Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 155. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 944  —  155. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Heiðu Björg Pálmadóttur og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá Barnaverndarstofu, Önnu Kristinsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands. Umsagnir bárust frá Barnaheillum, barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Barnaverndarstofu, Bláskógabyggð, Íslandsdeild NFBO, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Siðmennt, Sveitarfélaginu Árborg, umboðsmanni barna, UNICEF á Íslandi og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Markmið frumvarpsins er að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins með sama hætti og gert var með mannréttindasáttmála Evrópu á sínum tíma. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna felur í sér skuldbindandi samkomulag þjóða heims um sérstök réttindi fyrir börn, óháð réttindum fullorðinna. Nefndin vekur athygli á því að þrátt fyrri að aðildarríki að samningnum séu skuldbundin til að tryggja börnum þau réttindi sem samningurinn veitir þeim er sú skuldbinding aðeins samkvæmt þjóðarétti. Vegna tvíeðliskenningarinnar sem lögð er til grundvallar í lagatúlkun hér á landi þarf að lögfesta alþjóðlega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. Því er ekki hægt að beita barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum eins og staðan er í dag. Nefndin telur því hér vera á ferðinni mikilvægt mál og að með lögfestingu barnasáttmálans yrði vægi hans hér á landi meira þar sem stjórnvöld og dómstólar landsins yrðu að taka mið af honum við úrlausnir mála sem varða börn.
    Frumvarpið var samið af Þórhildi Líndal fyrir dómsmála- og mannréttindaráðuneytið árið 2009. Leggja átti frumvarpið fram á 138. löggjafarþingi en af því varð ekki. Frumvarpið var lagt fram á 140. löggjafarþingi (749. mál) en komst ekki til umræðu. Það er nú lagt fram af einum fulltrúa frá hverjum þingflokki og er það óbreytt frá 140. löggjafarþingi en þá voru breytingar gerðar á því til samræmis við breytingar á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, frá því að frumvarpið var samið. Einnig er lögð til breyting á lögum nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, sem miðar að því að fullnægja skilyrðum 37. gr. c samningsins um að við vistun sakhæfra barna skuli halda þeim aðskildum frá fullorðnum föngum.
    Á fundum nefndarinnar komu fram ýmis sjónarmið varðandi málið en megintónn flestra innsendra erinda var jákvæður gagnvart innleiðingu barnasáttmálans.
    Lögð var áhersla á mikilvægi fræðslu og þess að kostnaðarmat vegna innleiðingarinnar væri framkvæmt. Vakin var athygli á nokkrum sjónarmiðum sem nauðsynlegt er að bregðast við til að hægt sé að ljúka lögfestingarferlinu. Bent var á að sjaldan hefur verið vísað í ákvæði sáttmálans við úrlausn mála hjá stjórnvöldum og dómstólum þrátt fyrir þá staðreynd að sáttmálinn var fullgiltur af íslenskum stjórnvöldum fyrir 20 árum.
    Umsagnaraðilar voru flestir hlynntir lögleiðingu sáttmálans og fagna fram komnu frumvarpi og leggja áherslu á þýðingu og mikilvægi þess að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði lögfestur á Íslandi sem muni ótvírætt styrkja stöðu barna á Íslandi. Barnasáttmálinn og valfrjálsar bókanir hans veita börnum víðtæka vernd gegn hvers kyns misneytingu, ofbeldi og annarri vanvirðandi meðferð auk þess að festa í sessi rétt barna sem sjálfstæðra einstaklinga til ýmissa réttinda, jafnt borgaralegra og stjórnmálalegra sem og félagslegra og menningarlegra.
    Meðal þeirra sjónarmiða sem fram komu var að vakin var athygli á því að lögfesting barnasáttmálans muni fela í sér kynningu á sáttmálanum og verða til þess að börn og fullorðnir þekki betur þau réttindi sem hann hefur að geyma auk þess að vera gott tækifæri til að vekja athygli á sáttmálanum, gildum hans og réttindum barna. Það er mikilvægt þar sem nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hefur gert athugasemdir vegna skorts á fræðslu og kynningu á sáttmálanum hér á landi.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Tryggvi Þór Herbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. janúar 2013.

Björgvin G. Sigurðsson,
form., frsm.
Skúli Helgason.
Þráinn Bertelsson.

Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Margrét Pétursdóttir.
Pétur H. Blöndal.

Siv Friðleifsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir.