Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 670. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1208  —  670. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum
(afdráttarskattur af vöxtum).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Á eftir 2. málsl. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ákvæðið gildir ekki heldur um vexti vegna skuldabréfa sem eru gefin út í eigin nafni af fjármálafyrirtækjum skv. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem og af orkufyrirtækjum sem falla undir lög nr. 50/2005, um skattskyldu orkufyrirtækja. Skilyrði er að skuldabréfin séu skráð hjá verðbréfamiðstöð í aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD), aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og ekki sé um að ræða viðskipti sem falla undir ákvæði 13. gr. b – 13. gr. n laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og taka til vaxta sem greiðast eða eru greiðslukræfir frá og með 15. mars 2013.

Greinargerð.


    Sú undanþága frá greiðslu tekjuskatts af vaxtatekjum sem hér er lögð til afmarkast við skuldabréf sem fjármálafyrirtæki sem falla undir 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, gefa út í eigin nafni, sem og þau orkufyrirtæki sem falla undir lög nr. 50/ 2005, um skattskyldu orkufyrirtækja.
    Undir 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 falla þau fjármálafyrirtæki sem hafa starfsleyfi sem viðskiptabankar. Lög nr. 50/2005 taka til allra orkufyrirtækja, óháð því hvort þau eru undanþegin skattskyldu skv. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Um verðbréfamiðstöðvar er fjallað í lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Þar er verðbréfamiðstöð skilgreind sem hlutafélag sem annast eignarskráningu rafbréfa. Rafbréf er framseljanlegt rafrænt eignarskráð verðbréf. Rekstur verðbréfamiðstöðvar er leyfisskyld starfsemi.
    Enn fremur er sett sem skilyrði fyrir undanþágunni að þeir vextir sem um ræðir séu ekki tilkomnir vegna fjármagnshreyfinga eða gjaldeyrisviðskipta sem tilgreind eru óheimil í ákvæðum 13. gr. b – 13. gr. n í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.
    Undanþágan yrði framkvæmd á þá leið að útgefandi skuldabréfs mundi sækja um undanþágu til ríkisskattstjóra á afdrætti staðgreiðslu af vaxtagreiðslum af tilteknu skuldabréfi og upplýsa um leið um ISIN-númer bréfsins sem uppfylla skal undanþáguákvæðið.
    Til að fá samþykkta undanþágu þarf útgefandi að uppfylla skilyrðið um að teljast fjármálafyrirtæki skv. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eða sem orkufyrirtæki sem fellur undir lög nr. 50/2005, um skattskyldu orkufyrirtækja. Einnig þarf að sýna fram á að skráning skuldabréfsins uppfylli skilyrði undanþágunnar um að vera skráð hjá verðbréfamiðstöð í aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD), aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
    Skuldabréfið yrði skráð í miðlægum gagnagrunni hjá ríkisskattstjóra þannig að vaxtagreiðslur vegna þess yrðu undanþegnar staðgreiðslu í öllum viðskiptum tengdum því. Þannig yrði jafnframt tryggt að skráðar yrðu allar nauðsynlegar upplýsingar um viðtakanda vaxtanna til að hægt yrði að uppfylla skyldu varðandi upplýsingaskipti sem felast í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. Í þessu felst að útgefanda ber að upplýsa ríkisskattstjóra um viðtakanda vaxtanna, þ.e. hver það er sem veitir vöxtunum viðtöku,og getur það eftir atvikum verið réttur eigandi, ef útgefandi hefur upplýsingar um hann, eða milligönguaðili, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Ákvæði 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, tekur eingöngu til aðila með takmarkaða skattskyldu og sama á við um þá undanþágu sem hér er lagt til að verði lögfest. Ákvæðið haggar því ekki skattskyldu þeirra sem bera fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi skv. 1. eða 2. gr. sömu laga. Eftir sem áður fer því um skattskyldu og staðgreiðslu þeirra af vaxtatekjum umræddra skuldabréfa sem undanþága þessi tekur til með sama hætti og gildir um allar aðrar vaxtatekjur heimilisfastra aðila samkvæmt lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Útgefendum bréfanna verður þó almennt ekki gert skylt að halda eftir staðgreiðslu af vöxtum þeirra bréfa sem ákvæðið tekur til né verða þeir krafðir um greiðslu afdráttarskatts af vöxtum sem þeir greiða, enda hafi þeir ekki mátt vita að skuldabréfin hafi verið framseld skattaðila sem skattskyldur er hér á landi annaðhvort skv. 1. eða 2. gr. tekjuskattslaga.
    Lagt er til að ákvæðið öðlist þegar gildi en taki til vaxta sem eru greiddir eða greiðslukræfir frá og með 15. mars 2013. Undanþágan á því við um skuldabréf sem þegar hafa verið gefin út að því gefnu að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt hvað varðar útgefanda og skráningu. Þau fjármála- og orkufyrirtæki sem nú þegar hafa gefið út skuldabréf sem uppfylla þessi skilyrði þurfa að fá skráða undanþágu hjá ríkisskattstjóra svo að staðgreiðslu verði ekki haldið eftir af vöxtum sem greiddir eru eða eru greiðslukræfir frá og með 15. mars 2013.
    Embætti ríkisskattstjóra hefur að beiðni tekju- og skattaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis tekið saman upplýsingar um tekjur af afdráttarskatti og endurgreiðslur árið 2012.
    Ef tekið er mið af upplýsingum frá ríkisskattstjóra, og gengið út frá því að greiðslur á vöxtum verði með svipuðu móti árið 2013 og þær voru árið 2012, má reikna með því að tekjur ríkissjóðs af afdráttarskatti skv. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003 verði um 1,2 milljarðar kr. verði frumvarpið að lögum. Þá er eftir að taka tillit til þeirra endurgreiðslna á skatti sem heimilast samkvæmt sama ákvæði. Þær námu um 510 millj. kr. árið 2012. Verði frumvarpið að lögum má reikna með að endurgreiðslur á skattinum verði mun lægri eða milli 200 og 300 millj. kr. ef miðað er við sömu viðskipti og árið 2012.