Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 44. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 106  —  44. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um hlutdeild sveitarfélaga í veiðigjaldi og tekjum af orkuauðlindum.

Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Guðbjartur Hannesson, Kristján L. Möller.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að tryggja að við endurskoðun laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, á 143. löggjafarþingi 2013–2014 fylgi tillögur um hlut sjávarútvegssveitarfélaga í sérstöku veiðigjaldi. Einnig er ríkisstjórninni falið að móta tillögur um skiptingu mögulegra auðlindatekna af orkuauðlindum landsins milli sveitarfélaga og ríkisins. Ríkisstjórnin hafi samráð við Samtök sjávarútvegssveitarfélaga og Samtök orkusveitarfélaga við gerð tillagnanna.

Greinargerð.


    Hinn 5. júlí sl. var samþykkt á Alþingi að ráðherra skyldi vinna tillögur að endurskoðun laga nr. 74/2012 sem lagðar yrðu fram á Alþingi löggjafarþingið 2013–2014. Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að við endurskoðunina verði unnar tillögur um hlutdeild sjávarútvegssveitarfélaga í sérstaka veiðigjaldinu sem fram komi í frumvarpi um breytingar á lögunum á 143. löggjafarþingi 2013–2014.
    Lagabreytingar ásamt tækniframförum hafa leitt til mikillar hagræðingar í sjávarútvegi með tilheyrandi fækkun starfa og röskun á búsetuforsendum í sjávarbyggðum víða um land. Þjóðfélagið í heild hagnast á hagkvæmum sjávarútvegi en sjávarbyggðirnar greiða fyrir hagræðinguna með fækkun starfa og fækkun íbúa í kjölfarið. Kvótakerfið með framsalsrétti hefur þannig í för með sér samfélagslegan kostnað sem fallið hefur á sjávarbyggðir landsins til þessa í formi atvinnurasks og tekjumissis. Jafnframt leiðir hagræðingin til langtímaávinnings fyrir þjóðina í heild, en stór hluti ávinningsins hefur runnið til handhafa veiðileyfanna og hin síðari ár að einhverju leyti til ríkisins í formi veiðigjalds.
    Í mörgum sveitarfélögum er sjávarútvegur grundvöllur byggðarinnar og með hlutdeild í sérstaka veiðigjaldinu er möguleiki á stuðningi við uppbyggingu innviða og atvinnuþróun og fjölgun starfa bæði í afleiddum greinum sjávarútvegs og á öðrum sviðum. Hlutdeild sjávarútvegssveitarfélaga í sérstaka veiðigjaldinu stuðlar að starfsöryggi og auknum stöðugleika í sjávarbyggðum og betri sátt um gjaldtökuna. Þannig væri stoðum skotið undir samfélög sem eiga sum hver undir högg að sækja. Hlutfall starfa í veiðum og vinnslu er misjafnt eftir sveitarfélögum og taka þarf tillit til þess þegar hlutdeild útgerðarsveitarfélaganna í sérstaka veiðigjaldinu er ákveðið.
    Sjávarauðlindin er ein meginástæða þess að byggð helst um allt land. Rekstur hafna er víða erfiður og bera sveitarfélög mörg hver mikinn kostnað af þeim rekstri sem verður til þess að önnur þjónusta við íbúana geldur fyrir þann kostnað. Þjónusta hafnanna við útgerðina er grundvöllur fyrir rekstrinum sem skilar auðlindarentu bæði til ríkisins og til útgerðarinnar. Því er sanngjarnt að sveitarfélög sem standa undir þeim rekstri fái hlutdeild í sérstaka veiðigjaldinu og vegna hafnanna mætti einnig líta til almenna veiðigjaldsins sem er hugsað sem kostnaðargreiðsla.
    Deilur hafa verið í samfélaginu um framsalsheimildir og sérstaka veiðigjaldið en fyrir sjávarbyggðirnar er mikilvægt að friður ríki um starfsumhverfi útgerðarinnar. Markmiðið með hlutdeild útgerðarsveitarfélaga í veiðigjaldinu er að byggja upp öflugri sveitarfélög með sanngjarnri skiptingu auðlindarentunnar á milli ríkisins, sveitarfélaganna og útgerðarinnar og stuðla að sátt um skiptingu á auðlindaarðinum.
    Alls 26 sveitarfélög mynda Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, en samtökin voru stofnuð í september 2012. Þau eru eins og segir á heimasíðu samtakanna „samtök þeirra sveitarfélaga sem hafa beinna hagsmuna að gæta varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar, veiðar og vinnslu, og er tilgangur samtakanna að vinna að sameiginlegum hagsmunum aðildarsveitarfélaga og íbúa þeirra í þeim málum sem tengjast nýtingu sjávarauðlindarinnar.“ Mikilvægt er að ráðherra hafi fulltrúa þeirra með í ráðum við gerð framangreindra tillagna.
    Í skýrslu sem auðlindastefnunefnd lagði fram í september 2012 er m.a. fjallað um hina samfélagslegu vídd sjálfbærrar þróunar, velferð og sátt. Taka þarf tillit til þessara þátta við ákvörðun m.a. um skiptingu tekna sem myndast vegna náttúruauðlinda þjóðarinnar. Reikna má með því að á næstu árum verði umgjörð orkuauðlindanna þannig að auðlindarenta myndist með svipuðum hætti og þegar hefur gerst í sjávarútvegi. Rétt er að löggjafinn verði tilbúinn með tillögur að skiptingu auðlindatekna af vatnsafli og jarðvarma á milli orkusveitarfélaga og ríkisins. Slík auðlindarentuinnheimta á sér þegar stað í norsku vatnsafli og er þeim tekjum skipt á milli stjórnsýslustiga til að auka sátt um nýtingu þeirra. Reynslu Norðmanna væri skynsamlegt að nýta við framangreinda tillögugerð, en þar er einnig tekið tillit til sérstöðu sveitarfélaga þar sem virkjanakostir eru verndaðir. Í nóvember 2011 voru Samtök orkusveitarfélaga stofnuð. Mikilvægt er að ráðherra hafi fulltrúa þeirra með í ráðum við gerð tillagnanna.