Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 264. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 295  —  264. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002,
með síðari breytingum (útreikningar fjárhæða, fjármögnun niðurgreiðslna).


Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Árni Johnsen, Tryggvi Þór Herbertsson,
Gunnar Bragi Sveinsson, Kristján L. Möller, Björgvin G. Sigurðsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Atli Gíslason, Sigmundur Ernir Rúnarsson,
Jón Bjarnason, Ásmundur Einar Daðason.

1. gr.

    1. málsl. 1. gr. laganna orðast svo: Lög þessi mæla fyrir um niðurgreiðslur kostnaðar og styrkveitingar, öflun og úthlutun fjár sem ákveðið er í fjárlögum til.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Ef ákveðið er í fjárlögum að ráðstafa fé til niðurgreiðslna á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis skal það gert“ í 1. málsl. kemur: Niðurgreiðslur á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis skulu eiga sér stað.
     b.      Í stað orðsins „olíu“ í 1. og 2. málsl. 3. tölul. kemur: eldsneyti.
     c.      Orðin „og raforkunotkun veitunnar til hitunar vatns er meira en 10% af heildarorkuöflun veitunnar“ í 4. tölul. falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Upphæð niðurgreiðslna á raforku til húshitunar skal nema jafngildi kostnaðar við flutning og dreifingu raforkunnar frá virkjun til notanda.
                  Upphæð niðurgreiðslna á eldsneyti skal byggð á áætlun út frá notkun og stærð húsnæðis skv. 8. gr. og útreikningi, samanburði á meðaltalshitunarkostnaði með raforku annars vegar og meðaltalshitunarkostnaði með eldsneytishitun hins vegar. Miða skal upphæð niðurgreiðslnanna við að kostnaður notenda verði svipaður og þar sem hann er hæstur með rafhitun hinn 1. janúar 2013. Ársfjórðungslega frá þeim degi skal upphæð niðurgreiðslnanna hækka eða lækka til samræmis við hlutfallslegar breytingar á niðurgreiðslum á raforku til húshitunar.
                  Upphæð niðurgreiðslna á vatni frá kyntum hitaveitum skal ákveðin í samræmi við fjárhæð slíkra niðurgreiðslna sem samþykkt er í fjárlögum viðkomandi árs. Ráðherra skal ár hvert ákveða upphæð niðurgreiðslna á raforku í kr./kWst eða kr./m 3 fyrir hverja hitaveitu.
     b.      Í stað orðanna „hámarksfjölda lítra af olíu“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: hámarksfjölda lítra af olíu og hámarksfjölda kílóa eða rúmmetra af tilteknum tegundum eldsneytis.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „olíu“ í 1. málsl. kemur: eldsneyti.
     b.      Í stað orðsins „olíukaup“ í 2. málsl. kemur: eldsneytiskaup.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Ákvörðun notkunar við eldsneytishitun.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „olíu“ kemur: eldsneyti.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Framkvæmd niðurgreiðslu á eldsneyti.

6. gr.

    Í stað 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Veita skal styrki til stofnunar nýrra hitaveitna eða til stækkunar eldri veitna. Styrkjunum skal varið til eftirfarandi þátta.

7. gr.

    Í stað orðsins „olíu“ í 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: eldsneyti.

8. gr.

    Á eftir III. kafla laganna kemur nýr kafli, III. kafli A, Fjármögnun niðurgreiðslna húshitunar, hitaveituframkvæmda, jarðhitaleitar o.fl., með átta nýjum greinum, 17.–24. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytast númer annarra greina samkvæmt því:

    a. (17. gr.)

Skattur af raforku og heitu vatni.

