Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 524. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 796  —  524. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aukna almenna notkun á þjóðfána Íslendinga.


Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Lúðvík Geirsson, Árni Johnsen.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að leita eftir samvinnu við frjáls félagasamtök um að undirbúa og hrinda af stað kynningarátaki með það markmið að leiðarljósi að auka almenna notkun á þjóðfána Íslendinga.


Greinargerð.

    Þegar ferðast er til nágrannalanda verður fljótt ljóst hve notkun þjóðfána er þar almenn. Á hátíðisdögum virðast íbúar annarra Norðurlanda mjög duglegir við að draga fána að húni. Því vaknar sú spurning hvers vegna Íslendingar séu ekki fúsari til að nota þjóðfánann en raun ber vitni. Flutningsmönnum er ókunnugt um að skoðanir landsmanna á málefnum þjóðfánans hafi verið kannaðar á skipulegan hátt. Þó má áætla að margir séu í raun smeykir við að nota þjóðfánann á rangan hátt ellegar ofnota hann. Virðist sem títt sé að menn telji sig ekki vita hvernig notkun þjóðfánans skuli háttað.
    Þjóðfáninn okkar er ekki aðeins fallegur heldur á hann sér merka sögu. Saga hans er samofin frelsisbaráttu þjóðarinnar. Gildandi lög um þjóðfána Íslendinga eru að meginstofni jafn gömul gildandi stjórnarskrá. Í þeim er útlit þjóðfánans vel skilgreint, notkun stjórnvalda á honum afmörkuð og fjallað um ágreining og eftirlit með notkun hans. Útlit fánans er svo skilgreint enn nákvæmar í auglýsingu forsætisráðuneytisins um liti íslenska fánans, nr. 6/1991. Um almenna notkun fánans eru lögin hins vegar tiltölulega hljóð en vísa til reglugerðar. Í 12. gr. koma þó fram nokkrar hátternisreglur en aðeins ein þeirra er almenn, þ.e. reglan um að enginn megi óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki. Aðrar reglur eru sértækari og varða notkun hans sem einkamerkis, vörumerkis eða annars merkis á söluvarningi.
    Í forsetaúrskurði um fánadaga og fánatíma, nr. 5/1991, koma fram ítarlegri reglur um notkun þjóðfánans. Í 3. gr. þeirra er að finna almennar reglur, m.a. um að fána skuli ekki draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og að jafnaði skuli hann ekki vera uppi lengur en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis. Þó má fáni vera lengur uppi en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn varir ef flaggað er við útisamkomu, opinbera athöfn, jarðarför eða minningarathöfn, en þó aldrei lengur en til miðnættis. Í 1. gr. úrskurðarins eru sérstakar reglur um meðferð opinberra stofnana á þjóðfánanum þar sem eru tilgreindir allir þeir dagar sem slíkum stofnunum er skylt að draga fána á stöng. Reglurnar um þjóðfánann gilda þó ekki um fánaveifur og fánaborða að öðru leyti en því, að ætíð skal nota rétta fánaliti. Af þeim sökum er öllum frjálst að nota fánaveifur og fánaborða. Þannig má t.d. hafa fánaveifu uppi allan sólarhringinn, alla daga ársins. Opinberum stofnunum ber þó að skipta veifunum út fyrir þjóðfánann á þeim dögum sem þeim er skylt að draga þjóðfánann að húni.
    Á vefsíðu forsætisráðuneytisins má finna aðgengilegar leiðbeiningar um meðferð og notkun íslenska fánans. 1 Þar segir m.a. að öllum sé heimilt að nota þjóðfánann og æskilegt sé að almenningur dragi fána á stöng á fánadögum. Jafnframt er þar bent á að fánann megi nota við öll hátíðleg tækifæri, jafnt þau sem tengjast einkalífi sem önnur eða á sorgarstundum. Þar að auki eru þar settar fram ítarlegar leiðbeiningar um hvernig skal bera sig að við að draga fána að húni, í heila eða hálfa stöng, draga hann niður og ganga frá honum að notkun lokinni. Þá er þar m.a. fjallað um þau sérstöku tilfelli þegar koma á fánanum fyrir á líkkistu, hylla hann, nota hann með öðrum þjóðfánum og fánum sveitarfélaga, félaga og fyrirtækja og staðsetja hann við altari, ræðustól eða ræðuborð. Þessar leiðbeiningar eru að hluta myndskreyttar, skýrar og hafa verulegt leiðbeiningargildi. Gallinn er hins vegar sá að þær eru fáum kunnar.
    Íslenska skátahreyfingin hefur sýnt þjóðfánanum mikla virðingu. Á vefsíðu hreyfingarinnar má finna töluverðan fróðleik og leiðbeiningar. 2 Hefur skátahreyfingin m.a. rekið fánaverkefni undir heitinu „Íslenska fánann í öndvegi“ sem hefur m.a. falið í sér kynningu á fánanum í ljósvakamiðlum og skólum ásamt sölu á varningi honum tengdum. Til að mynda gaf skátahreyfingin í samstarfi við Eimskip um 4.500 íslenska handfána ásamt bæklingi um meðferð íslenska fánans til allra grunnskólabarna í landinu sem luku 2. bekk í júní sl. Má fullyrða að framtak skátahreyfingarinnar er til fyrirmyndar.
    Flutningsmenn tillögunnar leggja til að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að leita eftir samvinnu við frjáls félagasamtök um að undirbúa og hrinda af stað kynningarátaki með það markmið að leiðarljósi að auka almenna notkun þjóðfána Íslendinga. Er von flutningsmanna að afurð slíks átaks verði meiri þekking og nýting þjóðfánans sem aftur efli samhug þjóðarinnar.
    Flutningsmenn málsins hafa ásamt öðrum lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 34/1944 sem hefur að markmiði að rýmka leyfilegan fánatíma og heimila notkun fánans frá því sem nú er (þskj. 39 í 39. máli). Verði það frumvarp að lögum er eðlilegt að það kynningarátak sem hér lagt til að forsætisráðherra hafi forgöngu um taki mið af breyttum lögum.
Neðanmálsgrein: 1
1     Sjá á vefslóðinni: www.forsaetisraduneyti.is/upplysingar/faninn/Notkun_fana/nr/964
Neðanmálsgrein: 2
2     Sjá á vefslóðinni: skatar.is/vefur/default.asp?ItemGroupID=9&ItemID=116