Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 392. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 468  —  392. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um varðveislu og viðhald gamalla skipa og báta.


Flm.: Jón Bjarnason, Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir.


    Alþingi ályktar að fela atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að skipa nefnd er hafi það hlutverk að gera tillögur um hvernig best megi tryggja varðveislu og viðhald gamalla skipa. Nefndin taki saman yfirlit yfir skip með varðveislugildi sem eru yfir tíu tonn að vigt, og léttari báta ef þeir hafa sérstakt varðveislugildi, skýri hvaða aðili hafi forræði yfir hverju varðveislu- og/eða viðhaldsverkefni fyrir sig, finni fjárstreymis- eða fjáröflunarleiðir til verkefnanna og móti reglur um meðhöndlun þess fjármagns sem til ráðstöfunar kann að verða og um forgangsröðun verkefna. Í nefndinni sitji fulltrúar frá greinum sjávarútvegsins, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Þjóðminjasafni Íslands og héraðssöfnum.

Greinargerð.


    Þingmál þetta var lagt fram á 140. löggjafarþingi (661. mál) en náði ekki fram að ganga.
    Viðurkennt er að hverri þjóð ber að varðveita sögu sína og menningararf. Hér á landi er það Þjóðminjasafn Íslands sem er „höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslu“. Því ber lögum samkvæmt „að stuðla sem best að varðveislu íslenskra menningarminja og miðla sögu þjóðarinnar“. Þessu hlutverki sinnir Þjóðminjasafnið en einnig starfa fjölmörg söfn á landsbyggðinni sem sinna mörgum og mismunandi verkefnum til varðveislu á minjum og menningu, að því marki sem fjármagn og aðstæður leyfa. Einn þáttur í þessu starfi er varðveisla gamalla skipa, þ.e. stærri skipa sem hafa sögulegt gildi. Í viðræðum við fulltrúa Þjóðminjasafnsins kom í ljós að kostnaður við að varðveita slík skip er það mikill að hvorki Þjóðminjasafn né önnur söfn ráða við verkið nema til komi sérstök fjárveiting. Á þess vegum eru því engin verkefni á döfinni hvað varðar stærri skip.
    Þingmál hafa áður verið lögð fram með það að markmiði að marka sérstakan tekjustofn til þess að tryggja varðveislu og viðhald gamalla skipa og báta, einkum á 125. og 131. löggjafarþingi. Þau mál gengu ekki eftir.
    Á 125. þingi, veturinn 1999–2000, lögðu fimm þingmenn allra flokka, sem þá áttu sæti á Alþingi, fram frumvarp til laga um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins fengi það viðbótarhlutverk að veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa (fylgiskjal I). Fjárhæð styrks skyldi vera 50.000 kr. á hverja rúmlest skips sem tekið væri til varðveislu eftir 1. janúar 1990. Fyrsti flutningsmaður var Guðjón A. Kristjánsson og meðflutningsmenn Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Steinar Jóhannsson og Hjálmar Árnason. Jón Bjarnason lagði við umræður um málið m.a. áherslu á að eðlilegt væri „að atvinnuvegurinn taki jafnframt þátt í starfinu og sé ábyrgur fyrir sögu sinni og menningu“. Afgreiðsla málsins á Alþingi varð sú að frumvarpinu var breytt í meðferð sjávarútvegsnefndar í nýja þingsályktunartillögu (fylgiskjal II) sem flutt var af sjávarútvegsnefnd um varðveislu báta og skipa. Tillagan var síðan samþykkt af Alþingi með 49 samhljóða atkvæðum. Með þingsályktuninni var ríkisstjórninni falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skyldi að varðveislu gamalla skipa og báta og móta í því sambandi reglur um fjármögnun sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki m.a. þátt í.
    Nú við endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða er eðlilegt að staða þessara mála sé könnuð og fundin umgjörð. Vel má hugsa sér að sjóðir sjávarútvegsins eða veiðigjald hafi hér hlutverk við fjármögnun verksins.
    Á 131. þingi, veturinn 2004–2005, flutti þáverandi sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiesen frumvarp um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins (þskj.1009, 387. mál). Í því var gert ráð fyrir að sjóðurinn yrði lagður niður og eignum umfram skuldir, sem væru um 400–600 millj. kr., skyldi ráðstafað til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna. Minni hluti sjávarútvegsnefndar lagði til með breytingartillögu (þskj. 991) að eignir umfram 400 millj. kr. færu til ríkissjóðs og yrði ráðstafað til varðveislu gamalla báta og skipa, sem væri í samræmi við vilja Alþingis frá árinu 2000 og þá þingsályktun sem þar var samþykkt samhljóða.
    Steingrímur J. Sigfússon, núverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, tók mjög undir breytingartillögu minni hlutans um að marka farveg til varðveislu skipa í stað þess að vinna að förgun „sökum einhverrar sjúklegrar tortryggni í garð fiskiskipa“ og jafnframt að „ekkert hefur verið gert með þann vilja Alþingis sem samþykktur var samhljóða á 125. löggjafarþingi, að menn reyndu að bæta fyrir syndir sínar sem orðnar voru.“ Hann minnti einnig á þann sorgaratburð þegar bátasafn Þjóðminjasafnsins brann.

