Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 579. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 987  —  579. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2012.


1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 29 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.
    Í umfjöllun þingmannanefnda EFTA og EES um EES-samninginn og rekstur hans var sjónum einkum beint að fjórum þáttum. Í fyrsta lagi upptöku nýrra ESB-gerða í EES-samninginn og innleiðing þeirra í EES/EFTA-ríkjunum. Í öðru lagi var ítrekað fjallað um nýjar reglur ESB um fjármálaeftirlit en upptaka þeirra hefur verið til skoðunar á vettvangi EES. Fulltrúar Noregs og Íslands hafa bent á stjórnskipulegar áskoranir sem ríkin standa frammi fyrir gagnvart þessu nýja lagaumhverfî en hlutverk og valdheimildir evrópska fjármálaeftirlitsins eru þess eðlis að það kallar á framsal valds frá EES/EFTA-ríkjunum sem erfitt er að samrýma stjórnarskrám þeirra. Í þriðja lagi voru úttektir á EES-samstarfinu til umfjöllunar, einkum viðamikil úttekt nefndar á vegum norskra stjórnvalda. Loks var fjallað um frjálsa för vinnuafls um EES-svæðið en í EES/EFTA-ríkjunum þremur varð mikil aukning í innflutningi vinnuafls í kjölfar austurstækkunar ESB og þar með EES árið 2004.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 24 talsins og taka til 33 ríkja. Engin ríkjasamtök að ESB undanskildu hafa byggt upp eins víðtækt net fríverslunarsamninga. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Á starfsárinu fjallaði þingmannanefndin sérstaklega um árangur af fríverslunarsamningum samtakanna.
    Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu má nefnda endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB, þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í stofnunum og áætlunum ESB og framtíð orkustefnu ESB.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis í bæði þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.

Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES- samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári og á tveimur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við. Þessi þáttur í starfi EFTA vex stöðugt og eru fríverslunarsamningar nú umfangsmikill hluti starfssviðs EFTA.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að EES (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

3. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
    Í byrjun árs 2012 skipuðu Íslandsdeild Árni Þór Sigurðsson, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Skúli Helgason, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Magnús Orri Schram, þingflokki Samfylkingarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Valgerður Bjarnadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Birkir Jón Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Þann 21. febrúar 2012 urðu þær breytingar að Sigmundur Ernir Rúnarsson tók sæti Magnúsar Orra Schram fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.
    Íslandsdeild var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Á árinu tók Skúli Helgason að sér starf skýrsluhöfundar skýrslu þingmannanefndar EES um endurskoðun sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB. Meðhöfundur hans af hálfu Evrópuþingsins var írski þingmaðurinn Pat the Cope Gallagher og var skýrslan kynnt á fundi í Evrópuþinginu í Strassborg.

4. Fundir þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 2012.
    Starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2012. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar þrisvar sinnum, þar af tvisvar í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherrum EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum og stofnunum í Indónesíu til að styðja við gerð fríverslunarsamnings EFTA og Indónesíu.
    Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu. Sjö skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES á starfsárinu í tímaröð.

Fundur þingmannanefndar EFTA í Brussel 6. febrúar 2012.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundinn Árni Þór Sigurðsson, formaður, Skúli Helgason, Magnús Orri Schram, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Helstu dagskrárliðir fundarins voru staða efnahagsmála í Evrópu og viðamikil úttekt nefndar norskra stjórnvalda á EES-samningnum. Einnig var fjallað um framtíð EES og tvíhliða samninga ESB og Sviss, og um stöðu fríverslunarviðræðna EFTA við Indónesíu.
    Richard Corbett, frá skrifstofu Herman Van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB, hélt framsögu um ástand efnahagsmála í Evrópu. Þrátt fyrir alvarlegustu efnahagskreppu álfunnar síðan á fjórða áratug síðustu aldar hefði tvennt þróast öðru vísi en þá sem seint yrði metið að mikilvægi. Annars vegar hefði ekki komið til þess að ríki tækju upp aukna verndarstefnu í viðskiptum og þar væri styrk innri markaðar ESB að þakka. Hins vegar hefði ekki heldur komið til hrinu gengisfellinga þar sem ríkin reyndu að styrkja samkeppnisstöðu sína með því að fella gengi gjaldmiðla sinna hvert í kapp við annað og væri þar evrunni fyrir að þakka. Kreppan er alvarleg og leiðtogaráð ESB hefur verið vettvangur ákvarðana og samráðs aðildarríkjanna um viðbrögð. Á síðustu tveimur árum hefur leiðtogaráðið tekið ákvarðanir um breytt eftirlit með fjármálastarfsemi, strangari reglur um hallarekstur í ríkisfjármálum og skuldir aðildarríkja og komið á gildum björgunarsjóðum sem veita einstökum ríkjum fyrirgreiðslu gegn ströngum skilyrðum. Þá yrðu ríkin að leggja drög að fjárlögum fyrir framkvæmdastjórn og ráðherraráð fjármálaráðherra til greiningar og athugasemda. Í nýjum stöðugleikasáttmála 25 ESB-ríkja um samræmi og stöðugleika í ríkisfjármálum væri skuldbinding um að fara ekki yfir ákveðið skuldaþak sem aðildarríkin verða bundin. Hvað markaðina varðar taldi Corbett ljóst að þeir mundu aldrei aftur gera þau mistök að veita skuldugum ríkjum eins og Grikkjum sömu lágu vaxtakjör og hin evruríkin nytu. Evruríkin mundu ekki njóta svipaðra vaxtakjara í framtíðinni heldur færu þau eftir stöðu hvers og eins.