    Til að standa straum af niðurgreiðslu kostnaðar við kaup á raforku, á eldsneyti til húshitunar og á vatni frá kyntum hitaveitum, af styrkjum vegna stofnunar nýrra hitaveitna, umhverfisvænnar orkuöflunar, bættrar orkunýtingar, jarðhitaleitar og orkusparnaðaraðgerða skulu skattskyldir aðilar skv. 18. gr. greiða í ríkissjóð sérstakan skatt af seldri raforku og heitu vatni eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    Fjárhæð skatts af raforku skal vera 0,10 kr. á hverja kílóvattstund (kWst) af seldri raforku.
    Fjárhæð skatts af heitu vatni skal vera 1,0% af smásöluverði á heitu vatni.
    Heimilt er að miða innheimtu skatts af raforku og heitu vatni við áætlaða sölu.

    b. (18. gr.)

Skattskyldir aðilar.

    Skattskyldan nær til þeirra aðila sem selja raforku og heitt vatn á síðasta stigi viðskipta, þ.e. sölu til notenda, en notandi telst vera sá sem endurselur ekki raforku eða heitt vatn.
    Undanþegnir skattskyldu skv. 1. mgr. eru þeir sem selja raforku eða heitt vatn fyrir minna en 500.000 kr. á ári.
    Ríkisskattstjóri heldur skrá yfir skattskylda aðila samkvæmt þessari grein. Skattskyldir aðilar skulu ótilkvaddir senda ríkisskattstjóra tilkynningu um skattskylda starfsemi áður en starfsemi hefst.

    c. (19. gr.)
    Til skattskyldrar sölu eða afhendingar telst ekki:
     1.      Raforka eða heitt vatn sem er afhent öðrum skattskyldum aðila.
     2.      Raforka eða heitt vatn sem er afhent eða notað eingöngu til framleiðslu á raforku eða heitu vatni til endursölu.
    Ráðherra er með reglugerð heimilt að kveða nánar á um skilyrði og framkvæmd vegna undanþágu frá greiðslu skatts af raforku og heitu vatni.

    d. (20. gr.)
    Skattskyldir aðilar skulu við sölu eða afhendingu á raforku eða heitu vatni gefa út sölureikning þar sem eftirfarandi upplýsingar koma fram:
     1.      Útgáfudagur.
     2.      Útgáfustaður.
     3.      Afhendingarstaður ef annar en útgáfustaður.
     4.      Nafn og kennitala seljanda.
     5.      Nafn og kennitala kaupanda.
     6.      Magn, einingarverð og heildarverð á raforku eða heitu vatni.
    Auk upplýsinga sem tilgreindar eru í 1. mgr. skal á sölureikningi koma fram hvort skattur af raforku og heitu vatni er lagður á og hver fjárhæð hans er. Um varðveislu sölureikninga gilda ákvæði laga nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.

    e. (21. gr.)

Álagning.

    Ríkisskattstjóri annast álagningu skatts af raforku og heitu vatni á þá aðila sem eru skráningarskyldir skv. 18. gr., vegna sölu þeirra á raforku eða heitu vatni.

    f. (22. gr.)

Uppgjör og innheimta.

    Skylda til að innheimta skatt af raforku og heitu vatni og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á þeim aðilum sem selja raforku eða heitt vatn til endanlegra notenda, í samræmi við ákvæði raforkulaga, nr. 65/2003, og orkulaga, nr. 58/1967.
    Skattskyldir aðilar sem hlotið hafa skráningu skv. 18. gr. skulu greiða skatt af raforku og heitu vatni fyrir hvert uppgjörstímabil miðað við sölu.
    Við uppgjör skatts af raforku og heitu vatni má draga frá fjárhæð sem nemur sannanlega töpuðum útistandandi kröfum eða ofgreiddum skatti, sbr. 4. mgr. 17. gr., af raforku og heitu vatni sem áður hefur verið skilað í ríkissjóð.

    g. (23. gr.)

Uppgjörstímabil og skýrslur.

