Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 213. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 220  —  213. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000 (skipting þingsæta).


Flm.: Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir.



1. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Þingsæti eru 63 og skiptast þannig milli kjördæma:

    Norðvesturkjördæmi     6 þingsæti, öll kjördæmissæti.
    Norðausturkjördæmi     8 þingsæti þar af 7 kjördæmissæti og 1 jöfnunarsæti.
    Suðurkjördæmi     9 þingsæti, þar af 8 kjördæmissæti og 1 jöfnunarsæti.
    Suðvesturkjördæmi     16 þingsæti, þar af 14 kjördæmissæti og 2 jöfnunarsæti.
    Reykjavíkurkjördæmi suður     12 þingsæti, þar af 10 kjördæmissæti og 2 jöfnunarsæti.
    Reykjavíkurkjördæmi norður     12 þingsæti, þar af 10 kjördæmissæti og 2 jöfnunarsæti.

    Þrátt fyrir 1. mgr. getur landskjörstjórn breytt fjölda kjördæmissæta í hverju kjördæmi í samræmi við 9. gr.

2. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Eftir hverjar alþingiskosningar skal landskjörstjórn skipta kjördæmissætum milli kjördæma fyrir næstu þingkosningar. Þingsætum, að meðtöldum jöfnunarsætum skv. 1. mgr. 8. gr., skal skipt í réttu hlutfalli við tölu kjósenda á kjörskrá að baki hverju þingsæti í nýafstöðnum kosningum. Stærstu leifar ráða úthlutun síðustu þingsæta.
    Við skiptingu þingsæta skv. 1. mgr. skal þess þó gætt að ekkert kjördæmi hljóti færri en sex kjördæmissæti, sbr. 3. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar.
    Landskjörstjórn auglýsir skiptingu þingsæta í Stjórnartíðindum jafnskjótt og hún hefur verið gerð.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 140. löggjafarþingi (740. mál).
    Með frumvarpinu eru lagðar til grundvallarbreytingar á kosningalögum. Lögð er til ný skipting þingsæta milli kjördæma. Ekki eru gerðar breytingar á kjördæmaskipaninni sjálfri heldur eru kjördæmin látin halda sér. Þetta er gert í þeim tilgangi að ná fram fullum jöfnuði í vægi atkvæða auk þess að tryggja aukið gegnsæi kosningareglnanna. Með þessum breytingum er tryggt að öll framboð standa jöfn að vígi í hverju kjördæmi fyrir sig.