Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 336. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 383  —  336. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um Þríhnúkagíg.

Flm.: Árni Johnsen, Jón Gunnarsson, Róbert Marshall, Ásbjörn Óttarsson,
Björgvin G. Sigurðsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Birkir Jón Jónsson,
Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Guðlaugur Þór Þórðarson.


    Alþingi ályktar að skora á innanríkisráðherra að hefja nú þegar skipulagða vinnu til þess að fylgja eftir hugmyndum um að gera Þríhnúkagíg í Bláfjöllum, stærsta hraunhelli í heimi, aðgengilegan fyrir ferðamenn með lagningu vegar að hnúknum og göngum í hann.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 138., 139. og 140. löggjafarþingi og er nú endurflutt óbreytt.
    Þríhnúkagígur var ókannaður þar til á Jónsmessu 1974 er Árni B. Stefánsson augnlæknir og hellakönnuður seig niður á botn gígsins. Það var hins vegar ekki gert opinskátt fyrr en eftir að Daði Garðarsson úr Hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum seig niður á botn hellisins í leiðangri Eyjaskáta 17. júní 1977 en frá því var greint í Morgunblaðinu. Hellirinn er einstakur að gerð, tröllaukið gímald, um 175 m á dýpt og á við fótboltavöll að flatarmáli í botni, stærsta þekkta hraunhvelfing í heimi og eitt merkasta náttúruundur á Íslandi, falinn neðanjarðar við bæjardyr höfuðborgarinnar í landi Kópavogs.
    Þríhnúkagígur er einstakt náttúruundur á heimsmælikvarða en víða um heim er gert út á heimsóknir í sérstæða hella og þeir skipta miklu máli í ferðaþjónustu og landkynningu. Stóru íbúðarblokkirnar þrjár efst á Laugarásnum sem eru tólf hæðir eru þekkt stærð. Botn Þríhnúkagígs mundi rúma blokkirnar þrjár hlið við hlið og ef Hallgrímskirkja væri síðan sett ofan á tólf hæða blokkirnar mundi vanta 15 metra upp á að krossinn á kirkjunni stæði upp úr gígopinu.
    Þríhnúkar ehf. heitir félag áhugamanna undir forustu Árna B. Stefánssonar og hefur félagið hafið undirbúning að því að gera Þríhnúkagíg aðgengilegan. VSÓ-ráðgjöf hefur m.a. unnið að verkefninu og gaf út greinargerð frumathugunar í nóvember 2009. Meðal þeirra hugmynda sem skoðaðar voru var að gera 200 m löng göng inn í gíginn sem mundu opnast inn í hellishvelfinguna á 64 m dýpi að stórum svölum og síðan yrði jafnvel hringstigi niður á botn hellisins. Þríhnúkar ehf. hafa gert samning við Kópavogsbæ og fleiri aðila um framgang verkefnisins, en Þríhnúkar í Bláfjöllum eru í landi Kópavogs. Verkefnið er firnamikið og reikna má með að það kosti um milljarð króna að gera göng, svalir, hringstiga, lýsingu og annað sem þarf til þess að fulls metnaðar sé gætt og nærgætni við náttúruundrið sjálft. Aðgengi að Þríhnúkagíg er einn af mörgum möguleikum í markaðssetningu Íslands á alþjóðavettvangi, enn ein fjólan í íslenska náttúruvöndinn.
    Þríhnúkar eru í hálendisbrúninni ofan við Heiðmörk, 5 km vestur af skíðasvæðinu í Bláfjöllum og 20 km suðaustan Reykjavíkur. Hnúkarnir eru nánast beint fram undan sé ekið eftir Langholtsvegi eða meðfram Rauðavatni. Undir norðaustasta gígnum er þessi firnadjúpi gígur, ótrúlega stór flöskulaga gíghvelfing. Botn gígketilsins er 120 m undir yfirborði jarðar og gímaldið sjálft um 150 þúsund rúmmetrar. Botninn er 75–48 m söðullaga hraunbingur á við fótboltavöll að stærð.
    Á Íslandi er enginn aðgengilegur sýningarhellir með göngustígum og raflýsingu. Tveir fegurstu hellar landsins, Jörundur og Árnahellir, hafa verið friðlýstir sérstaklega og lokaðir fyrir nánast allri umferð.
    Þríhnúkagígur er ein merkilegasta náttúrumyndun Íslands og gígurinn er með afbrigðum óaðgengilegur og hrollvekjandi, en hann er stærsti hellir í heimi og túlkar með sjálfum sér þau reginöfl sem búa í iðrum jarðar. Í ógn sinni er hann aðlaðandi, en til þess að hann verði hluti af daglegum möguleikum innlendra sem erlendra ferðamanna þurfa margir að leggja hönd á plóginn, Alþingi, ráðuneyti og margir fleiri, því hér er um svo einstæðan og metnaðarfullan möguleika að ræða að ekkert má til spara að opna þennan helli eins smekklega og kostur er.