Söfn sem flokkast sem sjóminjasöfn og teldust væntanlegir þátttakendur í umræddum verkefnum.
          Byggðasafnið Görðum: Safnið er stofnað árið 1959 og er starfssvæði þess Akranes og Hvalfjarðarsveit. Markmið sjóminjadeildar safnsins er að safna, skrá, varðveita, rannsaka og sýna minjar sem tengjast sjó og sjómennsku frá byggðarlaginu.
          Sjóminjasafn Austurlands, Eskifirði: Í safninu er að finna muni sem tilheyra sjósókn og vinnslu sjávarafla. Einnig eru þar verslunarminjar og hlutir sem tilheyra ýmsum greinum iðnaðar og lækninga frá fyrri tíð. Sjóminjasafnið er í gömlu verslunarhúsi, Gömlu búð, sem var byggt 1816. Hilmar Bjarnason átti mikinn þátt í uppbyggingu safnsins.
          Sjóminjasafnið á Eyrarbakka: Í safninu eru munir frá Eyrarbakka með áherslu á sjósókn. Stærsti og merkasti gripurinn er áraskipið Farsæll, sem Steinn Guðmundsson á Eyrarbakka smíðaði 1915.
          Byggðasafn Garðskaga: Bátar, líkön, veiðarfæri, siglingatæki og annað sem tilheyrir siglingum, sjósókn og verkun sjávarafla. Á safninu eru 60 vélar af ýmsum gerðum, mest litlar bátavélar. Elst er Scandia-glóðarhausvél frá 1920.
          Byggðasafnið á Hnjóti: Markmið safnsins er að varðveita og miðla fróðleik um horfin vinnubrögð til sjós og lands með megináherslu á Vestfirði og Breiðafjörð. Í safninu er fjöldi muna sem tengjast nytjum hlunninda, árabátaútgerð og fyrstu árum vélvæðingar í sjávarútvegi.
          Sjóminjasafnið á Húsavík: Markmið Sjóminjasafnsins er að safna, skrásetja, varðveita og sýna muni, myndir og gögn sem tengjast sjósókn og sjávarnytjum við Skjálfanda og á nærliggjandi svæðum. Tilgangurinn er að fólk skilji betur hvernig forfeðurnir lifðu af því sem sjórinn gaf og hversu stóran þátt sjávarnytjar áttu í því að tryggja afkomu fólks fyrr og síðar.
          Byggðasafn Vestfjarða: Í Neðstakaupstað á Ísafirði stendur elsta húsaþyrping landsins. Þetta eru fjögur hús sem öll voru byggð af dönskum einokunarkaupmönnum á 18. öld. Í yngsta húsinu, Turnhúsi, hefur Byggðasafn Vestfjarða sett upp sýningu á sjóminjum þar sem sjá má fjölda gripa sem tengjast fiskveiðum og fiskvinnslu frá öndverðu til okkar daga.
          Tækniminjasafn Austurlands, Seyðisfirði: Safn um innreið nútímans áratugina kringum 1900. Munir, myndir og gögn sem lýsa vélvæðingu bátaflotans, sögu útgerðar, verslunar, lækninga og skipasmíða. Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar frá 1907 er fyrsta vélsmiðjan á Austurlandi og leiðandi í vélvæðingu fiskiskipaflotans.
          Síldarminjasafn Íslands, Siglufirði, er eitt stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins og fjallar um þann kafla Íslandssögunnar sem oft hefur verið nefndur síldarævintýrið, þegar síldin var einn helsti örlagavaldur þjóðarinnar.
          Víkin – Sjóminjasafnið í Reykjavík er alhliða sjóminjasafn á besta stað við höfnina. Stærsta sýning safnsins er Togarar í hundrað ár. Smærri sýningar eru settar upp tímabundið. Ný stórsýning var opnuð í árslok 2007: Reykjavíkurhöfn 90 ára. Safnið gengst fyrir dagskrám á Hátíð hafsins, safnanótt, menningarnótt o.s.frv. Við safnið er varðskipið Óðinn varðveitt, ásamt sögu gæslu og björgunar við Ísland.
          Sjóminjasafnið í Sjóminjagarðinum á Hellissandi: Þar eru varðveitt tvö áraskip, áttæringarnir Bliki og Ólafur Skagfjörð, og fjöldi annarra safngripa um útgerð á Snæfellsnesi og við Breiðafjörð.
          Bátasafn Breiðafjarðar, Reykhólum, hefur á síðustu árum dregið saman á þriðja tug gamalla báta úr Breiðafjarðareyjum og héruðum í kring og bjargað flestum þeirra frá eyðileggingu. Sumir eru varðveittir í misjöfnu ásigkomulagi, gert er við aðra og enn aðrir eru endurbyggðir. Starfið er í fullum gangi og þess vegna er safnið lifandi vinnustaður ekki síður en sýningarstaður. Upphafsmaður bátasafnsins var Aðalsteinn Aðalsteinsson, báta- og bryggjusmiður úr Hvallátrum á Breiðafirði.
          Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna, Reykjum í Hrútafirði: Þar eru hákarlaveiðum við Húnaflóa gerð góð skil. Safnið er að hluta til byggt utan um hákarlaskipið Ófeig sem smíðaður var 1875 eingöngu úr rekaviði. Ófeigur er 11,9 m á lengd og 3,3 m á breidd. Hann bar 55 tunnur lifrar. Hákarlavertíðin stóð síðari hluta vetrar og var Ófeigur notaður til hákarlaveiða til ársins 1915, alls 33 vertíðir. Frá 1915 til 1933 var hann hafður til viðarflutninga.



