Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 185. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 314  —  185. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999,
með síðari breytingum (stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra).


Frá velferðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bolla Þór Bollason og Rún Knútsdóttur frá velferðarráðuneyti. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Jafnréttisstofu, Landssambandi eldri borgara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og Öldrunarráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, er snúa að umsjón með málefnum Framkvæmdasjóðs aldraðra. Tilefni frumvarpsins er forsetaúrskurður nr. 72/2013 um skiptingu starfa ráðherra en samkvæmt úrskurðinum fer heilbrigðisráðherra með málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra. Skv. 3. tölul. 5. gr. laga um málefni aldraðra er það eitt af hlutverkum samstarfsnefndar um málefni aldraðra að stjórna Framkvæmdasjóði aldraðra og gera tillögur til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum. Samkvæmt fyrrgreindum forsetaúrskurði fer samstarfsnefndin með málefni sem heyra undir bæði heilbrigðisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra en Framkvæmdasjóður aldraðra heyrir hins vegar alfarið undir heilbrigðisráðherra.
    Með frumvarpinu er lögð til breytt skipan Framkvæmdasjóðs aldraðra þannig að samstarfsnefnd um málefni aldraðra hafi ekki lengur það hlutverk að stjórna Framkvæmdasjóði aldraðra. Því er lagt til að heilbrigðisráðherra skipi stjórn sjóðsins í stað þess að það sé hlutverk samstarfsnefndarinnar.
    Nefndin bendir á að stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra tekur ekki ákvarðanir um úthlutun úr sjóðnum heldur gerir árlega tillögur til ráðherra um úthlutun. Það er því ráðherra sem tekur endanlega ákvörðun hverju sinni með hvaða hætti úthlutun úr sjóðnum er háttað.
    Ögmundur Jónasson ritar undir álit þetta með fyrirvara þar sem hann hefur ekki tekið þátt í efnislegri meðferð málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Elín Hirst og Unnur Brá Konráðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. desember 2013.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Þórunn Egilsdóttir.


Björt Ólafsdóttir.



Ásmundur Friðriksson.


Katrín Júlíusdóttir.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.



Páll Jóhann Pálsson.