    Í umræðunni sem á eftir fylgdi erindi Corbetts sagði Skúli Helgason ljóst að víða kenndi fólk ESB um kreppuna þó að orsökin lægi í óábyrgri hegðun stjórnvalda einstakra ríkja. Því gæti orðið mikil andstaða við að fullgilda hinn nýja stöðugleikasáttmála um ríkisfjármál í ríkjunum sem verst hefðu orðið úti. Hvernig mundi slík staðfesting ganga fyrir sig í Grikklandi þar sem mikil reiði væri vegna ástandsins? Magnús Orri Schram sagði boðskap Corbetts um árangur evrunnar við að koma í veg fyrir hrinu gengisfellinga áhugaverðan. Aflvaki að baki umsókn Íslands um aðild að ESB væri evran og löngun til að tryggja efnahagslegan stöðugleika með stöðugum gjaldmiðli. Spurði hann um framtíðarhorfur evrunnar. Corbett benti á að einungis tólf ríki af 25 þurfa að fullgilda stöðugleikasáttmálann til þess að hann taki gildi. Eftir það geta ríki ekki staðið í vegi fyrir sáttmálanum og býðst að taka þátt í honum með fullgildingu. Þjóðargjaldþrot Grikkja væri slæmt fyrir alla og að sjálfsögðu verst fyrir Grikki sjálfa. Ef Grikkir köstuðu evrunni og tækju upp drökmuna aftur þá væru erlendar skuldir þeirra engu síður enn í evrum. Hvað varðar framtíð evrunnar benti Corbett á að evran hefði verið nokkuð stöðug þrátt fyrir kreppuna og ef litið væri til hins stóra samhengis þá væru skuldir evrusvæðisins sem heildar hlutfallslega lægri en skuldir Japan og Bandaríkjanna. Kreppan væri fyrst og síðast skuldakreppa en ekki gjaldmiðilskreppa.
    Ulf Sverdrup, framkvæmdastjóri norsku úttektarinnar á EES-samstarfinu, hélt erindi um niðurstöður hennar. Samkvæmt úttektinni tekur Noregur þátt í ¾ hlutum allrar Evrópusamvinnu ef miðað er við þau ESB-ríki sem lengst hafa gengið í samstarfinu. Enginn vafi leikur á efnahagslegum ávinningi Norðmanna af EES-aðild. Um þjóðþingin sagði Sverdrup þau hafa farið mjög halloka í Evrópusamstarfinu þar sem vald hefði verið framselt stofnunum ESB sem erfitt væri að hafa eftirlit með eða kalla aðila til ábyrgðar fyrir. Þetta gilti um þjóðþing aðildarríkja ESB og í enn ríkari mæli um þjóðþing EFTA/EES-ríkjanna. Skúli Helgason spurði hvort efnahagslegur ávinningur Norðmanna af ESB hefði verið metinn í krónum og aurum og hvaða aðferðafræði væri að baki slíkri greiningu? Hvert væri hættumatið á EES- samningnum frá sjónarhóli Norðmanna? Magnús Orri Schram spurði hver viðbrögð stjórnmálamanna og almennings í Noregi hefðu verið við úttektinni og hvort niðurstaðan væri notuð sem rökstuðningur fyrir nánari þátttöku í Evrópusamrunanum. Þorgerður K. Gunnarsdóttir minntist umræðu á Íslandi um mögulegan árekstur við stjórnarskrána þegar EES-samningurinn var gerður. Síðan hefði þróunin sýnt að breyta yrði stjórnarskránni til að heimila framsal valds á takmörkuðum sviðum óháð því hvernig aðildarviðræður Íslands við ESB færu. Árni Þór Sigurðsson sagði úttektina mikilvæga fyrir hin EFTA/EES-ríkin og taldi að Íslendingar hefðu væntanlega breytt stjórnarskránni árið 1994 ef þeir hefðu séð fyrir hvernig EES-samningurinn mundi þróast. Sverdrup svaraði því til um efnahagslegan ávinning EES- samningsins að ekki væri nein ein tala nefnd í því sambandi en að mikilvægasti ávinningurinn fælist ekki í viðskiptum við og aðgangi að evrópskum mörkuðum heldur í nútímavæðingu norska hagkerfisins við að taka upp regluverk ESB á sviði innri markaðarins. Hvað varðar áhættu af EES þá gæti andstaða og jafnvel neitun Noregs gagnvart einstökum tilskipunum skapað óvissu. Úttektin hefði ekki aukið umræðu um kosti eða galla ESB-aðildar Norðmanna.

Fundir sendinefndar þingmannanefndar EFTA í Djakarta 7.–10. febrúar 2012.
    Dagana 7.–10. febrúar heimsótti sendinefnd þingmannanefndar EFTA Djakarta, höfuðborg Indónesíu. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES áttu sæti í sendinefndinni Árni Þór Sigurðsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara. Markmið heimsóknarinnar var að eiga viðræður um ávinning áformaðs fríverslunarsamnings EFTA og Indónesíu við þarlenda þingmenn, stofnanir og hagsmunaaðila en formlegar fríverslunarviðræður við Indónesíu hófust í júlí 2010.
    Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum. Með svartsýni á að árangur náist í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hafa fleiri samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA við ríki utan Evrópusambandsins (ESB) nú 24 talsins og ná til 33 ríkja. Engin ríkjasamtök hafa náð meiri árangri í gerð fríverslunarsamninga að ESB undanskildu. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga EFTA.