    Uppgjörstímabil skatts af raforku og heitu vatni er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir. Eigi síðar en á gjalddaga skulu skattskyldir aðilar, sem hlotið hafa skráningu skv. 18. gr., ótilkvaddir skila innheimtumanni ríkissjóðs skýrslu yfir magn gjaldskyldrar raforku og heits vatns á uppgjörstímabilinu og standa skil á greiðslu skattsins. Ráðherra kveður í reglugerð á um greiðslustaði, greiðslufyrirkomulag og efni skýrslu, þar á meðal hvernig rafrænum skilum á skýrslu og greiðslu skuli háttað.

    h. (24. gr.)

Lagaskil.

    Að því leyti sem ekki er ákveðið í lögum þessum um álagningu, tilhögun bókhalds, eftirlit, upplýsingaskyldu, viðurlög, kærur og aðra framkvæmd varðandi skatt af raforku og heitu vatni skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
    Skattur sem er lagður á samkvæmt lögum þessum myndar gjaldstofn til virðisaukaskatts.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta, með síðari breytingum.

Greinargerð.

    Umræður um lækkun húshitunarkostnaðar á þeim svæðum þar sem hann er hæstur hafa verið fyrirferðarmiklar árum saman. Ýmislegt hefur verið gert til þess að draga úr þessum kostnaði. Gert hefur verið átak í jarðhitaleit, sem víða hefur borið árangur og lækkað húshitunarkostnað. Um langt árabil hefur orkukostnaður verið niðurgreiddur til þess að stuðla að því að lækka húshitunarkostnað. Stundum hefur vel tekist til og niðurgreiðslurnar hafa nægt til þess að lækka þennan kostnaðarlið. En á öðrum tímum hefur gengið miður. Allt er þetta háð afgreiðslu fjárlaga á ári hverju og því hefur húshitunarkostnaður ráðist af því hversu mikið fjármagn hefur verið veitt til þessa málaflokks. Á undanförnum árum hafa niðurgreiðslur vegna húshitunarkostnaðar lækkað að raungildi og þessi kostnaðarliður heimila og fyrirtækja því vaxið. Er nú svo komið að þessi kostnaður vegur orðið mjög þungt í heimilisbókhaldi þeirra sem búa á svokölluðum „köldum svæðum“, þ.e. svæðunum þar sem húshitunarkostnaður er mestur.
    Um 90% Íslendinga búa svo vel að hafa aðgang að ódýrum og umhverfisvænum jarðhita í formi jarðvarmaveitna. Um 10% landsmanna hafa hins vegar ekki aðgang að þessari auðlind og þurfa að notast við rafhitun eða olíu. Slík hitun er margfalt dýrari og til að koma í veg fyrir að lítill hluti landsmanna þurfi að greiða margfalt hærra verð fyrir upphitun íbúðarhúsnæðis eru raforka og olía til hitunar niðurgreiddar að hluta. Þær aðgerðir sem grípa þarf til, svo lækka megi húshitunarkostnaðinn, ná því aðeins til um 10% heimila í landinu og ættu því vel að vera viðráðanlegar.
    Á fundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var á Ísafirði 5. apríl 2011 var samþykkt að unnið yrði að því með Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum að leita leiða til að lækka og jafna húshitunarkostnað. Í kjölfarið var skipaður starfshópur sem fékk eftirfarandi hlutverk í skipunarbréfi iðnaðarráðuneytisins:
          Yfirfara lög nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, og koma með tillögur til úrbóta varðandi framkvæmd laganna.
          Setja fram tillögur um framkvæmd og fjármögnun niðurgreiðslna til húshitunar.
          Gera tillögur um viðmið fyrir húshitunarkostnað.
          Yfirfara þær aðgerðir sem nú er beitt varðandi orkusparnað á köldum svæðum og koma fram með tillögur um frekari aðgerðir á því sviði.
    Starfshópurinn skilaði áliti sínu í lok desember sl. Meginefni tillagnanna var eftirfarandi:
