Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 194. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1119  —  194. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Frumvarpinu var vísað til nefndar á milli 2. og 3. umræðu. Nefndin hefur fjallað um málið að nýju og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson og Þorgeir Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Elfu Ýri Gylfadóttur og Döllu Ólafsdóttur frá fjölmiðlanefnd, Ara Edwald frá 365-miðlum, Friðrik Friðriksson frá Skjánum og Þorstein Þorsteinsson, Pál Magnússon og Einar Loga Vignisson frá Ríkisútvarpinu.
    Nefndin hefur fjallað um þær breytingar sem lagðar eru til á tekjustofni Ríkisútvarpsins, sbr. 14. gr. frumvarpsins. Þar er kveðið á um að tekjur Ríkisútvarpsins skulu vera samkvæmt sérstöku gjaldi sem ríkisskattstjóri leggur á samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með þessum breytingum er horfið aftur til þess fjárhagsumhverfis sem gilti skv. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, áður en þeim lögum var breytt með lögum nr. 174/2008. Eins og fram kemur í athugasemdum frumvarpsins um14. gr. eru rökin að baki þessari breytingu einkum að talið er mikilvægt fyrir Ríkisútvarpið að hafa vel skilgreindan tekjustofn. Nefndin ræddi í því sambandi umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem og umsögn fjárlaganefndar Alþingis. Þar kom m.a. fram að draga beri úr mörkun tekjustofna sem kostur er, og helst eigi að afnema þá með öllu. Í umsögn fjárlaganefndar er tekið undir það sjónarmið að mikilvægt sé að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins, en það kalli ekki á þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu. Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar kom fram að afkoma ríkissjóðs muni versna um u.þ.b. 875 millj. kr. verði frumvarpið samþykkt óbreytt. Meiri hlutinn áréttar hins vegar að forsendur kostnaðarmats fjárlagaskrifstofu hafa breyst eftir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2013. Í frumvarpinu er miðað við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013 en sé miðað við niðurstöður fjárlaga fyrir 2013 mun sú viðbótarupphæð sem rennur til Ríkisútvarpsins vegna breytinga á ráðstöfun útvarpsgjaldsins lækka í 610 millj. kr. ef frumvarpið verður að lögum. Meiri hlutinn bendir á að sú tekjuaukning sem ráðgerð er með mörkun tekjustofns Ríkisútvarpsins mun að mestu leyti ganga til að jafna þá tekjuskerðingu sem 7. gr. frumvarpsins hefur í för með sér, auknum rekstrarkostnaði Ríkisútvarpsins vegna starfsemi dótturfélaga skv. 4. gr. frumvarpsins og auknum kostnaði við textun og táknmálstúlkun skv. 6. gr. Með hliðsjón af þessu er raunveruleg aukning ráðstöfunartekna Ríkisútvarpsins að öllum líkindum innan við 200 millj. kr. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að þær breytingartilögur sem hann hefur lagt fram muni hafa í för með sér frekari skerðingu á ráðstöfunartekjum Ríkisútvarpsins. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að Ríkisútvarpið njóti faglegs og fjárhagslegs sjálfstæðis gagnvart hinu pólitíska valdi. Ríkisútvarpið er fyrst og fremst fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu, sbr. 3. gr. frumvarpins, og mikilvægt að virða lýðræðislegt hlutverk þess og fjárhagslegt sjálfstæði. Í ljósi þessa er það álit meiri hlutans að nauðsynlegt sé að Ríkisútvarpið hafi markaðar skatttekjur með því móti að innheimtar tekjur af núverandi útvarpsgjaldi renni óskertar til félagsins.
    Nefndin ræddi einnig um takmarkanir á auglýsingum, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að þessar takmarkanir kunni að hafa í för með sér allt að 365 millj. kr. árlega tekjurýrnun eða sem svarar til 21% af samanlögðum auglýsinga- og kostunartekjum Ríkisútvarpsins og 7,3% af heildartekjum félagsins. Meiri hlutinn bendir á að Ríkisútvarpið hefur kostnaðarmetið frumvarpið eftir 2. umræðu að viðbættum þeim breytingum sem meiri hlutinn lagði fram. Þar kemur fram að árleg tekjurýrnun verði 395. millj. kr. Í 3. mgr. 7. gr. kemur fram að við myndmiðlun skuli hlutfall auglýsinga og fjarkaupainnskota innan hverrar klukkustundar ekki fara yfir átta mínútur. Í minnisblaði sem Ríkisútvarpið lagði fram við meðferð frumvarpsins kemur fram að á árinu 2012 var í 113 tilfellum farið yfir þetta þak. Meiri hlutinn bendir á að Ríkisútvarpið getur hækkað gjaldskrá sína á auglýsingum til þess að mæta þessum skerðingum en hafa verður í huga að samkeppnisaðstæður á markaði geta sett slíkum hækkunum verulegar skorður. Meiri hlutinn vísar jafnframt til þess að auglýsingaverð hjá Ríkisútvarpinu hefur hækkað um ríflega 30% á undanförnum þremur árum. Í þessu sambandi bendir meiri hlutinn á að hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði er 30%. Meiri hlutinn bendir einnig á að fram kemur í 4. mgr. 7. gr. frumvarpsins að Ríkisútvarpið skuli setja og birta gjaldskrá fyrir viðskiptaboð og tryggja jafnræði í afsláttarkjörum fyrir sambærilegt magn viðskipta en meiri hlutinn telur það mikilvæga breytingu til að koma í veg fyrir undirboð og stuðla að heilbrigðum viðskiptaháttum á auglýsingamarkaði.
    Nokkur umræða varð í nefndinni um almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins og komu fram sjónarmið um að hlutverk Ríkisútvarpsins væri skýrt of vítt í frumvarpinu, sbr. 3. gr. þess. Meiri hlutinn bendir á að með 3. gr. frumvarpsins er almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins afmarkað með mun nákvæmari hætti en gert er í gildandi lögum. En með því er komið til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Meiri hlutinn tekur undir að hlutverk Ríkisútvarpsins, sbr. 3. gr. frumvarpsins, er víðtækt rétt eins og í gildandi lögum en þar er að finna mjög sambærilega skilgreiningu á útvarpsþjónustu í almannaþágu. Hins vegar þykir meiri hlutanum rétt að benda á að í umfjöllun nefndarinnar kom fram að í EES-ríkjunum tíðkast ekki að sérstakar takmarkanir séu lagðar á efnistök ríkisfjölmiðla.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      7. tölul. 4. mgr. 3. gr. orðist svo: Taka dagskrárákvarðanir á faglegum forsendum.
     2.      Í stað orðsins „auglýsinga“ í 1. málsl. 4. mgr. 7. gr. komi: viðskiptaboða.
     3.      19. gr. orðist svo:
             Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó öðlast 3. mgr. 4. gr., 3. og 4. mgr. 7. gr. og 1. og 2. mgr. 14. gr. gildi 1. janúar 2014.
             Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007, með áorðnum breytingum, að undanskilinni 11. gr. þeirra laga sem heldur gildi sínu til 31. desember 2013, sbr. 1. mgr.
     4.      1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VIII falli brott.

    Sigmundur Ernir Rúnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. mars 2013.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Skúli Helgason,


frsm.

Þráinn Bertelsson.



Ólafur Þór Gunnarsson.


Siv Friðleifsdóttir.


Birgitta Jónsdóttir.