    Gestgjafi heimsóknarinnar var indónesíska þingið. Sendinefndin átti fundi með eftirtöldum aðilum meðan á heimsókninni stóð: Pramono Anung, varaforseta indónesíska þingsins, og fulltrúum þingnefnda sem fara með viðskiptamál, Gita Wrijawan viðskiptaráðherra, Wardana aðstoðarutanríkisráðherra, Soemadi Brotodiningrat, sendiherra og aðalsamningamanni Indónesíu í yfirstandandi fríverslunarviðræðum, og fulltrúum viðskiptaráðs og samtaka atvinnurekenda í Indónesíu.
    Í málflutningi þingmanna EFTA á fundunum var hnykkt á fáum en skýrum skilaboðum í þeim tilgangi að styðja við samningaviðræðurnar. Þau voru meðal annars hve vel hagkerfi EFTA-ríkjanna og Indónesíu geta stutt hvert annað og hve miklir möguleikar væru á að auka viðskipti EFTA og Indónesa. Fríverslunarsamningur mundi eyða óvissu og gera lagalegt umhverfi viðskipta tryggara og fyrirsjáanlegra, og þar með greiða fyrir fjárfestingum. Þá mundu indónesískar útflutningsvörur sem nýttar yrðu til framleiðslu í EFTA-ríkjunum þar með hafa aðgang að mun stærri innri markaði Evrópu. Enn fremur var lögð áhersla á að EFTA-ríkin eru sveigjanlegur og ábyrgur samningsaðili sem er tilbúinn að koma til móts við óskir Indónesa um að samningur kveði á um efnahagssamvinnu á breiðum grunni, þar á meðal aðstoð við að byggja upp getu og þekkingu (e. capacity building) innan ákveðinna greina í atvinnulífi Indónesa. Loks ræddu EFTA-þingmenn möguleika á tvíhliða samstarfi ríkja sinna við Indónesíu.
    Árni Þór Sigurðsson var varaformaður sendinefndar þingmanna EFTA. Á fundum með indónesískum viðræðuaðilum varð honum tíðrætt um hinn mikla efnahagsuppgang Indónesíu og að ekki væri langt í það að landið bættist í hóp svokallaða BRIC-ríkja (Brasilíu, Rússlands, Indlands og Kína) sem öll búa við mikinn hagvöxt. Sjálfbæra þróun yrði að tryggja við svo mikinn vöxt, m.a. við orkubúskap, en fyrirsjáanlegt er að orkunotkun Indónesíu mun vaxa hröðum skrefum á næstu árum. Landið býr yfir vannýttri auðlind þar sem jarðvarmi er, en talið er að um 40% að auðvinnanlegum jarðvarma heimsins sé í Indónesíu þar sem eldvirkni er mjög mikil. Árni Þór lagði áherslu á reynslu Íslendinga við rafmagnsframleiðslu með jarðvarmavirkjunum og taldi þar eitt sóknarfæri í efnahagslegri samvinnu ríkjanna tveggja. Fram kom að indónesískir námsmenn hafa stundað nám við Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
    Indónesísku viðmælendurnir lögðu áherslu á mikinn efnahagsuppgang landsins og teikn um bjarta framtíð. Þjóðin er ung og skuldir litlar, hagvöxtur hefur haldist hár, miklum fjármunum er varið til menntunar og uppbyggingar innviða og tölvulæsi er mikil. Næsta stig hagþróunar verður að auka fullvinnslu vöru í Indónesíu samhliða því að halda áfram fjárfestingum í menntakerfi og innviðum. Hvað varðar viðhorf til fríverslunarsamninga almennt telja indónesísk stjórnvöld sig hafa brennt sig á slíkum samningi við Kína en viðskiptahalli við Kína jókst mjög eftir gildistöku hans. Því lögðu viðmælendur þingmanna EFTA mikla áherslu á að með fríverslunarsamningi fylgdi efnahagssamstarf á breiðum grunni sem tæki til aðstoðar við uppbyggingu getu og kunnáttu í afmörkuðum greinum eins og að framan var getið. Að því gefnu voru viðmælendur jákvæðir um gerð fríverslunarsamnings Indónesíu og EFTA. Fulltrúar EFTA ríkjanna tóku vel í hugmyndir um breitt efnahagssamstarf sem næði til fleiri málaflokka en utanríkisviðskipta eingöngu. Umhverfismál og félagsleg réttindi voru m.a. nefnd í því sambandi.

