Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 415. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 948  —  415. mál.
Viðbót. Leiðréttur texti.

2. umræða.


Breytingartillaga



við frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (VBj, ÁI, LGeir, MT, MSch).


     1.      2. mgr. aðfaraorða orðist svo:
                 Ísland er frjálst og fullvalda ríki. Hornsteinar þess eru frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi.
     2.      Við fyrri málslið 2. mgr. 4. gr. bætist: sem öðlast hefur slíkan rétt með löglegum hætti.
     3.      Á eftir 4. gr. komi ný grein ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

             Íslensk tunga.

                 Íslenska er þjóðtunga á Íslandi og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.
     4.      1. mgr. 6. gr. orðist svo:
                 Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án mismununar.
     5.      Við 9. gr.
                  a.      Í stað orðsins „skerða“ í 1. og 3. málsl. 2. mgr. komi: takmarka.
                  b.      Á eftir orðinu „lagaheimild“ í 1. málsl. 2. mgr. komi: og sé nauðsynlegt.
     6.      Við 11. gr.
                  a.      Í stað orðsins „skerðingu“ í síðari málslið 2. mgr. komi: takmörkun.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Allir eiga rétt til verndar eigin persónuupplýsinga. Nánar skal mælt fyrir um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga með lögum.
     7.      Við 13. gr. bætist tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög.
                 Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hluti í atvinnufyrirtæki hér á landi.
     8.      14. gr. ásamt fyrirsögn orðist svo:

             Skoðana- og tjáningarfrelsi.

                 Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að tjá hugsanir sínar.
                 Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.
                 Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að takmarka aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.
                 Hver og einn ber ábyrgð á framsetningu skoðana sinna fyrir dómi.
     9.      15. gr. ásamt fyrirsögn orðist svo:

             Upplýsingaréttur.

                 Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.
                 Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta mál, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.
                 Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.
                 Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.
                 Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.
     10.      16. gr. ásamt fyrirsögn orðist svo:

             Frelsi fjölmiðla.

                 Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum.
                 Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.
     11.      Orðin „í landinu“ í 3. mgr. 19. gr. falli brott.
     12.      Við 2. mgr. 20. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.
     13.      4. mgr. 24. gr. falli brott.
     14.      Við 25. gr.
                  a.      Á eftir orðunum „svo sem“ í fyrri málslið 2. mgr. komi: aðbúnaðar, öryggis.
                  b.      Orðin „til sanngjarnra launa og“ í síðari málslið 2. mgr. falli brott.
     15.      Við 26. gr.
                  a.      Síðari málsliður 3. mgr. falli brott.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Óheimilt er að vísa brott, endursenda eða framselja útlending til ríkis þar sem hætta er á að hann sæti dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Tryggja skal réttláta málsmeðferð innan hæfilegs tíma í slíkum málum.
     16.      Við 27. gr.
                  a.      Við lokamálslið 3. mgr. bætist: en telji dómari fært að láta hann lausan gegn tryggingu skal hann mæla fyrir um hana í úrskurði þar sem kveða skal á um fjárhæð hennar.
                  b.      Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Persónufrelsi.
     17.      Í stað orðanna „eiga á hættu að sæta opinberri málsmeðferð“ í fyrri málslið 3. mgr. 28. gr. komi: sæta málsmeðferð.
     18.      Við 32. gr.
                  a.      Í stað orðanna „Dýrmætar þjóðareignir“ komi: Fágætir náttúrugripir og dýrmætar þjóðareignir.
                  b.      Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Menningar- og náttúruverðmæti.
     19.      1. og 2. mgr. 34. gr. orðist svo:
                 Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru í einkaeigu eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Sama máli gegnir um eignarréttindi sem taka til vatns, jarðhita og jarðefna í eigu ríkisins eða ríkisfyrirtækja. Enginn getur fengið auðlindirnar og réttindin eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar.
                 Til þjóðareignar skv. 1. mgr. teljast nytjastofnar og aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatn og önnur þau náttúrugæði sem ekki eru í einkaeigu, svo sem vatnsafl, jarðhiti og jarðefni í þjóðlendum. Í eignarlöndum takmarkast réttur til auðlinda undir yfirborði jarðar innan eignarlanda við venjulega hagnýtingu fasteignar. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.
     20.      Við 37. gr.
                  a.      Við bætist nýr málsliður, 1. málsl., svohljóðandi: Alþingi er þjóðþing Íslendinga.
                  b.      Á eftir orðunum „Alþingi fer“ komi: í umboði þjóðarinnar.
     21.      39. gr. orðist svo:
                 Á Alþingi eiga sæti 63 þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.
                 Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt eftir því sem frekast er unnt.
                 Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi.
                 Listar eru boðnir fram í kjördæmum. Þeir mega vera óraðaðir eða raðaðir samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum. Frambjóðandi má vera á fleiri en einum lista sömu stjórnmálasamtaka.
                 Kjósandi getur valið lista eða einstaka frambjóðendur í persónukjöri. Í lögum má ákveða hvort og í hvaða mæli megi velja frambjóðendur af fleiri en einum lista.
                 Úthlutun þingsæta skal vera í sem fyllstu samræmi við atkvæðastyrk stjórnmálasamtaka, lista og frambjóðenda.
                 Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.
                 Breytingar á kjördæmamörkum, tilhögun á úthlutun þingsæta og reglum um framboð, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/ 3 hluta atkvæða á Alþingi. Slíkar lagabreytingar má ekki gera ef minna en eitt ár er til kosninga, og gildistaka þeirra skal frestast ef boðað er til kosninga innan eins árs frá staðfestingu þeirra.
                 Nánari reglur um alþingiskosningar skulu settar í lögum.
     22.      43. gr. ásamt fyrirsögn orðist svo:

