Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 478. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1102  —  478. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (kynferðisbrot gegn börnum í fjölskyldu- og öðrum trúnaðarsamböndum).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneytinu, Róbert Spanó, formann refsiréttarnefndar, og Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd, ríkissaksóknara og umboðsmanni barna.
    Markmið frumvarpsins er að gera ákvæði 200.–202. gr. almennra hegningarlaga um refsihámark skýrari og í samræmi við réttarframkvæmd á þessu sviði. Lagt er til að ekki verði samkvæmt orðalagi ákvæðanna gerður greinarmunur á refsihámarki brota í formi samræðis eða annarra kynferðismaka við yngra barn en 15 ára eftir því hvort um er að ræða brot innan eða utan fjölskyldusambands eða annars trúnaðarsambands, eins og nú er. Þá verði afnumin aldursviðmið sem miðast við 16 ára aldur. Geri ákvæðin í heild sinni því fyrst og fremst greinarmun á refsimörkum kynferðisbrota gegn börnum eftir því hvort þau eru framin fyrir 15 ára aldur, sem er hinn kynferðislegi lágmarksaldur, eða eftir það, þ.e. þegar barn er 15, 16 eða 17 ára gamalt. Í tengslum við þá breytingu er lagt til að refsing vegna samræðis eða annarra kynferðismaka við barn innan fjölskyldu eða annars trúnaðarsambands varði allt að 12 ára fangelsi þegar barn er á aldrinum 15, 16 eða 17 ára. Samkvæmt gildandi ákvæði er refsingin fangelsi allt að 12 árum þegar barn er yngra en 16 ára en allt að átta árum þegar barn er 16 eða 17 ára. Þessi breyting felur í sér að litið verði á börn á aldrinum 15–18 ára sem einn hóp sem náð hafa kynferðislegum lágmarksaldri. Þá er í frumvarpinu lagt til að refsing vegna annarrar kynferðislegrar áreitni gagnvart barni á aldrinum 15–18 ára í fjölskyldusambandi eða öðru trúnaðarsambandi verði fangelsi í allt að fjögur ár. Að lokum er í frumvarpinu lagt til að lögfest verði sérstök heimild til refsiþyngingar þegar kynferðisbrot er framið í trúnaðarsambandi geranda og barns undir 15 ára aldri.
    Í a-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga taki ekki sérstaklega til þeirra tilvika þegar maður hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja sem er yngra en 15 ára gamalt heldur verði bundið við brot gegn börnum á aldrinum 15, 16 eða 17 ára, þ.e. börnum sem náð hafa 15 ára aldri en eru yngri en 18 ára. Fram kom í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands að hægt væri að túlka ákvæðið svo að það sé vægara brot að brjóta gegn barni sem er yngra en 15 ára heldur en barni sem er 15, 16, eða 17 ára. Nefndin vill árétta þann skilning sinn varðandi breytingar á ákvæðinu að brot gegn börnum yngri en 15 ára verði ekki túlkuð sem vægari. Nefndin bendir á að lesa verði ákvæði 200. gr. og 202. gr. almennra hegningarlaga saman. Tilvik þar sem kynferðisbrot er framið gegn barni yngra en 15 ára falli eftir sem áður undir 1. mgr. 202. gr. Einnig vill nefndin hnykkja á því að fyrri hluti 1. mgr. 200. gr. laganna, þ.e. að hver sem hafi samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja skuli sæta fangelsi allt að átta árum, tekur til þeirra sem eru 18 ára og eldri.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að við ákvörðun refsingar vegna brots sem varðar við 1. og 2. mgr. 202. gr. laganna verði það virt til refsiþyngingar sé brotaþoli barn geranda, annar niðji, kjörbarn, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða barn sem er tengt honum þannig fjölskylduböndum í beinan legg eða barn sem viðkomandi hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, enda séu gerandi og þolandi ekki á svipuðum aldri og þroskastigi þannig að ástæða sé til að beita refsilækkunarheimild síðari málsliðar 1. mgr. 202. gr. Nefndin áréttar að ákvæðið snýr að börnum sem eru yngri en 15 ára. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var bent á að orka kunni tvímælis að ekki sé gert ráð fyrir því að hægt sé að þyngja refsingu þegar brot er framið í trúnaðarsambandi eftir að þolandinn hefur náð 15 ára aldri. Nefndin tekur ekki undir þessi sjónarmið og bendir á að í 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga er að finna refsiþyngingarákvæði sem tekur til þeirra sem náð hafa 15 ára aldri. Þar segir að hafi verknaður beinst að karli, konu eða barni sem eru nákomin geranda, og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins, skuli að jafnaði taka það til greina til þyngingar refsingunni.