38. fundur þingmannanefndar EES á Akureyri 2.–4. maí 2012.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES var gestgjafi 38. fundar þingmannanefndar EES sem fór fram á Hótel KEA á Akureyri. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Árni Þór Sigurðsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Skúli Helgason og Þorgerður K. Gunnarsdóttir auk Stígs Stefánssonar og Örnu Bang alþjóðaritara. Helstu dagskrármál fundarins voru framkvæmd EES-samningsins, úttektir einstakra ríkja og framkvæmdastjórnar ESB á EES-samningnum, og Hvítbók um samgöngumál í Evrópu. Auk þess heimsótti þingmannanefndin Háskólann á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
    Á fundi þingmannanefndar EES var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Í umræðunni kom fram að rekstur samningsins gengur vel og EES/EFTA-ríkin innleiða EES-gerðir hratt og örugglega. Svokallaður innleiðingarhalli EES/EFTA-ríkjanna, sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fylgist með, er nú 0,5% og hefur aldrei verið minni. Hann er því vel innan við 1% markmiðið sem miðað er við að aðildarríki EES haldi sig innan við. Gianluca Grippa, fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB og forseti sameiginlegu EES-nefndarinnar, nefndi þó að 17 gerðir sem sameiginlega EES-nefndin hefði tekið ákvörðun um að taka upp í EES-samninginn væru komnar yfir sex mánaða frestinn sem EFTA/EES-ríkin hafa til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara og staðfesta ákvörðunina. Þá ræddi Grippa um tilskipun ESB um gagnageymd sem Ísland hefur hindrað að tekin væri upp í EES-samninginn og biðlaði til þingmanna um aðstoð. Loks gerði Grippa stuttlega grein fyrir yfirstandandi úttekt framkvæmdastjórnarinnar á EES-samningnum og sagði þar m.a. horft til aðildar að EES, annars vegar út frá því að Ísland væri í aðildarviðræðum við ESB og mundi yfirgefa EFTA-stoðina í EES ef af aðild yrði, og hins vegar vegna hugsanlegra tækifæra fyrir önnur ríki til að tengjast innri markaðnum án aðildar að ESB. Oda Sletnes, forseti ESA, fór yfir helstu mál á borði eftirlitsstofnunarinnar og ræddi meðal annars skoðun á ríkisstyrkjum til fjármálakerfisins á Íslandi.
    Árni Þór Sigurðsson gerði grein fyrir afstöðu utanríkismálanefndar til tilskipunar um gagnageymd en nefndin beindi þeim tilmælum til utanríkisráðherra að fresta afgreiðslu málsins í sameiginlegu EES-nefndinni um ótiltekinn tíma. Nefndin telur annars vegar vafa leika á því að tilskipunin falli innan ramma EES og hins vegar rétt að bíða og sjá hvort tilskipunin verður endurskoðuð í ljósi þeirrar andstöðu sem hún hefur mætt í sumum aðildarríkjum ESB.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræddi Icesave-málið og lýsti áhyggjum af því á hvaða vegferð ESA væri. Ísland hefði brugðist rétt við fjármálakreppunni með setningu neyðarlaganna sem hefði aukið vernd innstæðueigenda í íslenskum bönkum, jafnt hérlendis sem erlendis. Þrátt fyrir það hefði ESA stefnt Íslandi fyrir EFTA-dómstólinn. Það væri áhugavert að sjá hvernig dómstóllinn tæki á túlkun ESA um ríkisábyrgð á innstæðutryggingum, það mundu þykja mikil tíðindi og hafa mikil áhrif víða um Evrópu í núverandi efnahagsástandi. ESA hegðaði sér frekar eins og pólitískur varðhundur ESB í málinu en sem sá regluvörður sem stofnuninni er ætlað að vera. Oda Sletnes, forseti ESA, svaraði því til að hún þekkti vel til afstöðu íslenskra stjórnvalda en ESA væri á öðru máli. Ekki væri eðlilegt að ræða málið fyrr en í málflutningi í dómsal.
    Nokkuð var rætt um nýjar reglur ESB um fjármálaeftirlit en upptaka þeirra hefur verið til skoðunar á vettvangi EES. Fulltrúar Noregs og Íslands hafa bent á stjórnskipuleg vandamál sem ríkin standa frammi fyrir gagnvart þessu nýja lagaumhverfî, þar sem líklegt er að í upptöku reglnanna í EES-samninginn og innleiðingu þeirra í ríkjunum fælist meira framsal opinbers valds en staðist fengi ákvæði í stjórnarskrám ríkjanna. Þorgerður K. Gunnarsdóttir sagði oft hafa reynt á þanþol stjórnarskrárinnar í EES-samstarfinu en í tilfelli hinna nýju reglna um fjármálaeftirlit lægi fyrir álit helstu stjórnskipunarlögfræðinga um að innleiðing þeirra og meðfylgjandi framsal ríkisvalds rúmist ekki innan venjuhelgaðrar reglu um að almenna löggjafanum sé heimilt að framselja ríkisvald í takmörkuðum mæli til alþjóðastofnana. Sagði Þorgerður blasa við að breyta þyrfti stjórnarskránni og setja inn ákvæði um slíkt framsal. Hinn valkosturinn væri að standa utan EES.
    Á fundinum var lögð fram skýrsla um Hvítbók framkvæmdastjórnar ESB um samgöngumál í Evrópu. Í umræðu um skýrsluna gerði Skúli Helgason markmið um minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda að umræðuefni og sagði athyglisvert að Evrópa væri í sömu sporum í samgöngumálum með olíudrifið samgöngukerfi 40 árum eftir olíukreppuna á 8. áratug síðustu aldar. Nýta yrði tækifæri betur til nýsköpunar og þróunar samgöngukerfis með nýja endurnýjanlega orkugjafa nú þegar olíuverð er aftur í hæstu hæðum. Þá gerði Skúli grein fyrir áherslum í ályktun Alþingis um eflingu græna hagkerfisins.
    Í lok fundar samþykkti þingmannanefndin þrjár ályktanir um ársskýrslu um virkni EES- samningsins árið 2011, úttektir á EES-samstarfinu, og Hvítbók um samgöngumál í Evrópu.

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Gstaad 27.–29. júní 2012.