             Gildi kosninga og útgáfa kjörbréfa.

                 Landskjörstjórn gefur út kjörbréf handa alþingismönnum að loknum kosningum. Um störf landskjörstjórnar fer eftir nánari fyrirmælum í lögum.
                 Kærum út af kosningu alþingismanna eða kjörgengi skal beina til nefndar sem forseti Alþingis skipar til fimm ára í senn að fenginni tilnefningu Hæstaréttar. Um störf nefndarinnar fer eftir nánari fyrirmælum í lögum. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir.
                 Alþingismenn halda umboði sínu þótt kosning hafi verið kærð. Taki nýr þingmaður sæti á Alþingi eftir kæruúrskurð, sbr. 2. mgr., gildir umboð hans frá þeim degi þegar úrskurður er auglýstur. Sama gildir um varamenn.
     23.      Við 44. gr.
                  a.      Í stað orðanna „hverjar alþingiskosningar“ í 1. mgr. komi: almennar alþingiskosningar.
                  b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Forseti Alþingis undirbýr setningu nýkjörins þings.
                  c.      2. mgr. orðist svo:
                      Starfstíma Alþingis á hverju kjörtímabili má í þingsköpum skipta í aðgreind löggjafarþing og skal þá miða við almanaksárið eða hluta þess.
     24.      46. gr. orðist svo:
                 Forseti Íslands setur nýkjörið Alþingi þegar það kemur fyrst saman að loknum almennum alþingiskosningum.
                 Forseti Íslands setur einnig Alþingi að tillögu forseta þess eða fjórðungs þingmanna.
     25.      Orðin „þegar kosning hans hefur verið tekin gild“ í 47. gr. falli brott.
     26.      3. mgr. 49. gr. falli brott.
     27.      Við 52. gr.
                  a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nánari ákvæði um kjör forseta skal setja í lögum.
                  b.      Orðin „og mynda ásamt honum forsætisnefnd“ í 3. málsl. 2. mgr. falli brott.
                  c.      3. mgr. falli brott.
     28.      Við 54. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Þingnefnd getur ákveðið að fundur hennar sé opinn samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum.
     29.      55. gr. ásamt fyrirsögn orðist svo:

             Fundir Alþingis.