    „Tillögu starfshópsins má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er lagt til að grundvallarbreyting verði gerð á niðurgreiðslukerfinu þannig að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu. Kerfið verður þá sjálfvirkt þar sem öllum breytingum á verði á raforkudreifingu yrði mætt með sjálfvirkum hætti án þess að sérstök ákvörðun þurfi að liggja þar að baki.
    Í öðru lagi er gerð tillaga að breyttri fjármögnun niðurgreiðslna. Tillaga hópsins er að jöfnunargjald verði sett á hverja framleidda kWst sem næmi þeim kostnaði sem nauðsynlegur er á hverjum tíma til að niðurgreiða að fullu flutning og dreifingu raforku til upphitunar íbúðarhúsnæðis.
    Í þriðja lagi gerir hópurinn nokkrar tillögur sem snúa að frekari jarðvarmaveituuppbyggingu og bættri orkunýtni, þar ber hæst að starfshópurinn leggur til að jöfnunargjald verði lagt á hitaveitur, svipað og á raforkuframleiðslu, sem geti ávallt tryggt viðgang og vöxt jarðvarmaveitna. Einnig er lagt til að heimilt verði að lengja stofnstyrkjaframlagið í allt að 12 ár ef þörf krefur.
    Hugmyndir um breytingar á kerfinu og fjármögnun eru óháðar hver annarri, þ.e.a.s. að hægt er að gera umræddar breytingar á kerfinu með núverandi fjármögnun og öfugt.“
    Í því frumvarpi sem þessi greinargerð fylgir er sú stefna mótuð að fylgja mjög nákvæmlega þeirri aðferð sem starfshópurinn skilaði. Þær tillögur eru að mati flutningsmanna ábyrgar og raunsæjar. Starfshópurinn kannaði ýmsa kosti bæði varðandi þau markmið sem eðlilegt væri að setja sér um jöfnun húshitunarkostnaðar sem og fjármögnun þeirra aðgerða. Þessi starfshópur var skipaður fulltrúum þeirra svæða sem búa við mikinn húshitunarkostnað og þekkja því vel vandann sem við er að etja. Í honum sátu einnig fulltrúar stjórnvalda, þannig að telja má víst að tillögurnar njóti stuðnings þeirra og loks voru þar sérfróðir aðilar sem hafa sérstaklega kynnt sér þessi mál.
    Stjórnvöld hafa þegar beitt sér fyrir einni lagabreytingu sem byggist á tillögum nefndarinnar. Þar var um að ræða afmarkað efni sem hefur mikla þýðingu fyrir tiltekin sveitarfélög en varðar ekki miklu þegar heildarsamhengið er skoðað. Í meðförum atvinnuveganefndar á því máli var gerð mikilvæg breyting. Hingað til hafa lög heimilað að nýta megi niðurgreiðslur vegna húshitunarkostnaðar í allt að átta ár til þess að lækka kostnað við fjárfestingu við jarðvarmaveitur til þess að stuðla að frekari framkvæmdum á því sviði. Atvinnuveganefnd lagði hins vegar til að nýta mætti í 12 ár niðurgreiðslur sem runnið hafa til lækkunar húshitunarkostnaðar í þessu skyni. Hefur það fyrirkomulag nú orðið að lögum og mun örugglega stuðla að frekari fjárfestingum á sviði jarðvarmaveitna, sem mun því lækka niðurgreiðsluþörf til lengri tíma.
    Enginn vafi er á því að hinn mikli húshitunarkostnaður sem um 10% landsmanna býr við hefur stuðlað að búseturöskun og veikt þessi samfélög. Þessi þungi kostnaðarliður er í raun ávísun á lakari lífskjör og letur því fólk mjög til búsetu á þessum svæðum.
    Rannsóknir sem gerðar hafa verið á byggðaþróun sýna fram á þessi neikvæðu áhrif. Má það til dæmis sjá á mynd í fylgiskjali II og Þóroddur Bjarnason, prófessor og stjórnarformaður Byggðastofnunar, hefur útbúið.
    Hér er því mikið í húfi. Ætla má að um þetta mál geti tekist góð pólitísk samstaða. Ákall um aðgerðir á sviði húshitunarmála hefur borist úr öllum stjórnmálaflokkum. Á Alþingi hefur oft verið fjallað um þessi mál. Hingað til hefur þeirri aðferð verið beitt að reiða sig á niðurgreiðslur sem hafa ráðist af fjárlögum og því skapað óvissu og sveiflur á húshitunarkostnaði. Með tillögum starfshóps þess sem fyrr er nefndur og frumvarpið byggist algjörlega á er lagt til að fjármögnun verði til staðar með því að leggja á sérstakt gjald á selda kílówattsstund sem nægi til þess að greiða niður að fullu dreifingarkostnað orkunnar þannig að lækka megi húshitunarkostnað á þeim svæðum þar sem hann er núna hæstur.
