Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 221. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 229  —  221. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (vernd gegn mismunun vegna kynvitundar).

Flm.: Eygló Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Birgitta Jónsdóttir,
Mörður Árnason, Guðmundur Steingrímsson, Álfheiður Ingadóttir.


1. gr.

    Í stað orðanna „trúarbragða eða kynhneigðar“ í 1. mgr. 180. gr. laganna kemur: trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar.

2. gr.

    Í stað orðanna „trúarbragða eða kynhneigðar“ í 233. gr. a laganna kemur: trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    31. mars 2010 samþykkti ráðherranefnd Evrópuráðsins tilmæli CM/Rec(2010)5 til aðildarríkja um aðferðir til að berjast gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar (e. Recommendation of the Committee of Ministers to member states on measures to combat discrimination on grounds of sexual orientation or gender identity). Í tilmælunum, sem lúta að réttindum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks, er vakin athygli á því að mannréttindi þessara hópa þarfnist sérstakra aðgerða eigi þau að vera virk. Í tilmælunum eru aðildarríkin í fyrsta lagi hvött til að skoða og hafa í stöðugri endurskoðun löggjöf og framkvæmd um beina og óbeina mismunun vegna kynhneigðar eða kynvitundar. Í öðru lagi að tryggja að löggjöf og framkvæmd sé samþykkt og beitt til að berjast gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar með það að markmiði að tryggja virðingu fyrir mannréttindum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks. Í þriðja lagi eiga aðildarríkin að tryggja að þolendur mismununar hafi aðgang að virkum réttarúrræðum og að mismununarbrotum fylgi viðurlög og hæfilegar bætur þeim til handa.
    Á 140. löggjafarþingi voru samþykkt á Alþingi lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, nr. 57/2012. Tilurð laganna má rekja til álits setts umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4919/2007 frá 27. apríl 2009. Kom þar fram að réttarbótar væri þörf til að tryggja grundvallarmannréttindi transfólks með vísan til 71. gr. stjórnarskrárinnar. Nefnd sú sem samdi frumvarp það er varð að lögum um réttarstöðu fólks með kynáttunarvanda, nr. 57/2012, vakti athygli á því við velferðarráðherra og innanríkisráðherra að nauðsynlegt væri að leggja til breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er lúta annars vegar að refsiverðri mismunun í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi og hins vegar að smánun annarrar manneskju vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar. Nefndin taldi eðlilega að breyta mætti ákvæðum laganna á þá leið að kynvitund væri einnig talin upp í ákvæðunum.
    Markmið þessa frumvarps er því að tryggja réttarstöðu transfólks með því að leggja til að refsivert verði fyrir aðila í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi að neita manni um vöru eða þjónustu vegna kynvitundar hans, og að sama skapi verði refsivert að ráðast opinberlega með háði, smánun, ógnun eða á annan hátt á mann vegna kynvitundar hans. Í því skyni eru lagðar til breytingar á 180. gr. og 233. gr. a almennra hegningarlaga. Síðarnefnda ákvæðið var upphaflega lögfest með lögum nr. 96/1973 vegna aðildar Íslands að samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis. Árið 1996 var samþykkt á Alþingi breyting á almennum hegningarlögum þar sem orðinu kynhneigð var bætt inn í fyrrnefnd lagaákvæði til að tryggja samkynhneigðum og tvíkynhneigðum vernd samkvæmt ákvæðunum. Með samþykkt þessa frumvarp verður vernd transfólks gegn mismunun sambærileg og nú gildir vegna mismununar á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða og kynhneigðar. Transfólk verður reglulega fyrir mismunun vegna kynvitundar sinnar eins og dæmin sanna og því telja flutningsmenn einkar mikilvægt að næsta skref í að bæta réttarstöðu og tryggja mannréttindi transfólks á Íslandi verði stigið með því að gera þessa nauðsynlegu réttarbót á almennum hegningarlögum.