Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 134. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1106  —  134. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998,
með síðari breytingum (skýrara bann við auglýsingum).


Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Ingu Þóreyju Óskarsdóttur og Helga Valberg Jensson frá innanríkisráðuneyti, Sóleyju Ragnarsdóttur frá Samkeppniseftirlitinu, Elfu Ýri Gylfadóttur og Döllu Ólafsdóttur frá fjölmiðlanefnd, Tryggva Axelsson og Þórunni Önnu Árnadóttur frá Neytendastofu, Almar Guðmundsson frá Félagi atvinnurekenda og Andra Þór Guðmundsson frá Ölgerðinni. Umsagnir bárust frá Félagi atvinnurekenda, fjölmiðlanefnd og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Nefndin hefur einnig kynnt sér umsagnir um málið frá fyrri þingum, 139. löggjafarþingi (705. mál) og 140. löggjafarþingi (136. mál).
    Frumvarpið er nú flutt í þriðja sinn. Með því er lagt til að bann við áfengisauglýsingum verði gert skýrara og skilvirkara án þess þó að breyta núverandi réttarástandi hvað það varðar. Lagt er til að eftirlit með banni við áfengisauglýsingum verði fært úr höndum lögreglu til Neytendastofu sem verði veitt heimilt til að ljúka málunum með stjórnvaldssekt.
    Meiri hlutinn bendir á að bann við áfengisauglýsingum hefur verið í lögum hér á landi allt frá árinu 1928. Einn megintilgangurinn með banninu er að stemma stigu við misnotkun áfengis og þeim vandamálum sem af henni kunna að hljótast og er það í samræmi við markmiðsákvæði áfengislaga en skaðleg neysla áfengis er alvarlegt lýðheilsuvandamál. Fram kemur í 1. mgr. 20. gr. áfengislaga að hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum séu bannaðar og enn fremur að bannað sé að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu. Í frumvarpi þessu er lögð sérstök áhersla á að koma í veg fyrir að farið sé í kringum bannið með því að auglýsa óáfenga vöru með ríkri tilvísun til hinnar áfengu vöru. Því er mælt fyrir um það í 1. gr. frumvarpsins að hvers konar auglýsingar og önnur viðskiptaboð til markaðssetningar á áfengi séu bönnuð. Jafnframt er lagt til að framangreint bann nái einnig til vökva eða vöru sem inniheldur undir 2,25% af hreinum vínanda ef um er að ræða markaðssetningu í umbúðum sem geta skapað hættu á að ruglast sé á áfengu vörunni og hinni áfengu. Meiri hlutinn leggur á það sérstaka áherslu að bann við áfengisauglýsingum hefur ekki verið virt sem skyldi og farið hefur verið á svig við gildandi lög. Það er mat meiri hlutans að nauðsynlegt sé að leggja til breytingar sem fela í sér skýrara regluverk og raunhæfari úrræði til að bregðast við brotum á gildandi auglýsingabanni.
    Í 1. mgr. 2. gr. er lagt til að eftirlit með brotum gegn 20. gr. laganna verði á hendi Neytendastofu en ekki lögreglu líkt og nú tíðkast. Samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, hefur Neytendastofa eftirlit með villandi og óréttmætum auglýsingum. Það er álit meiri hlutans að augljós samlegðaráhrif séu af því að færa eftirlitið til Neytendastofu en það er í samræmi við hlutverk hennar.
    Í 4. mgr. 1. gr. eru taldar upp undantekningar frá banni samkvæmt lögunum. Í 6. tölul. er kveðið á um að bannið nái ekki til umfjöllunar í frétta- og fagtímaritum og frétta-, menningar- og matreiðsluþáttum enda sé ekki fjallað um áfengi, eða það auglýst samkvæmt lögunum gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi eða í tengslum við markaðssetningu vörunnar. Skv. 7. tölul. tekur bannið ekki til hljóð- og myndmiðlunarefnis sem sýnt er í línulegri dagskrá og eftir pöntunum, auk þess sem það tekur ekki til kvikmynda og annars sjónvarps- og kvikmyndaefnis sem er framleitt samræmi við lög framleiðslulands. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var bent á að samkvæmt lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, væri einn grundvallarþáttur í eftirliti fjölmiðlanefndar að hafa eftirlit með keyptri umfjöllun í ritstjórnarefni fjölmiðla hvað varðar dulin viðskiptaboð og vöruinnsetningu, sbr. einkum 37. og 38. gr. þeirra laga. Frumvarpið fæli þar af leiðandi í sér skörun á hlutverki Neytendastofu annars vegar og fjölmiðlanefndar hins vegar. Fjölmiðlanefnd lagði til að eftirlit með 6. og 7. tölul. 4. mgr. 1. gr. hvað fjölmiðla snerti ætti að vera í höndum hennar en ekki Neytendastofu. Nefndin ræddi þetta nokkuð. Meiri hlutinn áréttar að hlutverk Neytendastofu hvað varðar þessar greinar felur í sér að hafa eftirlit með villandi og óréttmætum auglýsingum. Ljóst er að ef efni er auglýsing eða viðskiptaboð þá er sýning áfengis bönnuð. Eftirlit Neytendastofu felst í því að úrskurða hvort auglýsing sé brot á lögum og reglum settum samkvæmt þeim, og eftir atvikum að beita viðurlagaúrræðum sem stofnunin hefur í tilefni af slíkum brotum. Það er álit meiri hlutans að ekki sé um að ræða skörun á milli Neytendastofu og fjölmiðlanefndar hvað þessi ákvæði varðar og tekur því meiri hlutinn ekki undir það álit fjölmiðlanefndar að skipulagi eftirlitsins sé best fyrir komið hjá henni. Valdmörk þessara stjórnvalda eru því skýr að mati meiri hlutans. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að lög um fjölmiðla eru almenn lög en áfengislög eru sérlög. Í 4. mgr. 7. gr. laga um fjölmiðla er kveðið á um að fjölmiðlanefnd skuli gera samstarfssamning við Neytendastofu um mál sem geta varðað starfssvið þessara stofnana. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að þessi samstarfssamningur verði gerður. Það er skilningur meiri hlutans að þar verði m.a. kveðið á um verkaskiptingu milli Neytendastofu og fjölmiðlanefndar hvað varðar mat á því dagskrárefni sem fellur undir 6. og 7. tölul. 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    
    4. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2013.

    Sigmundur Ernir Rúnarsson og Tryggvi Herbertsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. febrúar 2013.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Birgitta Jónsdóttir,


frsm.


Skúli Helgason.



Þráinn Bertelsson.


Ólafur Þór Gunnarsson.


Siv Friðleifsdóttir.