    Í Gstaad í Sviss fór fram hefðbundinn fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA auk þess sem þingmannanefndin hélt fund með ráðgjafanefnd EFTA og eiginlegan nefndarfund. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Árni Þór Sigurðsson, formaður, Skúli Helgason, varaformaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var annars vegar fjallað um árangur af fríverslunarsamningum EFTA og hins vegar um reynslu af frjálsri för vinnuafls á EES-svæðinu og Schengen-samstarfið. Lögð var fram skýrsla frá skrifstofu EFTA um árangur af núverandi fríverslunarsamningum við 33 samstarfsríki EFTA. Þorgerður K. Gunnarsdóttir átti frumkvæði að því að biðja um skýrsluna og fór yfir hana á fundinum. Minnti hún á að EFTA-þingmenn hefðu á undanförnum árum stutt dyggilega við fríverslunarsamningagerð EFTA og að tilgangur skýrslunnar væri að sjá hvort aukning yrði í viðskiptum EFTA-ríkjanna við samstarfsríki í kjölfar slíkra samninga umfram það sem gerðist í viðskiptum við önnur lönd. Vegna skorts á gögnum var einungis hægt að gera samanburð á grundvelli vöruviðskipta en ekki þjónustuviðskipta. Sá samanburður sýnir að alþjóðleg vöruviðskipti EFTA-ríkjanna hafa að meðaltali aukist um 11,9% á ári frá 2003 en á sama tíma hafa viðskipti við ríki sem gert hafa fríverslunarsamninga við EFTA aukist um 13,5% að jafnaði. Erfitt er að fullyrða um orsakatengsl fríverslunarsamninga og aukinna viðskipta út frá þessum tölum einum án þjónustuviðskipta en engu síður gefa þær jákvæðar vísbendingar. Þá sagði Þorgerður ýmsar athyglisverðar tölulegar upplýsingar að finna í skýrslunni og benti m.a. á að hlutur Kanada, stærsta samstarfsríkis EFTA með fríverslunarsamning, væri einungis 1,4% af heildarvöruviðskiptum EFTA-ríkjanna.
    Þá var lögð fram skýrsla um frjálsa för vinnuafls um EES-svæðið og Schengen-samstarfið. Í EES/EFTA-ríkjunum þremur varð mikil aukning í innflutningi vinnuafls í kjölfar austurstækkunar ESB og þar með EES árið 2004. Þessari þróun fylgdu áhyggjur um félagsleg undirboð, þ.e. að kjarasamningar á vinnumarkaði yrðu ekki virtir í samskiptum vinnuveitenda og hins aðflutta vinnuafls. Í Sviss og á Íslandi var brugðist við þeim áhyggjum með lagasetningu. Þá var greint frá umræðu á vettvangi ESB um svigrúm ríkja innan Schengen-samstarfsins til að taka upp tímabundið landamæraeftirlit innan Schengen við sérstakar aðstæður en nokkuð hefur verið deilt um það. Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt til að horfið verði frá því að einstök ríki geti ákveðið einhliða að taka upp landamæraeftirlit innan Schengen og að ákvarðanataka um slíkt tímabundið eftirlit fari fram innan hins evrópska samstarfs. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og Svein Roald Hansen sögðu tillögu framkvæmdastjórnarinnar ganga gegn stefnu íslenskra og norskra stjórnvalda sem leggja áherslu á að þessi ákvörðun sé á valdi einstakra Schengen-ríkja. Samþykkti þingmannanefnd EFTA ályktun í þá veru og var hún send ráðherraráði EFTA og Ceciliu Malmström sem fer með dóms- og innanríkismál í framkvæmdastjórn ESB.
    Á fundi þingmannanefndar og ráðgjafanefndar EFTA var áfram fjallað um skýrsluna um frjálsa för vinnuafls. Aðallega var rætt hvernig aðflutt vinnuafl hefur eflt hagþróun í löndunum, farið yfir hvaða geirar hagkerfisins hafa helst nýtt aðflutt vinnuafl og í hvers konar störf það hefur valist.
    Á fundi þingmannanefndar og ráðherra EFTA var annars vegar fjallað um þróun í samstarfi EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga, og hins vegar um samstarf við ESB og framkvæmd EES-samningsins, en það eru fastir dagskrárliðir á slíkum fundum. EFTA er með gilda fríverslunarsamninga við 33 ríki utan EFTA og ESB og á jafnframt í viðræðum við stór ríki eins og Rússland, Indland, Indónesíu og Víetnam auk nokkurra Mið-Ameríkuríkja. Fram kom að tækifæri á fríverslunarsviðinu væru stöðugt í skoðun hjá EFTA og m.a. væri horft til ríkja Afríku sunnan Sahara þar sem hagvöxtur hefur verið mikill á undanförnum missirum. Þá er einnig til skoðunar að uppfæra eldri fríverslunarsamninga og útvíkka þá sem einungis ná til vöruviðskipta til þjónustuviðskipta. Skúli Helgason spurði hvort umfang utanríkisverslunar EFTA við samstarfsríki með fríverslunarsamninga væri ásættanlegt en það er 8,7% af heildarviðskiptum EFTA-ríkjanna. Árni Þór Sigurðsson spurði um ákvæði um mannréttindi í fríverslunarsamningum og benti á bága stöðu mannréttindamála í Hvíta-Rússlandi en vegna tollabandalags Rússlands við Kasakstan og Hvíta-Rússland standa yfir viðræður við öll ríkin saman. Þá lýsti hann áhyggjum af réttindum minnihlutaþjóðernishópa í Georgíu en fyrr sama dag undirrituðu EFTA-ráðherrar og efnahagsráðherra Georgíu samstarfsyfirlýsingu í efnahagsmálum. Loks sagði Árni Þór óþolandi að fríverslunarsamningur EFTA og palestínsku heimastjórnarinnar væri ekki virkur af því að Ísrael hefti eðlilega vöruflutninga til og frá svæðum Palestínumanna. Hvatti hann önnur EFTA-ríki til að viðurkenna Palestínu eins og Ísland hefði gert. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra varð til svara og vildi að horft yrði bæði til efnahagslegs ávinnings og mannréttinda í fríverslunarsamningum. Taldi hann að fríverslunarsamningur við Rússland, Kasakstan og Hvíta-Rússland yrði ekki samþykktur í þjóðþingum EFTA-ríkjanna nema umbætur ættu sér stað í Hvíta-Rússlandi. Hvað varðar umfang viðskipta við fríverslunarsamstarfsríki sagði utanríkisráðherra að þau mundu aukast umtalsvert ef samningar næðust við stærstu viðskiptaríkin utan kerfisins, eins og Kína, Rússland og Indland.
