Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 447. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 1133  —  447. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Breytingartillaga



við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða,
með síðari breytingum (stærðarmörk krókaaflamarksbáta, strandveiðar).


Frá meiri hluta atvinnuveganefndar (LRM, LME, ÓGunn, JRG, ÓÞ).



     1.      Á undan 1. gr. komi eftirfarandi kaflaheiti: I. kafli, Breyting á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.
     2.      Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 11. mgr., svohljóðandi:
                      Heimilt er með reglugerð að kveða á um að skipstjóra fiskiskips sé heimilt að ákveða að afli í tiltekinni fisktegund, annar en uppsjávarafli, reiknist ekki til aflamarks þess ef ráðherra telur sérstökum erfiðleikum háð að komast hjá veiðum á stofninum og aflamark er torfengið. Sá hluti sem þannig reiknast ekki til aflamarks skipsins skal þó aldrei nema meira en 15% af afla hlutaðeigandi skips á hverju tímabili. Óheimilt er að skrá afla í tegund sem fellur undir þessa heimild með vísun til heimildar 9. mgr. Heimild þessi er háð því að aflanum sé ráðstafað skv. 1. og 2. tölul. 9. mgr. Við ráðstöfun á andvirði aflans skal fara skv. 10. mgr.
     3.      3. gr. orðist svo:
                      Við bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  a.      (XII.)
                      Þeir bátar sem hafa veiðileyfi með krókaaflamarki og eru stærri en nemur hámarksstærð skv. 4. gr. laganna, við gildistöku þessara laga, skulu halda leyfi sínu til veiða með krókaaflamarki. Verði bátar þessir stækkaðir, eftir gildistöku laga þessara, skulu þeir sviptir veiðileyfi með krókaaflamarki frá og með næstu fiskveiðiáramótum.
                  b.      (XIII.)
                      Á fiskveiðiárunum 2012/2013 til og með fiskveiðiárinu 2016/2017 hefur Byggðastofnun árlega til ráðstöfunar aflaheimildir í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir sem nema 1.800 þorskígildislestum til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Skal þeim ráðstafað í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir. Aflaheimildir skulu vera í þorski, ýsu, steinbít og ufsa í hlutfalli við leyfðan heildarafla af þessum tegundum. Aflaheimildir þessar miðast við óslægðan fisk og skulu þær dregnar frá leyfðum heildarafla þessara tegunda áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um ráðstöfun aflaheimilda samkvæmt þessu ákvæði að fengnum tillögum Byggðastofnunar.
     4.      Á eftir 3. gr. komi nýr kafli, II. kafli, Breyting á lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, með einni grein, svohljóðandi:
                      1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
                      Ólögmætur er sá sjávarafli sem er umfram það aflamark sem veiðiskip hefur eða fenginn er án þess að tilskilin veiðileyfi skv. 2. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands séu fyrir hendi svo og afli sem 2. mgr. 7. gr. laga þessara tekur til.
     5.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum (stærðarmörk krókaaflamarksbáta, strandveiðar, byggðakvóti, gjaldtökuheimild).