                 Alþingi starfar í einni málstofu.
                 Fundir Alþingis eru haldnir í heyranda hljóði. Þó getur forseti eða svo margir þingmenn sem til er tekið í þingsköpum lagt til að umræður um þingmál fari fram fyrir luktum dyrum enda krefjist öryggi ríkisins eða brýnir þjóðarhagsmunir þess. Þingfundur sker úr um hvort ræða skuli málið í heyranda hljóði eða fyrir luktum dyrum og þarf 2/ 3 hluta atkvæða til að tillagan teljist samþykkt.
     30.      Við 56. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Með lögum skal ákveða hvenær þingmál falla niður.
     31.      3. mgr. 57. gr. falli brott.
     32.      2. mgr. 58. gr. falli brott.
     33.      Við 69. gr.
                  a.      Við 1. mgr. bætist: og fjáraukalögum.
                  b.      Á eftir orðinu „ráðherra“ í fyrri málslið 2. mgr. komi: sem ber ábyrgð á fjárlögum ríkisins.
     34.      Við 3. mgr. 72. gr. bætist nýr málsliður, 1. málsl., svohljóðandi: Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila.
     35.      Við 74. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                      Alþingi kýs forstöðumann Ríkisendurskoðunar til fimm ára. Ríkisendurskoðun skal vera sjálfstæð í störfum sínum. Hún endurskoðar fjárreiður ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja í umboði Alþingis. Um hlutverk hennar skal nánar mælt fyrir í lögum.
                  b.      Í stað orðanna „samhliða frumvarpi til fjárlaga“ í 2. mgr. komi: fyrir 2. umræðu fjárlaga.
     36.      Við 75. gr.
                  a.      2. mgr. falli brott.
                  b.      3. mgr. orðist svo:
                      Um starfsemi umboðsmanns Alþingis og hlutverk hans skal nánar mælt fyrir í lögum.
     37.      Við 109. gr.
                  a.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. mgr. komi: utanríkisráðherra.
                  b.      Á eftir orðunum „upplýsingar um“ í fyrri málslið 2. mgr. komi: mikilvæg.
                  c.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í síðari málslið 2. mgr. komi: Ríkisstjórnin.
     38.      Við 110. gr.
                  a.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í fyrri málslið komi: Utanríkisráðherra.
                  b.      Orðin „eða eru mikilvægir af öðrum ástæðum“ í síðari málslið falli brott.
     39.      111. gr. orðist svo:
                 Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga í þágu friðar, efnahagssamvinnu eða réttarvörslu sem fela í sér framsal tiltekinna þátta ríkisvalds sem íslensk stjórnvöld fara með samkvæmt stjórnarskrá þessari til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að eða ef um er að ræða alþjóðasamvinnu sem Ísland tekur þátt í. Þó er óheimilt að framselja ríkisvald til að breyta stjórnarskránni eða mörkum íslensks yfirráðasvæðis eða til takmörkunar á mannréttindum umfram heimildir í stjórnarskrá.
                 Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft. Dómstólar geta ávallt endurmetið efni, umfang og lögmæti framsals í ljósi meðferðar alþjóðastofnunar á framseldum valdheimildum á hverjum tíma.
                 Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst. Lög sem heimila framsal ríkisvalds þurfa samþykki 2/ 3 hluta atkvæða á Alþingi. Náist ekki sá meiri hluti atkvæða en þó einfaldur meiri hluti skulu lögin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.
                 Við gerð þjóðréttarsamninga um aðild Íslands að alþjóðastofnunum sem fara með yfirþjóðlegt vald og falla undir 1.–3. mgr. skulu heimildarlög borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.
     40.      112. gr. falli brott.