það hvort íslenskt tónlistarlíf nýtur jafnræðis gagnvart öðrum listgreinum hvað varðar framlög hins opinbera. Þá verði sérstaklega tekið til athugunar aðgengi sígildrar tónlistar annars vegar og svokallaðrar hryntónlistar (dægurtónlistar) hins vegar að opinberu fjármagni með það fyrir augum að tryggja þar eðlilegt jafnvægi.
    Greina þarf styrkleika og veikleika tónlistargeirans hvað varðar útgáfu, miðlun og útflutning með tilliti til samkeppnisstöðu gagnvart helstu samanburðarlöndum. Þar þarf að huga að því hvernig megi styrkja stöðu íslenskra tónlistarmanna gagnvart alþjóðlegri samkeppni á sviði höfundarréttar og útgáfuréttar, sem og hvernig megi efla uppbyggingu fagaðila á borð við umboðsmenn, sérfræðinga á sviði samningsréttar og tónleikahaldara svo eitthvað sé nefnt.
    Leitað verði leiða sem tryggja listamönnum og rétthöfum sanngjarna þóknun fyrir löglega notkun höfundaverka þeirra á sama tíma og staðinn verði vörður um þann stóraukna aðgang neytenda að tónlist sem skapast hefur með stafrænni miðlun.
    Rétt er að skoða mismunandi leiðir til að fjármagna stuðning hins opinbera við íslenska tónlist.
    Lagt er til að starfshópurinn meti hvort tilefni er til að taka til endurskoðunar þá skipan að tónleikahald sé undanþegið virðisaukaskatti, en slík breyting mundi skapa tónlistarmönnum og tónleikahöldurum svigrúm til að nýta innskatt á móti útskatti.
    Lagt er til að metinn verði fýsileiki þess að setja á fót sjóð til að styðja við bakið á ungum og efnilegum íslenskum tónlistarmönnum með áherslu á styrki til sköpunar, þróunar og tónleikahalds um land allt, sem geti að auki greitt leiðir þeirra á aðra markaði.
    Brýnt er að skoða hvernig nýta megi tilkomu tónlistarhússins Hörpu til að efla tónleikahald til framtíðar með það fyrir augum að jafnræði ríki milli mismunandi tónlistargeira varðandi aðgengi, leigukjör o.s.frv.
    Tryggja þarf sérstakan stuðning við útflutning íslenskrar tónlistar, með stofnun og rekstrarfé til handa útflutnings- og verkefnasjóði íslenskrar tónlistar.
    Kannað verði hvernig efla megi tónleikahald, ekki síst á landsbyggðinni, svo sem með auknum aðgangi tónlistarmanna og tónleikahaldara að fjármagni sem úthlutað verði á samkeppnisgrundvelli. Heimilt verði að nýta hluta styrks til að standa straum af kynningar- og markaðskostnaði vegna viðkomandi tónleikahalds.



Neðanmálsgrein: 1
1     „Ísland á top 10 lista American Express.“ Mbl.is, 18. febrúar 2009.
Neðanmálsgrein: 2
2     Dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir og Tómas Young: Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina. 2011.
Neðanmálsgrein: 3
3     Ágúst Einarsson: Hagræn áhrif tónlistar. 2004.
Neðanmálsgrein: 4
4     Könnun á meðal erlendra gesta á Iceland Airwaves 2011. Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar. 2011.
Neðanmálsgrein: 5
5     David Lowery: grein í The Trichordist 18. júní 2012, www.thetrichordist.wordpress.com.
Neðanmálsgrein: 6
6     Neysla og niðurhal á tónlist – könnun Capacent Gallup fyrir Innheimtumiðstöð gjalda, mars 2011. Þar kemur m.a. fram að yfir 90% aðspurðra telja siðferðilega rétt að listamenn/rétthafar fái greitt fyrir notkun á höfundarverkum þeirra.
Neðanmálsgrein: 7
7     „Ólögmæt dreifing kvikmynda og tónlistar á netinu.“ Samantekt samstarfsvettvangs rétthafa um hugverkavernd.