Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 698. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1300  —  698. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um jarðgöng milli lands og Eyja.

Flm.: Árni Johnsen.


    Alþingi ályktar að lokið verði nú þegar lokaþætti rannsókna á möguleikum og áætluðum kostnaði við gerð jarðganga milli lands og Eyja, nánar tiltekið milli Heimaeyjar og Kross í Landeyjum.

Greinargerð.


    Fyrir sex árum þegar tekið var af skarið um gerð Landeyjahafnar var rétt ólokið rannsóknum á möguleikum við gerð jarðganga milli Heimaeyjar og Kross í Landeyjum og var reiknað með 60–80 millj. kr. kostnaði. Félag áhugamanna um jarðgöng í Vestmannaeyjum hafði unnið ötullega að málinu um árabil, m.a. með helstu jarðgangaverktökum Evrópu. Allir sem unnu að verkefninu vissu að það yrði mjög hagkvæmt að gera göng milli lands og Eyja og á ákveðnum tímapunkti kom kostnaðaráætlun upp á 17 milljarða kr. frá reyndustu jarðgangaverktökum Norðurlanda, sænska verktakafyrirtækinu NCC. Á ákveðnum tímapunkti lét Vegagerðin Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen gera úttekt á málinu en með fyrstu yfirferð eftir þá rannsókn með þeim sem höfðu unnið mest að málinu lækkaði kostnaðaráætlunin um 50–60%, svo laus var hún í reipunum, en tveim samgönguráðherrum varð skreipt á skötunni í málinu og hurfu af hólmi. Fáránlegt var að taka ákvörðun um höfn á meðan jarðgangaþættinum var ekki lokið á endaspretti í nokkurra mánaða verkefni.
    Margar forsendur Landeyjahafnar hafa brugðist þótt Siglingastofnun hafi lagt mikinn metnað í verkefnið. Reynslan er sú að nýting Landeyjahafnar og þjónustan er óboðleg. Hugsanlegt er að hægt sé að lagfæra höfnina með verklegum breytingum áður en nýtt skip kemur til sögunnar en óöryggið verður alltaf mikið og endalaus barátta við náttúruöflin og kostnað því höfn og skip afskrifast aldrei.
    Það er fyrirséð að þegar og ef lokið verður við endurbætur á Landeyjahöfn og smíði nýs skips verður búið að leggja um 20 milljarða kr. í verkefnið, eða sömu upphæð og hefði kostað að grafa jarðgöng milli Eyja og Kross og áætlað var að þau göng afskrifuðust á 25–30 árum. Ef samgönguráðherrar hefðu ekki brugðist væri búið að opna jarðgöng milli lands og Eyja eins og áhugamannafélag um jarðgöng milli lands og Eyja gerði ráð fyrir undir forustu Inga Sigurðssonar, Eyþórs Harðarsonar, Þórs Engilbertssonar og fleiri. Rekstrarkostnaður við höfnina er óendanlegur, dæling, endurnýjun skipa á 15 ára fresti, rekstrarkostnaður og fleira þannig að það hleður skjótt í jarðgangaverð.
    Óvissan í samgöngumálum milli lands og Eyja er til skammar, jarðgöng hafa haft forgang í hugum Vestmannaeyinga. Gerð jarðganga er klár viðskipti og ekki eftir neinu að bíða að koma hlutunum á hreint.