Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 198. máls.

Þingskjal 246  —  198. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum (ábyrgð félagsmanna í veiðifélögum).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Í stað orðanna „sem gilda skulu í a.m.k. átta ár“ í 1. málsl. 2. mgr. 29. gr. laganna kemur: fyrir tilgreindan árafjölda.

2. gr.

    Við 2. mgr. 37. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Félagsmenn bera ekki persónulega ábyrgð á fjárskuldbindingum veiðifélags.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „1.–4. mgr.“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: 1.–3. mgr.
     b.      2. málsl. 5. mgr. fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en með því eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Lagt er til m.a. að lögfest verði ákvæði þess efnis að takmarka ábyrgð félagsmanna á fjárhagslegum skuldbindingum veiðifélags.
    Veiðifélög eru sjálfstæðir lögaðilar samkvæmt gildandi lögum og stjórnvaldsreglum um það efni, m.a. lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði. Ljóst er að starfsemi veiðifélaga eða tilteknir þættir í starfsemi þeirra geta verið fjárhagslegs eðlis en það hefur þá þýðingu m.a. að veiðifélög geta átt eignir og stofnað til fjárhagslegra skuldbindinga.
    Veiðifélög bera ábyrgð á skuldbindingum sem stofnað er til vegna starfsemi þeirra með eignum sínum, m.a. þeim eignum sem þinglýstar eru á nafn veiðifélags. Ákvæði í gildandi lögum eru ekki skýr um hvort eða hvaða ábyrgð einstakir félagsmenn geta borið á skuldbindingum sem stofnað er til vegna starfsemi veiðifélaga. Unnin hefur verið álitsgerð Lagastofnunar Háskóla Íslands um eðli, réttarstöðu og heimildir veiðifélaga fyrir Landssamband veiðifélaga, en álitsgerðin var unnin af Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Eyvindi G. Gunnarssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Þar koma fram þau sjónarmið að félagsmenn kunni að bera fulla, ótakmarkaða og solidariska ábyrgð á fjárskuldbindingum veiðifélags samkvæmt lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði. Það þýðir að óbreyttri löggjöf að einstakir félagsmenn eða allir kunni að verða krafðir um greiðslu geti veiðifélag ekki staðið við fjárskuldbindingar sínar. Í ljósi skylduaðildar að veiðifélögum er talið nauðsynlegt að kveða skýrt á um þessi efni í lögunum en sem dæmi má nefna að ótækt er að félagsmaður í veiðifélagi beri persónulega fjárhagslega ábyrgð á framkvæmd sem samþykkt er á fundi í veiðifélagi gegn mótatkvæði hans. Með frumvarpinu eru tekin af öll tvímæli um að félagsmenn í veiðifélagi bera ekki persónulega ábyrgð á fjárskuldbindingum veiðifélagsins. Samkvæmt því verður ekki hægt að ganga að öðrum eignum félagsmanns til greiðslu á fjárskuldbindingum veiðifélags en eignarhlut hans í skráðum eignum veiðifélags.
    Til viðbótar við framangreint eru með frumvarpinu lagðar til nokkrar minni háttar breytingar á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, sem talið var rétt að gera með sama frumvarpi. Eru þær eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að breytt verði ákvæðum um tímamörk reglna sem veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki starfa veiðifélög, setja um stangveiði á veiðisvæði sínu. Samkvæmt gildandi lögum skulu slíkar reglur gilda í átta ár.
     2.      Lagt er til að ákvæði 1. málsl. 5. mgr. 41. gr. laganna verði breytt og að felldur verði brott 2. málsl. 5. mgr. 41. gr. laganna þar sem það ákvæði er ekki í samræmi við meginefni laganna um gildistöku arðskrár sem unnin er af matsnefnd.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Landssamband veiðifélaga. Verði frumvarpið að lögum mun það fyrst og fremst hafa áhrif á veiðifélög og félagsmenn í veiðifélögum.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæði þessu er lagt til að fellt verði brott ákvæði um tímamörk reglna sem veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, setja um stangveiði á veiðisvæði sínu, þ.e. eldra ákvæði um að slíkar reglur skuli gilda í átta ár. Ástæða breytinganna er sú að óheppilegt þykir að binda gildistíma við ákveðið árabil þar sem aðstæður geta verið breytilegar. Því er nauðsynlegt að nokkur sveigjanleiki sé fyrir hendi þegar ákveðinn er sá tímarammi sem nýtingaráætlunin tekur til.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að lögfest verði ákvæði þess efnis að félagsmenn í veiðifélagi beri ekki persónulega ábyrgð á fjárskuldbindingum veiðifélags. Í ljósi skylduaðildar að veiðifélögum er talið nauðsynlegt að kveða skýrt á um þessi efni í lögunum á þann veg að félagsmenn beri ekki persónulega ábyrgð á fjárskuldbindingum veiðifélags en það þýðir að ekki verður hægt að ganga að öðrum eignum félagsmanns til greiðslu á fjárskuldbindingum veiðifélags en eignarhlut hans í skráðum eignum veiðifélags.
    

Um 3. gr.

    Lagt er til að ákvæði 1. málsl. 5. mgr. 41. gr. laganna verði lagfært og að felldur verði brott 2. málsl. 5. mgr. 41. gr. laganna þar sem hann hefur ekkert raunhæft gildi.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa. Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum (ábyrgð félagsmanna í veiðifélögum).

    Markmið þessa frumvarps er fyrst og fremst að lögfesta nýtt ákvæði þess efnis að félagsmenn veiðifélaga skuli ekki bera persónulega ábyrgð á fjárskuldbindingum þess. Í ljósi skylduaðildar að veiðifélögum er talið nauðsynlegt að kveða skýrt á um þessi efni í lögunum þar sem ákvæði gildandi laga eru ekki talin nægjanlega skýr hvað þetta varðar, þ.e. hvort eða hvaða ábyrgð einstakir félagsmenn geta borið á skuldbindingum sem stofnað er til vegna starfsemi veiðifélaga.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.