    Eins og fram hefur komið er í frumvarpinu lagt upp með að útfæra tillögur starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar (hér eftir nefndur starfshópurinn) í húshitunarlög. Er það gert á eftirfarandi hátt:
     1.      Í 1. gr. er lagt til að gildissviðsákvæði 1. gr. laganna verði breytt þannig að það endurspegli þær breytingar sem hér er lagt til að verði gerðar ásamt því sem vísað er til breytinga sem áður hafa verið gerðar. Í stað þess að gildissviðið nái einungis til fjár sem ákveðið er á fjárlögum að skuli ráðstafað til niðurgreiðslna kostnaðar og styrkveitinga er lagt til að lögin nái einnig til öflunar og annarrar úthlutunar fjár til þessara sömu þátta. Er þannig tekið sérstakt mið af því að frumvarpið felur í sér ákvæði um tekjuöflun. Þá hafa þegar verið gerðar breytingar sem fela í sér fjárútlát vegna orkusparnaðaraðgerða og er eðlilegt að gildissviðsafmörkun laganna endurspegli þær breytingar betur en nú er.
     2.      Í 2. gr. er lagt til að skilyrðum niðurgreiðslna á orku til húshitunar, skv. 4. gr. laganna, verði breytt. Annars vegar verði skýrt kveðið á um skyldu ríkisins til að niðurgreiða húshitun en ekki settur beinn fyrirvari um það svigrúm sem heimildir fjárlaga veiti. Er þessi breyting í samræmi við þá tillögu starfshópsins að niðurgreiðslukerfið verði sjálfvirkt og að fullu fjármagnað með lögum. Að öðru leyti eru tillögur frumvarpsgreinarinnar í samræmi við tillögur starfshópsins. Í skýrslu hans kemur eftirfarandi m.a. fram:
                  „ Í núverandi lögum segir að íbúð skuli njóta niðurgreiðslu ef hún tengist hvorki hitaveitu né raforkukerfi og hituð sé með olíu. Með því að nefna einungis olíu útiloka lögin að hægt sé að niðurgreiða umhverfisvænna eldsneyti eins og grisjunarvið, kurl eða viðarpillur. Lagt er til að í stað olíu verði talað um eldsneyti sem myndi opna fyrir niðurgreiðslu á endurnýjanlegu og umhverfisvænna eldsneyti.[…] Einnig þarf að endurskoða skilgreiningu á kyntum hitaveitum. Í núverandi lögum er ákvæði um lágmarks hlutfall raforku í orkunotkun kyntra hitaveitna. Með þessu ákvæði eru aðrir umhverfisvænir orkugjafar útilokaðir frá niðurgreiðslum. Síðan lögin voru sett hefur risið kynt hitaveita á Hallormsstað sem nýtir eingöngu grisjunarvið. Núverandi lög koma í veg fyrir að hægt sé að tengja íbúðarhúsnæði við veituna sem nyti niðurgreiðslna líkt og aðrar kyntar hitaveitur. Starfshópurinn telur engin rök fyrir því að niðurgreiða aðeins eina ákveðna gerð innlendrar og umhverfisvænnar orku.
                  Þær breytingar sem lagðar eru til í b-lið 3. gr., 4., 5. og 7. gr. frumvarpsins fela í sér orðalagsbreytingar sem hafa það að markmiði að tryggja að í 6., 8., 10. og 12. gr. sé ekki aðeins fjallað um olíu til húshitunar heldur einnig um aðra orkugjafa eins og starfshópurinn telur eðlilegt.
     3.      Í 3. gr. eru lagðar til breytingar á 1. mgr. 6. gr. laganna. Er breytingunum ætlað að endurspegla tillögur og hugmyndir starfshópsins að því leyti sem unnt er. Í skýrslu hans kemur eftirfarandi fram í kafla sem hefur fyrirsögnina Nýtt kerfi niðurgreiðslna:
                  „ Við greiningu á kostum og göllum núverandi niðurgreiðslukerfis telur starfshópurinn að þær breytingar sem gera þurfi á kerfinu verði gerðar með því leiðarljósi að nýtt kerfi verði:
              *      Sjálfvirkt, þ.e. fylgi sjálfkrafa breytingum.
              *      Einfalt og auðskiljanlegt.