    Í umræðum þingmanna og ráðherra EFTA um samstarfið við ESB og framkvæmd EES- samningsins var m.a. komið inn á nýjar reglur ESB um fjármálaeftirlit en upptaka þeirra hefur verið til skoðunar á vettvangi EES. Fulltrúar Noregs og Íslands hafa bent á stjórnskipuleg vandamál sem ríkin standa frammi fyrir gagnvart þessu nýja lagaumhverfî, þar sem líklegt er að í upptöku reglnanna í EES-samninginn og innleiðingu þeirra í ríkjunum fælist meira framsal opinbers valds en staðist fengi ákvæði í stjórnarskrám ríkjanna. Leitað er lausna á málinu. Þá var rætt um Schengen og gerði Þorgerður K. Gunnarsdóttir grein fyrir umræðum þingmannanefndarinnar fyrr um daginn. Spurði hún um afstöðu ráðherranna til tillagna framkvæmdastjórnar ESB um að færa ákvarðanatökuvald einstakra ríkja til að taka upp tímabundið landamæraeftirlit við sérstakar aðstæður innan Schengen til evrópskra stofnana. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði framkvæmdastjórn ESB vilja færa þetta vald inn á evrópskan vettvang með stuðningi Evrópuþingsins en ríkisstjórnir flestra Schengen-ríkja væru andvígar þeirri breytingu og það sama gilti um EFTA-ríkin.

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Genf 12. nóvember 2012.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Árni Þór Sigurðsson, formaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara Íslandsdeildar. Í Genf fór fram fundur þingmanna og ráðherraráðs EFTA um fríverslunarmál auk þess sem þingmannanefnd EFTA fjallaði á eigin fundi um frjálsa för vinnuafls á EES-svæðinu og viðskipti EFTA-ríkjanna við Mið-Ameríku.
    Á fundi þingmanna og ráðherraráðs EFTA í Genf var einkum fjallað um gerð fríverslunarsamninga EFTA, en það er fastur dagskrárliður á slíkum fundum. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og formaður ráðherraráðs EFTA, flutti framsögu um stöðu og horfur fríverslunarsamninga samtakanna. Tilkynnti hann um nýhafnar viðræður EFTA við Malasíu og jafnframt um samstarfsyfirlýsingu EFTA og Pakistan, en slíkar samstarfsyfirlýsingar eru oft fyrirboði fríverslunarviðræðna. Af yfirstandandi viðræðum eru þær mikilvægustu við Indland og Rússland. Rússland er í tollabandalagi við Kasakstan og Hvíta-Rússland svo EFTA á í viðræðum við ríkin þrjú sameiginlega. Þá á EFTA í viðræðum við Bosníu og Hersegóvínu, Kostaríku, Gvatemala, Hondúras, Panama, Indónesíu og Víetnam. Árni Þór Sigurðsson gerði grein fyrir ferð utanríkismálanefndar Alþingis til Kanada í október 2012 þar sem nefndin hitti m.a. utanríkismálanefnd og utanríkisviðskiptanefnd kanadíska þingsins auk embættismanna í utanríkisráðuneyti. Á fundunum talaði utanríkismálanefnd máli EFTA en mikill áhugi er á að uppfæra fríverslunarsamning EFTA og Kanada frá árinu 2009 svo samningurinn verði svokallaður „annarrar kynslóðar samningur“ og taki til þjónustuviðskipta og ríkisinnkaupa auk hefðbundinna vöruviðskipta. Viðmælendur utanríkismálanefndar í Kanada sögðu áhuga á að fara í slíka vinnu fljótlega eftir að yfirstandandi fríverslunarviðræðum Kanada og ESB lýkur en stefnt er að því að það geti orðið um áramót. Samningur Kanada og ESB mun setja ákveðin viðmið fyrir uppfærslu á samningi Kanada og EFTA. Þó vöruðu kanadískir viðmælendur við því að töf gæti orðið á viðræðum við EFTA af þeirri einföldu ástæðu að samningamenn Kanada væru ofhlaðnir störfum en kanadísk stjórnvöld eiga í fríverslunarviðræðum við 14 aðila um þessar mundir. Árni Þór spurði loks um samskipti EFTA við Palestínu og gerði grein fyrir þingsályktunartillögu sem liggur fyrir Alþingi um að ríkisstjórnin grípi til nauðsynlegra aðgerða annars vegar til að tryggja réttar upprunamerkingar vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu og hins vegar til að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu. Utanríkisráðherra sagði ísraelsk stjórnvöld standa í vegi fyrir að Palestínumenn njóti ávaxta fríverslunarsamningsins við EFTA með því að hindra eðlilega vöruflutninga frá yfirráðasvæði þeirra. EFTA gæti lítið gert við því en einbeitti sér að efnahagslegu samstarfi við palestínsk yfirvöld á annan máta. Hvað Kanada varðar kvaðst utanríkisráðherra vonast til að viðræður um uppfærslu fríverslunarsamningsins gætu hafist á fyrri hluta árs 2013.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var fjallað um skýrslu nefndarinnar um frjálsa för vinnuafls. Svissneski þingmaðurinn Ignazio Cassis var framsögumaður skýrslunnar og fór yfir hve EFTA-ríkin eru háð innfluttu vinnuafli. Atvinnuleysi í EFTA-ríkjunum er mun minna en meðaltal ESB sem er 10,4%. Auk þess fer atvinnuleysi minnkandi innan EFTA á meðan það eykst innan ESB. Mikil aukning á innflutningi vinnuafls varð í kjölfar austurstækkunar ESB árið 2004 og hefur hlutur erlends vinnuafls aukist stöðugt í EFTA-ríkjunum þremur utan Íslands en hérlendis minnkaði hlutur þess í kjölfar efnahagshrunsins. Þingmannanefndin samþykkti ályktun á grunni skýrslunnar þar sem m.a. var lögð áhersla á áframhaldandi þörf EFTA-ríkjanna fyrir innflutt vinnuafl og að ríkjunum hefði verið kleift að viðhalda félags- og velferðarkerfum sínum m.a. með innfluttu vinnuafli.
