Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 417. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1131  —  417. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum (greiðslumiðlun).


Frá atvinnuveganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Arnór Snæbjörnsson og Ingvi Már Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Sjómannafélagi Íslands, VM – félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum fiskvinnslustöðva og Samtökum atvinnulífsins og Landssambandi smábátaeigenda.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fjallaði um sambærilegt mál á 139. löggjafarþingi (sjá þskj. 1272 í 741. máli). Við það tilefni komst 1. minni hluti nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að samþykkja bæri frumvarpið en fella jafnframt brott ákvæði 2. gr. þess þar sem hann taldi verulegar líkur á að innheimtuhagræði greinarinnar mundi hafa í för með sér að aðilum í sömu stöðu yrðu tryggð mismunandi réttindi og slík mismunun byggðist ekki á nægilega ítarlegum og málefnalegum röksemdum. Málið varð hins vegar ekki afgreitt á 139. þingi.
    Að þessu sinni hefur frumvarpið verið lagt fram með töluverðum breytingum. Þannig er 2. gr. þess nú ætlaður takmarkaður gildistími, þau réttindi sem frumvarpinu er ætlað að tryggja eru almenn, tryggt er að viljaafstaða manna liggi fyrir á grundvelli umboðs og tryggt er að gjaldanda sé heimilt að segja sig frá fyrirkomulaginu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jónína Rós Guðmundsdóttir og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. mars 2013.



Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form.


Einar K. Guðfinnsson,


frsm.


Logi Már Einarsson.



Björn Valur Gíslason.


Ólína Þorvarðardóttir.


Jón Gunnarsson.



Sigurður Ingi Jóhannsson.