              *      Tekjulega sjálfbært.
              *      Með hvata til orkusparnaðar.
                 Tillaga starfshópsins er að niðurgreiðslur til húshitunar verði með þeim hætti að:
                   Flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu.
                  Flutningur og dreifing raforku eða svokallaður sérleyfisþáttur er í dag í umsjá hins opinbera og tillagan er að hann verði að fullu endurgreiddur. Sala rafmagns er hinsvegar skilgreind á samkeppnismarkaði og niðurgreiðslurnar munu ekki hafa bein áhrif á þann markað.
                  Færa má rök fyrir því að notendur á rafhituðum svæðum greiði nú þegar sinn skerf af flutnings- og dreifikostnaði í gegnum almenna raforkunotkun og ekki beri að íþyngja íbúum frekar vegna dreifikostnaðar á raforku til hitunar. Einnig má benda á að þar sem rafhitun leggst af, t.d. með tilkomu nýrrar hitaveitu, hefur það lítil áhrif á kostnað dreifiveitna við flutningskerfið sem vissulega þarf að vera áfram til staðar vegna almennrar raforkunotkunar.
                  Í nýju kerfi væri notandi því einungis að greiða fyrir framleiðslu orkunnar sem nýtt er við hitun.
                  Kerfið verður sjálfvirkt þar sem öllum breytingum á verði á raforkudreifingu yrði mætt með sjálfvirkum hætti að fullu án þess að sérstök ákvörðun þurfi að liggja þar að baki. Með þessu er jafnframt komið á viðmiði fyrir húshitunarkostnað þ.e. breytingar munu alltaf miðast við hækkun eða lækkun kostnaðar við dreifingu og flutning raforku.
                  Gagnvart neytendum yrði nýtt niðurgreiðslukerfi mun auðskiljanlegra þar sem flutningur og dreifing raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis yrðu alltaf og hjá öllum endurgreidd að fullu.
                  Starfshópurinn telur það kerfislega mikilvægt að niðurgreiðslan verði ekki tengd samkeppnislið á frjálsum markaði heldur kostnaðarlið sem hefur skilgreindan tekjuramma hjá Orkustofnun. Þannig á að vera tryggt að órökstuddur kostnaður verði ekki færður á verðlag fyrir flutning og dreifingu raforku með óþarfa hækkunarálagi á niðurgreiðslur. Gert er ráð fyrir að eðli samkeppninnar tryggi að söluhluti raforku haldist viðunandi.
                  Breytingarnar fela einnig í sér að meiri jöfnuður verður innan rafhitunarhópsins þ.e. munur á milli dreifbýlis og þéttbýlis hverfur þar sem öll dreifing raforku er niðurgreidd. Að sjálfsögðu verður enginn munur á verði framleiddrar raforku hvort sem hún er nýtt í skilgreindu dreifbýli eða þéttbýli. […]
                  Kyntar hitaveitur eru veiturnar á Hornafirði og Seyðisfirði, sem eru í eigu Rarik, veiturnar á Ísafirði, Bolungarvík, Suðureyri, Flateyri og Patreksfirði sem er í eigu OV og veitan í Vestmannaeyjum í eigu HS-veitna. Þar sem rafhitun í gegnum kyntar hitaveitur hefur ekki skilgreinda dreifingu leggur starfshópurinn til að niðurgreiðslur kyntra hitaveita breytist hlutfallslega í takt við breytingar á niðurgreiðslu við beina rafhitun. Núverandi verð kyntra hitaveita er mjög breytilegt og yfir 50% munur er á milli ódýrustu og dýrustu veitunnar, sjá töflu 2 í viðauka. Talsverður mismunur er á fastagjöldum og rúmmetragjaldi vatns á milli veitna, sem hefur þau áhrif að lokagjald til neytenda verður hæst á Hornafirði og Seyðisfirði. Starfshópurinn telur brýnt að Orkustofnun greini ástæðu þessa verðmunar. Ef eðlilegar ástæður liggja að baki þessa verðlags þá er mögulegt að hlutfall niðurgreiðslna hjá mismunandi kyntum hitaveitum verði jafnað innbyrðis, eða gripið til annara ráðstafana sem leiðir til þeirrar jöfnunar á húshitunarkostnaði sem stefnt er að með þessum tillögum.