    Þingmannanefndin fór einnig yfir viðskipti EFTA við ríki Mið-Ameríku og flutti Ivo Kaufmann, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, framsögu þar um. Var sjónum einkum beint að ríkjunum fjórum sem EFTA á í sameiginlegum viðræðum við, þ.e. Panama, Kostaríka, Gvatemala og Hondúras. Viðskipti EFTA við ríkin fjögur námu 885 milljónum bandaríkjadala árið 2011. Þar af voru 47% viðskiptanna við Panama, 24% við Kostaríka og 16% við Gvatemala og 6% við Hondúras. Vonast er til að fríverslunarsamningur geti legið fyrir í lok þessa árs.
    Að venju fóru fram á fundi þingmannanefndarinnar hringborðsumræður um stjórnmálaástand í EFTA-löndunum. Þar gerði Árni Þór Sigurðsson stuttlega grein fyrir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs og framhald vinnu Alþingis við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þá gerði hann grein fyrir stöðu aðildarviðræðna við ESB og prófkjörum og forvölum stjórnmálaflokkanna fyrir alþingiskosningarnar 27. apríl 2013.
    Í lok fundar þingmannanefndar EFTA var ákveðið að Ísland tæki við formennsku nefndarinnar starfsárið 2013 og var Árni Þór Sigurðsson kjörinn formaður.

Fundur þingmanna og utanríkisráðherra EES/EFTA-ríkjanna og 39. fundur þingmannanefndar EES í Brussel 26.–27. nóvember 2012.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Skúli Helgason, varaformaður, Birkir Jón Jónsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir auk Stígs Stefánssonar alþjóðaritara.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA og utanríkisráðherra EES/EFTA-ríkjanna 26. nóvember greindu ráðherrarnir frá niðurstöðum fundar EES-ráðsins sem fram fór fyrr um daginn og svöruðu fyrirspurnum þingmanna. Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, flutti framsögu og fór yfir yfirlýsingu EES-ráðsins. Tæpti hann m.a. á stöðu upptöku stórra ESB-gerða í EES-samninginn og innleiðingu í EES/EFTA-ríkjunum, væntanlegri aðild Króatíu að EES samhliða ESB-aðild og umræðu um stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs. Þá nefndi hann sérstaklega vanda varðandi upptöku regluverks um evrópskt fjármálaeftirlit í EES-samninginn. Hlutverk og valdheimildir evrópska fjármálaeftirlitsins eru þess eðlis að það kallar á framsal valds frá EES/EFTA-ríkjunum sem erfitt er að samrýma stjórnarskrám þeirra. Skúli Helgason sagði regluverk evrópska fjármálaeftirlitsins ósamrýmanlegt íslensku stjórnarskránni og brjóta í bága við hið svokallaða tveggja stoða kerfið sem er grundvöllur EES- samningsins. Jafnframt spurði hann út í möguleika á sameiginlegri stefnu Evrópuríkja í málefnum Miðausturlanda. Eide svaraði að reynt yrði að vinna að lausn innan tveggja stoða kerfisins en vilji ESB til þess væri óljós. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði ekki vænta þess að ESB-ríkin mundu tala einni röddu þegar kæmi til atkvæðagreiðslu um uppfærða stöðu Palestínu innan Sameinuðu þjóðanna og að forsendur virtust ekki vera fyrir sameiginlegri Miðausturlandastefnu.