Fylgiskjal I.


Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92/1994,
um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

(Þskj. 104, 102. mál 125. löggjafarþings 1999–2000.)


Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson,


Árni Steinar Jóhannsson, Hjálmar Árnason.


1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þróunarsjóður sjávarútvegsins skal veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa. Fjárhæð styrks skal nema 50.000 kr. á hverja rúmlest skips sem tekið er til varðveislu eftir 1. janúar 1990.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
                             

Greinargerð.


    Þegar farið var að styrkja útgerðarmenn til að úrelda fiskiskip olli það því að fiskiskip voru eyðilögð. Forsjálir menn hafa þó séð til þess að í nokkrum byggðarlögum eru enn til skip sem eru mikilvæg fyrir sögu skipasmíða og útgerðar. Oftast eru þau varðveitt á byggða- og sjóminjasöfnum.
    Skip þurfa viðhald þótt á landi séu og ljót og ómáluð skip vekja lítinn áhuga, jafnvel þó að nafni þeirra og sjósókn sé tengd mikil og merkileg saga. Á næstu árum munu trébátar vertíðarbátaflotans týna tölunni og því er ekki seinna vænna að reyna að varðveita það merkasta sem enn er til óskemmt eða hæft til varðveislu. Á einstaka stöðum á landinu má enn finna byggingar, vélar, búnað og áhöld sem geyma sögu sjávarútvegsins, t.d. síldarminjar á Siglufirði og síldarbræðslur á Ströndum. Úrelding eigna sem síðan eru teknar til annarra nota eða niðurrifs gera okkur fátækari af eigin sögu. Að því ber að hyggja.
    Í frumvarpinu er lagt til að Þróunarsjóði sjávarútvegsins verði gert skylt að styrkja varðveislu skipa. Gert er ráð fyrir því að styrkveiting nemi 50.000 kr. á hverja rúmlest skips sem tekið er til varðveislu og að styrkur verði greiddur einu sinni fyrir hvert skip. Greiðsluskylda sjóðsins miðast við skip sem tekin eru til varðveislu eftir 1. janúar 1990.



Fylgiskjal II.


Tillaga til þingsályktunar um varðveislu báta og skipa.
(Þskj. 1186, 636. mál 125. löggjafarþings 1999–2000.)


Frá sjávarútvegsnefnd.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu og byggðasögu. Í því sambandi verði mótaðar reglur um fjármögnun, sem m.a. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í, og varðveislugildi báta og skipa skilgreint.

Greinargerð.

    Nefndin flytur þessa tillögu í framhaldi af umfjöllun um 102. mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum (þskj. 104). Í því er lagt til að Þróunarsjóður sjávarútvegsins veiti byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa samkvæmt nánar skilgreindum reglum. Frumvarpið var flutt af þingmönnum allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi.
    Nefndin er sammála þeim markmiðum sem frumvarpið er byggt á, en telur eðlilegt í ljósi umsagna sem bárust um málið að nánar verði skoðað hvernig best verði staðið að varðveislu báta og skipa. Þá telur nefndin brýnt að mótaðar verði reglur um fjármögnun og að varðveislugildi báta og skipa verði skilgreint. Leggur nefndin áherslu á að málinu verði lokið af hálfu ríkisstjórnarinnar á þessu ári.