     4.      Í 6. gr. eru lagðar til breytingar á 11. gr. laganna þar sem fjallað er um skilyrði styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna, umhverfisvænnar orkuöflunar og bættrar orkunýtingar. Með breytingunum er ætlunin að fjarlægja úr lagagreininni fyrirvara sem þar er gerður um að heimildir hafi fengist á fjárlögum til þess að veita slíka styrki. Þannig verði skýrt kveðið á um að veita skuli styrkina og þeim skuli ráðstafað á tiltekinn máta. Er þessi breyting í samræmi við þá tillögu starfshópsins að niðurgreiðslukerfið verði sjálfvirkt og að fullu fjármagnað með lögum.
     5.      Í 8. gr. er lagt til að nýjum kafla verði bætt við lögin. Sækir sá kafli fyrirmynd sína í II. kafla laga um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, með síðari breytingum. Er þetta gert til samræmis við tillögur í skýrslu starfshópsins. Í skýrslu hans, í kafla sem ber fyrirsögnina Kostnaður og fjármögnun, kemur eftirfarandi m.a. fram:
                  „ Tillaga hópsins er að jöfnunargjald verði sett á hverja framleidda kWst sem næmi þeim kostnaði sem nauðsynlegur er á hverjum tíma til að niðurgreiða að fullu flutning og dreifingu raforku til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Samkvæmt fjárlögum 2012 verður 1.172 milljónum kr. varið til fjárlagaliðar 11-373. Uppreiknaður kostnaður niðurgreiðslna miðað við tillögur hópsins yrði um 1.700 milljónum kr. eða um 500 milljónum kr. hærri en árið 2011.
                  Miðað við núverandi raforkuframleiðslu á Íslandi, 17 TWst, myndi jöfnunargjald sem nema myndi 0,1 kr/kWst duga fyrir heildarfjármögnun niðurgreiðslna.
                  Starfshópurinn telur ekki óeðlilegt að Orkufyrirtækin sjálf standi undir kostnaði við jöfnunarkerfið sem tryggja á orku til ákveðins hóps viðskiptavina á viðunandi verði. Í stað þess að ríkið komi að fjármögnun á upphitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis með beinu fjárframlagi þá verði ríkið hér eftir aðeins umsjónar- og eftirlitsaðili á umsýslu jöfnunarkostnaðar sem fjármagnaður verður innan orkufyrirtækjanna.
                  Starfshópurinn leggur áherslu á að markvisst verði unnið að því að lækka fjárþörf jöfnunarsjóðsins með aðgerðum sem draga úr almennri rafhitun. Stækkun jarðvarmaveitna, jarðhitaleit, bætt einangrun, varmadælur ofl. eru allt dæmi um leiðir sem draga úr rafhitunarþörf og þarf með kostnaði við niðurgreiðslur. Aukin raforkuframleiðsla til framtíðar mun einnig skapa svigrúm til lækkunar á jöfnunargjaldi á hverja kWst. Sem dæmi um áhrif