    Á 39. fundi þingmannanefndar EES var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðu um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Í umræðunni kom fram að rekstur samningsins gengur vel en þó væri neikvætt að svokallaður innleiðingarhalli EES/EFTA-ríkjanna á EES-gerðum, sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) mælir, hefur verið að aukast. Atle Leikvoll, fulltrúi formennsku Noregs í EES-ráðinu, sagði ljóst að auka þyrfti hraða á upptöku ESB-gerða í EES-samninginn til að ná því markmiði að tryggja einsleitni lagaumhverfis á innri markaðnum og auk þess þyrfti að auka hraða á innleiðingu gerða í EES/EFTA-ríkjunum sem teknar eru upp í EES-samninginn með svokölluðum stjórnskipulegum fyrirvara. Sá fyrirvari skuldbindur ríkin til að ganga frá innleiðingu innan sex mánaða en oft verður þar misbrestur á. Gianluca Grippa, fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB, minntist 20 ára afmælis innri markaðarins í október 2011 og sagði það vanda að um 400 gerðir hefðu ekki verið teknar upp í EES-samninginn sem sannarlega ættu þar heima og það hefði í för með sér að ekki væri öruggt að fyrirtæki byggju við samræmt lagalegt rekstrarumhverfi á innri markaðnum. Aðspurður um skort á vilja af hálfu ESB til að finna lausn til þess að EES/EFTA-ríkin geti tekið þátt í evrópska fjármálaeftirlitinu sagði Grippa að ákvarðanir ESB um valdheimildir til stofnana hefðu vissulega orðið til þess að EES/EFTA-ríkin stæðu frammi fyrir annarri stöðu en fyrir 20 árum þegar EES-samningnum var komið á á grunni tveggja stoða kerfis. Vonandi fyndist lausn en þó væru skýr takmörk fyrir því hversu langt ESB gæti seilst þegar innri markaðurinn væri annars vegar þar sem lagaleg einsleitni og samræmi er aðalatriði.
    Á fundinum var lögð fram skýrsla um endurskoðun sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB og voru Pat the Cope Gallagher og Skúli Helgason framsögumenn hennar. Gallagher fór yfir stöðu endurskoðunarferlisins og lagði áherslu á meginmarkmið eins og bann við brottkasti, skyldu til að ná fram sjálfbærni í veiðum árið 2015 og kvótaframsal. Vonaðist Gallagher til þess að það tækist að ljúka endurskoðuninni undir írsku ESB-formennskunni á fyrri árshelmingi 2013. Skúli Helgason benti á að ákvarðanir um veiðikvóta ESB hefðu frá árinu 2003 að meðaltali farið 47% fram úr ráðgjöf vísindamanna og hefði það leitt til ofveiði og hruns fiskstofna. Mat sérfræðinga væri að afkoma sjávarútvegsins mundi batna mjög ef farið væri að veiðiráðgjöf og stofnarnir byggðir upp að nýju. Skúli undirstrikaði jafnframt að sjálfbærni næði ekki einungis til þess að tryggja viðgang og skynsamlega nýtingu fiskstofna heldur einnig til afkomu sjávarútvegs sem atvinnugreinar sem ætti að standa undir sér án styrkja og niðurgreiðslna. Minnti hann í þessu sambandi á stöðu íslensks sjávarútvegs sem stendur á eigin fótum og sagði að lækkun eða afnám styrkja innan ESB yrði til þess að jafna samkeppnisstöðu í sjávarútvegi. Loks fjallaði Skúli um makríldeiluna og sagði eina hindrun á lausn hennar þá að mönnum bæri ekki saman um umfang makríls á Íslandsmiðum. Því væri mikilvægt að hvetja til sameiginlegra rannsókna á gengd deilistofna í ályktun nefndarinnar.
Þá var lögð fram skýrsla um framtíð orkustefnu ESB og áhrif hennar á EES. Framsögumenn voru Poul Rübig frá Evrópuþinginu og Skúli Helgason en hann hljóp í skarðið fyrir Harry Quaderer frá Liechtenstein sem var forfallaður. Rübig fór yfir bakgrunn orkustefnunnar sem varð ESB-mál við gildistöku Lissabonsáttmálans árið 2009 og hvernig aðgerðir Rússa gagnvart Úkraínu, þar sem lokað var fyrir gasviðskipti vegna pólitískra deilumála, hefðu vakið menn til vitundar um að efla orkuöryggi Evrópu. Fór Rübig yfir markmið á sviði orkumála í áætluninni Evrópa 2020 og ræddi sérstaklega þörf á fjárfestingu í innviðum orkudreifingarkerfis í Evrópu til þess að gera álfuna í raun að sameiginlegum orkumarkaði. Skúli Helgason fór yfir orkubúskapinn á Íslandi og í Noregi sem einkennist af mun stærri hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa en á meginlandi Evrópu. Hann benti á að Noregur væri næststærsti birgir ESB hvað varðar gas og olíu. Noregur væri tengdur rafmagnsmarkaði Evrópu ólíkt Íslandi en þar færi fram umræða um að skoða möguleika á slíkri tengingu með lagningu sæstrengs.
    Enn fremur voru á fundinum lagðar fram skýrslur um þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í stofnunum ESB og um þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í áætlunum ESB.
    Í lok fundar samþykkti þingmannanefnd EES fjórar ályktanir um þátttöku EES/EFTA- ríkjanna í stofnunum ESB, þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í áætlunum ESB, framtíð orkustefnu ESB og áhrif hennar á EES, og endurskoðun sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB.

5. Ályktanir þingmannanefndar EES árið 2012.
          Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2011, samþykkt á Akureyri 4. maí 2012.
          Ályktun um úttektir á EES-samstarfinu, samþykkt á Akureyri 4. maí 2012.
          Ályktun um Hvítbók um samgöngumál í Evrópu, samþykkt á Akureyri 4. maí 2012.
          Ályktun um endurskoðun sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB, samþykkt í Strassborg 27. nóvember 2012.
          Ályktun um framtíðarorkustefnu ESB, samþykkt í Strassborg 27. nóvember 2012.
          Ályktun um þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í stofnunum ESB, samþykkt í Strassborg 27. nóvember 2012.
          Ályktun um þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í áætlunum ESB, samþykkt í Strassborg 27. nóvember 2012.


Alþingi, 5. febrúar 2013.

Árni Þór Sigurðsson,
formaður.
Skúli Helgason,
varaformaður.
Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir.