Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 146. máls.

Þingskjal 164  —  146. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 43/1998, um stofnun hlutafélags
um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu
síldarútvegsins (síldarrannsóknasjóður).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 4. málsl. 8. gr. laganna er heimilt að greiða 31 millj. kr. úr sjóði samkvæmt ákvæðinu á árinu 2013.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á grundvelli tillagna frá Hafrannsóknastofnun í bréfi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 18. júní 2013, og minnisblaði, dags. 23. september 2013.
    Markmið frumvarpsins er að fjármagna rannsókn á síldardauða sem varð í Kolgrafafirði í árslok 2012 og í byrjun árs 2013, m.a. rannsókn á líklegum orsökum hans, athugun á fyrirbyggjandi aðgerðum og nauðsyn viðbragðsáætlunar.
    Síldardauðinn í Kolgrafafirði hefur valdið töluverðum kostnaði hjá Hafrannsóknastofnun, einkum vegna vöktunar í Kolgrafafirði. Auk þess hefur verið ákveðið að fara í sérstakar straummælingar í og við Kolgrafafjörð til að rannsaka enn frekar mögulegar skýringar og koma með tillögur sem geta fyrirbyggt að slíkt endurtaki sig. Stofnunin hefur óskað eftir sérstökum aukafjárveitingum til að greiða fyrir þann kostnað á árinu 2013. Á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hafa átt sér stað rannsóknir og athuganir vegna þess sama. Talið er mjög mikilvægt að sett verði á laggirnar viðbragðsáætlun svo unnt verði að meta hvenær hættuástand sé að skapast en ljóst er að um var að ræða stórfellt tjón, sem ekki var séð fyrir, en mikilvægt er að varast að endurtaki sig. Gert er ráð fyrir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti komi að þeirri áætlun en einnig aðrar stofnanir.
    Beinn heildarkostnaður vegna síldardauða Kolgrafafjarðar er nú áætlaður 34 millj. kr. Gert er ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðuneytið greiði hluta þess kostnaðar eða 3 millj. kr. en það sem upp á vantar, þ.e. 31 millj. kr., verði fjármagnað úr sjóði (síldarrannsóknasjóði) sem starfar samkvæmt lögum nr. 43/1998. Í lagafyrirmælum um þann sjóð er einungis gert ráð fyrir að á hverju ári sé hægt að greiða úr sjóðnum sem vöxtum nemur, þ.e. að eigið fé hans haldist stöðugt. Sú heimild nemur nú 13 millj. kr. Til þess að mögulegt sé að greiða 31 millj. kr. þarf lagabreytingu. Með frumvarpi þessu er lagt til að heimild fáist til hærri útgreiðslna í eitt ár, þ.e. á árinu 2013. Sundurliðaður heildarkostnaður flokkast nánar í útlagðan kostnað við vöktun 8 millj. kr., mælitæki 13 millj. kr., úrvinnslu vegna straummælinga 8 millj. kr. og sívöktun 5 millj. kr.
    Með vísan til framanritaðs er lagt til að lögfest verði tímabundið ákvæði til bráðabirgða um að heimilt sé að greiða á árinu 2013 hærri fjárhæð úr sjóðnum en heimilt er að greiða skv. 4. málsl. 8. gr. laga nr. 43/1998. Gert er ráð fyrir að heimildin gildi aðeins fyrir árið 2013 en eftir það verði að vera uppfyllt umrætt ákvæði um eigið fé sjóðsins.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 43/1998, um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins (síldarrannsóknasjóður).

    Í frumvarpi þessu er lagt til við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að á árinu 2013 verði heimilt að greiða út samtals 31 m.kr. af eigin fé síldarrannsóknasjóðs til Hafrannsóknastofnunar. Markmið frumvarpsins er að fjármagna rannsókn á síldardauða sem varð í Kolgrafafirði í árslok 2012 og byrjun árs 2013, m.a. rannsókn á líklegum orsökum hans, athugun á fyrirbyggjandi aðgerðum og nauðsyn viðbragðsáætlunar. Heildarkostnaður vegna rannsóknarinnar er áætlaður 34 m.kr. Þar af er gert ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðuneytið greiði 3 m.kr. en að afgangurinn verði fjármagnaður úr síldarrannsóknasjóði eins og frumvarp þetta gerir ráð fyrir. Kostnaður vegna rannsóknarinnar skiptist þannig að í fyrsta lagi er gert ráð fyrir 8 m.kr. kostnaði við vöktun Kolgrafafjarðar frá desember 2012 til apríl 2013. Í öðru lagi eru 13 m.kr. til kaupa á sérstökum straummælingartækjum. Í þriðja lagi er reiknað með 8 m.kr. kostnaði vegna vinnu við uppsetningu tækjanna auk úrvinnslu mælinga. Þá er í fjórða lagi gert ráð fyrir um 5 m.kr. til að fylgjast náið með súrefnisstyrk, seltustigi og hitastigi í Kolgrafafirði auk kaupa á sérstökum mælitækjum vegna þess.
    Síldarrannsóknasjóður starfar samkvæmt lögum nr. 43/1998, um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu sjávarútvegsins. Sjóðurinn er hluti af A-hluta ríkissjóðs en er í vörslu Hafrannsóknastofnunar. Stofnfé hans var 110 m.kr. en samkvæmt lögunum skal sjóðurinn renna til síldarrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar. Samkvæmt 8. gr. laganna er gert ráð fyrir að við árlega ráðstöfun úr sjóðnum skuli miðað við að ekki sé gengið á eigið fé hans sem í árslok 2012 nam 244,7 m.kr. Með frumvarpi þessu er lagt til að tímabundin heimild fáist til hærri útgreiðslna á árinu 2013 eða sem nemur 31 m.kr. Árlegar greiðslur úr sjóðnum hafa hingað til svarað til vaxtatekna sjóðsins en í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir 18 m.kr. fjárheimild vegna þessa á fjárlagaliðnum 04-415 Sjóður til síldarrannsókna.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að auka þurfi útgjaldaheimild Hafrannsóknastofnunar tímabundið um 31 m.kr. á árinu 2013 og að aukningin verði fjármögnuð með eigin fé síldarrannsóknasjóðs. Ekki er gert ráð fyrir þessari fjárhagsráðstöfun í gildandi fjárlögum fyrir árið 2013.