Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 236. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1255  —  236. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um merkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir um málið bárust frá utanríkisráðuneytinu og félaginu Ísland – Palestína.
    Í ályktunartexta tillögunnar er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að grípa til nauðsynlegra ráðstafana annars vegar til að merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu með viðeigandi hætti og hins vegar til að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu.
    Óhætt er að fullyrða að umsagnaraðilar séu jákvæðir í garð tillögunnar. Þannig kemur t.d. fram í umsögn utanríkisráðuneytisins að það telji öll rök hníga að því að vörur sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu séu merktar með viðeigandi hætti þannig að íslenskir neytendur séu upplýstir um uppruna þeirra. Telur ráðuneytið sérmerkingu varnings mikilvægan þátt í viðleitni til að styrkja ekki undirstöður og innviði landtökubyggða á hernumdum svæðum Palestínu. Athugun ráðuneytisins hefur leitt í ljós að flókið er að greina hvort varningur sem framleiddur er í Ísrael kunni að vera upprunninn í landtökubyggðunum. Þá er vakin athygli á því að bæði Bretar og Danir hafa gripið til aðgerða í því skyni að gera vörur frá landtökusvæðunum auðþekkjanlegri.
    Skilningur minni hlutans er að landtökubyggðir Ísraela á hernumdum svæðum Palestínu brjóti í bága við alþjóðalög og alþjóðleg mannréttindalög. Að mati minni hlutans mundi merking varnings draga úr líkum á að óréttmætir viðskiptahættir væru tíðkaðir enda hefði slík merking í för með sér að íslenskir neytendur væru upplýstari og síður berskjaldaðir fyrir röngum upplýsingum. Þá telur minni hlutinn eðlilegt að tekin verði skref í átt til aukinnar virkni fríverslunarsamnings EFTA við Palestínu. Að öðrum kosti munu markmið samningsins ekki nást.
    Í ljósi framangreinds leggur minni hlutinn til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Björn Valur Gíslason, Jón Gunnarsson, Kristján L. Möller og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. mars 2013.



Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form.


Ólína Þorvarðardóttir,


frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.