    Nefndin bendir á að frumvarpið endurspeglar þann vilja löggjafarvaldsins sem fram kom í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar á 140. löggjafarþingi (þskj. 1339) þar sem innleidd voru í íslenskan rétt ákvæði samnings Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun. Þar lagði nefndin áherslu á að farið yrði yfir samhengi ákvæða kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga í því skyni að endurskoða greinarmun á refsihámarki eftir því hvort barn tengist geranda eður ei. Það er álit nefndarinnar að frumvarpið feli í sér mikilvægt skref í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum.
    Nefndin ræddi nokkuð það misræmi sem fram kemur annars vegar í 1. mgr. 200. gr. laganna sem kveður á um að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja skuli sæta fangelsi og hins vegar 1. mgr. 201. gr. sem kveður á um að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 18 ára, sem er kjörbarn hans, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða tengt honum þannig fjölskylduböndum í beinan legg eða barn, sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, skuli sæta fangelsi. Nefndin bendir á að hér er að finna óeðlilegt misræmi og að leiða megi að því líkum að ólögmæti samræðisins hafi meira að gera með líffræðileg tengsl en siðferði. Beinir nefndin því til refsiréttarnefndar að taka þetta til skoðunar.
    Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi telur nefndin með hliðsjón af því sem kemur fram í 1. gr. frumvarpsins um að brot skv. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga fyrnist ekki, að skýrara sé ákvæði 82. gr. laganna verði breytt þannig að sérstaklega komi fram að fyrningarfrestur vegna háttsemi sem brýtur gegn ákvæðum 2.–4. mgr. 202. gr. hefjist ekki fyrr en við 18 ára aldur, í stað þess að 202. gr. sé tilgreind í heild sinni í ákvæðinu. Í öðru lagi leggur nefndin til breytingu á 4. gr. frumvarpsins. Í 2.–4. mgr. 202. gr. er mælt fyrir um refsinæmi tiltekinnar háttsemi og í fræðiritum og dómum sem og í reglum um sérstakar aðferðir lögreglu við rannsókn sakamála er vísað til ákvæðanna. Telur nefndin með hliðsjón af þessu betur til fallið að til verði ný 5. mgr. sem mæli fyrir um þær ástæður sem virða beri til refsiþyngingar í stað þess að um nýja 2. mgr. yrði að ræða, en slíkt mundi riðla skipan ákvæðisins. Nefndin áréttar að ekki er um efnisbreytingar að ræða heldur eru breytingarnar sem hún leggur til lagatæknilegs eðlis.
    Björgvin G. Sigurðsson og Tryggvi Þór Herbertsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við bætist ný grein er verði 2. gr., svohljóðandi:
              Í stað „202. gr.“ í 1. mgr. 82. gr. laganna kemur: 2.–4. mgr. 202. gr.
     2.      Inngangsmálsliður 4. gr., er verði 5. gr., orðist svo: Við 202. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi.

Alþingi, 27. febrúar 2013.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Þráinn Bertelsson.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Ólafur Þór Gunnarsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Siv Friðleifsdóttir.



Birgitta Jónsdóttir.