mögulegrar þróunar á raforkuvinnslu og umfangi rafhitunar, þá myndi 50% aukning raforkuvinnslu og 30% minnkun á rafhitun skapa svigrúm til lækkunar jöfnunargjalds um meira en helming eða niður fyrir 0,05 kr/kWst. Svo framarlega sem unnið verði markvisst að samdrætti rafhitunar og allar frekari virkjunarframkvæmdir verði ekki lagðar á hilluna, þá má telja ólíklegt að hækkunarþörf á jöfnunargjaldi skapist til framtíðar. Lagt er til að jöfnunargjaldið verði endurskoðað með reglubundnum hætti til að meta möguleika til lækkunar vegna breyttra forsendna hverju sinni.
                  Finna má svipaða aðferðafræði, víðar í stjórnsýslunni, um fjármögnun jöfnunarkostnaðar. Í fjarskiptalögum (2003 nr. 81 26. mars) segir m.a. „Allir notendur skulu eiga rétt á alþjónustu, óháð staðsetningu“. Þar sem kostnaður af fjarskiptaþjónustu er meiri en tekjur standa undir getur viðkomandi þjónustufyrirtæki sótt um, til Póst- og fjarskiptastofnunar, að því verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald. Um fjármögnun á þessum jöfnunarkostnaði segir í fjarskiptalögum „Til að standa straum af greiðslu fjárframlaga samkvæmt þessum kafla skal innheimta jöfnunargjald sem rennur í jöfnunarsjóð í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar“ Jöfnunargjaldið þetta er svo innheimt í gegnum fyrirfram ákveðið hlutfall af veltu allra fjarskiptafyrirtækja.
                  Annað dæmi má finna í lögum um jöfnun flutningskostnaðar á olíuvörum (1994 nr.103 20. maí), en þar segir m.a. „Flutningskostnaður á olíuvörum innan lands skal jafnaður eins og nánar greinir í lögum þessum“ um fjármögnun jöfnunarkerfisins segir m.a. „Leggja skal flutningsjöfnunargjald á allar olíuvörur, sem fluttar eru til landsins og ætlaðar eru til nota innan lands, sbr. 1. gr., og rennur gjaldið í sérstakan sjóð – flutningsjöfnunarsjóð olíuvara.“
                  Starfshópurinn leggur til að jöfnunargjald verði lagt á um áramót 2012/2013 samhliða endurskoðun á orkuskatti sem í dag er 0,12 kr/kWst. Í lögum um umhverfis- og auðlindaskatta segir að lög um orkuskatta falli úr gildi 31. desember 2012 (Lög nr. 129 23. desember 2009). Starfshópurinn leggur til að í stað orkuskatts yrði lægra jöfnunargjald á í staðin eða 10 aurar á hverja framleidda kílówattstund, 0,10 kr/kWst.


Fylgiskjal I.


Skýrsla starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(Iðnaðarráðuneyti, desember 2011.)

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Þóroddur Bjarnason:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.