Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 11. máls.

Þingskjal 11  —  11. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (val stjórnarmanna).

(Lagt fyrir Alþingi á 142. löggjafarþingi 2013.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                      Fyrir stjórnarkjör á aðalfundi skal Alþingi tilnefna, með hlutbundinni kosningu, sjö menn og jafnmarga til vara sem kosnir skulu í stjórn félagsins.
     b.      3. og 4. mgr. falla brott.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 13. mars sl. samþykkti Alþingi ný heildarlög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013. Í 9. gr. laganna segir að stjórn Ríkisútvarpsins skuli skipa sjö menn og jafnmargir til vara sem skal kosin á aðalfundi. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok janúarmánaðar ár hvert.
    Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, skal stjórn hlutafélags kosin á hluthafafundi þess. Í ákvæðinu er jafnframt tilgreint að heimilt sé að kveða svo á í samþykktum hlutafélags að stjórnvöldum eða öðrum aðilum sé veittur réttur til að tilnefna einn eða fleiri stjórnarmenn. Ávallt skal þó kjósa meiri hluta stjórnar á hluthafafundi.
    Með þeim breytingum sem gerðar voru á rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins með lögum um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007, fékk Alþingi það hlutverk að tilnefna með hlutbundinni kosningu fimm menn, ásamt jafnmörgum til vara, sem kosnir skyldu í stjórn þess á aðalfundi. Um mitt ár 2009 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp um almannaútvarp á Íslandi. Verkefni starfshópsins var að leggja mat á áhrif þeirra breytinga sem gerðar voru á Ríkisútvarpinu með nýjum lögum nr. 6/2007 og gera tillögur að úrbótum. Í framhaldi af því að starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum skipaði ráðherra nefnd um endurskoðun laga um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007. Í erindisbréfi nefndarinnar kom m.a. fram að henni væri ætlað leggja mat á hlutverk stjórnar Ríkisútvarpsins og fyrirkomulag við skipun hennar. Nefndin skilaði af sér frumvarpstillögu í upphafi árs 2012 sem varð síðar að gildandi lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.
    Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, er gert er ráð fyrir að tveir stjórnarmenn séu valdir með beinum hætti, þ.e. formaður, sem ráðherra tilnefnir, og stjórnarmaður, sem Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins kjósa úr sínum röðum, með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar. Aðrir stjórnarmenn skulu tilnefndir af valnefnd sem Bandalag íslenskra listamanna, Samstarfsnefnd háskólastigsins og allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis tilnefna fulltrúa í.
    Í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 23/2013 er rakið að kröfur hafi verið uppi um að Alþingi kæmi hvergi nærri vali á stjórn Ríkisútvarpsins. Það hafi þó orðið niðurstaða nefndarinnar að mæla með að tengsl Alþingis og Ríkisútvarpsins yrðu ekki rofin að fullu enda væri Alþingi eina stofnun landsins með kjörnum fulltrúum allra landsmanna. Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps er rakið að tillaga um setu fulltrúa starfsmanna í stjórn án atkvæðisréttar stuðlaði að auknu lýðræði innan stofnananna, gerði starfsmenn meira ábyrga fyrir starfseminni og stuðlaði að lýðræðislegum starfsháttum innan Ríkisútvarpsins. Þátttaka fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna í valnefnd var rökstudd með því að þannig væri tryggt að fulltrúi með þekkingu á menningarmálum yrði valinn í stjórn. Á sama hátt var talið að fulltrúi samstarfsnefndar háskólanna stuðlaði að því að í stjórn veldist fulltrúi með þekkingu á fjölmiðlamálum. Með þessari aðferð við val á stjórnarmönnum væri leitast við að til stjórnarsetu veldist fólk sem hefði fullnægjandi þekkingu á þeim sviðum sem vörðuðu rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins, ekki síst meginmarkmiðum þess, sbr. 1. og 3. gr. laganna.
    Við upphaf sumarþings hefur ný stjórn ekki verið skipuð í samræmi við lög nr. 23/2013 en samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III í lögunum ber að halda hluthafafund vegna skipunar nýrrar stjórnar innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna, þ.e. fyrir 21. júní nk. Umrædd valnefnd hefur enn ekki verið skipuð þar sem mennta- og menningarmálaráðuneytinu hafa enn ekki borist tilnefningar um þrjá fulltrúa og þrjá til vara frá allsherjar- og menntamálanefnd. Í því ljósi er þetta frumvarp lagt fram núna. Að mati mennta- og menningarmálaráðherra er það fyrirkomulag að fela valnefnd að tilnefna fimm af sjö stjórnarmönnum í Ríkisútvarpið ólýðræðislegt og ógagnsætt. Benda má á að valnefndin ber enga ábyrgð gagnvart kjósendum og engin trygging er fyrir því að nýtt fyrirkomulag sem ráðgert var í 9. gr. laga nr. 23/2013 stuðli að markmiðum laganna eins og þeim er lýst í 3. gr. laganna, þ.e. að stuðla að því að félagið þjóni lýðræðislegum, menningarlegum og samfélagslegum þörfum íslensks samfélags. Því er í frumvarpi þessu lagt til að lýðræðislega kjörnir fulltrúar kjósenda á Alþingi velji sjö menn í hlutfallskosningu sem kosnir skulu í stjórn Ríkisútvarpsins á hluthafafundi.
    Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að áður en kosið er til stjórnar á aðalfundi skuli sjö menn tilnefndir af hálfu Alþingis í hlutbundinni kosningu ásamt jafnmörgum til vara. Áhersla er lögð á að Alþingi leitist við að sjá til þess að til stjórnarsetu veljist fólk sem hafi fullnægjandi þekkingu á þeim sviðum sem varða rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins. Um starfssvið stjórnar er fjallað í 10. gr. laganna og skulu stjórnarmenn í störfum sínum m.a. hafa að leiðarljósi hlutverk Ríkisútvarpsins vegna fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, sbr. 3. gr. laganna.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (val stjórnarmanna).

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi tilnefninga í stjórn Ríkisútvarpsins ohf. Samkvæmt núgildandi lögum skipar ráðherra fimm manns og jafnmarga til vara í sérstaka valnefnd til tveggja ára í senn, allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis tilnefnir þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara, Bandalag íslenskra listamanna tilnefnir einn fulltrúa og annan til vara og samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefnir einn fulltrúa og annan til vara. Hlutverk valnefndar er síðan að tilnefna fimm fulltrúa í stjórn félagsins og fimm til vara. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í stað þess að stjórnarmenn séu tilnefndir af valnefndinni tilnefni Alþingi stjórnarmenn í hlutbundinni kosningu. Ekki eru hins vegar lagðar til breytingar á fjölda stjórnarmanna Ríkisútvarpsins ohf. og verða þeir áfram sjö talsins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að lítils háttar rekstrarkostnaður geti sparast hjá félaginu með niðurlagningu valnefndarinnar. Hins vegar mun lögfesting frumvarpsins ekki hafa áhrif á framlög til fyrirtækisins úr A-hluta ríkissjóðs.