Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 449  —  1. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Frumvarpinu var vísað til fjárlaganefndar eftir 2. umræðu miðvikudaginn 18. desember. Nefndin fékk fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabanka Íslands á fund sinn vegna aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána. Þær aðgerðir mynda jafnframt uppistöðuna í tillögum meiri hlutans við 3. umræðu málsins. Af þessum sökum eru óvenju háar fjárhæðir bæði tekna- og gjaldamegin sem meiri hlutinn leggur til við 3. umræðu frumvarpsins.
    Heildarfjárhæðir frumvarpsins og breytingar í tillögum meiri hlutans koma fram í töflunni.

Millj. kr. Frumvarp 2. umr. tillögur 3. umr. tillögur Samtals
Heildartekjur 587.554,3 4.264,4 21.244,0 613.063,2
Heildargjöld 587.095,6 4.061,9 20.978,4 612.135,9
Heildarjöfnuður 458,7 203,0 265,6 927,3

    Heildaráhrif aðgerðanna eru metin á u.þ.b. 150 milljarða kr. og dreifast á fjögur ár, 2014– 2017. Þar af er umfang leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána talið verða um 80 milljarðar kr. og höfuðstólslækkun með nýtingu iðgjalda sem ella hefðu farið í séreignarlífeyrissparnað um 70 milljarðar kr. Á þessu stigi verður að hafa fyrirvara á því að þetta mat er háð ákveðinni óvissu. Ráðstafanirnar fela í sér að ríkissjóður hefur milligöngu um fjármögnun og framkvæmd niðurfærslu á húsnæðisskuldum heimilanna. Ekki verður því þörf á stofnun leiðréttingarsjóðs í þessu skyni. Í þessari stefnumörkun er gert ráð fyrir að hrein áhrif á afkomu ríkissjóðs verði óveruleg fyrir hvert ár á tímabilinu. Á móti útgjöldunum vegur að ætlunin er að hækka álagningu bankaskatts þar sem fjármálastofnanir í slitameðferð verði ekki undanþegnar.
    Þessar ráðstafanir munu hafa fáar en veigamiklar breytingar í för með sér í fjárlögum næstu fjögur árin, bæði á tekju- og gjaldahlið, þannig að velta ríkissjóðs verður um 21 milljarði kr. meiri án teljandi áhrifa á afkomuna.
    Fyrirhugað er að leggja fram frumvörp snemma á næsta ári í tengslum við þessar ráðstafanir þar sem nánari skýringar, afmörkun og útfærsla á tekju- og útgjaldaáformum koma fram. Þau frumvörp munu byggjast á fyrirliggjandi tillögum sérfræðinganefndar um málefnið.
    Gert er ráð fyrir því að árlegar skatttekjur ríkissjóðs af bankaskatti hækki um u.þ.b. 23 milljarða kr. næstu fjögur árin til viðbótar þeim 14,3 milljörðum kr. sem reiknað var með í forsendum frumvarpsins. Áætlað er að 20 milljörðum kr. verði ráðstafað á útgjaldahlið til höfuðstólslækkunar og til greiðslu á vanskilum, vöxtum og vaxtabótum af húsnæðisskuldum heimilanna. Þá er talin þörf á að ráðstafa á bilinu 2–4 milljörðum kr. til að mæta lækkun sem verður á tekjuskatti einstaklinga vegna aukins skattafsláttar af greiðslum í séreignarlífeyrissjóði og öðrum kostnaði sem fellur til vegna aðgerðanna.
    Framkvæmd aðgerðanna verður með þeim hætti að fyrir liggur stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að ríkissjóður muni greiða upp öll leiðréttingarlán á fjórum árum. Endanleg ráðstöfun verður þó ávallt ákvörðun Alþingis við árlega afgreiðslu fjárlaga. Heimili Alþingi ekki fjárveitingar til aðgerðanna á einhverjum tímapunkti, þá stendur ábyrgð lántakanda gagnvart fjármálastofnunum eins og hún var fyrir uppskiptingu lánsins í frumlán og leiðréttingarlán, að frádreginni þeirri greiðslu sem ríkissjóður hefur þegar innt af hendi.
    Þar sem talsverð óvissa er enn um ýmsar forsendur og útfærslu í tengslum við þessar aðgerðir verður að gera fyrirvara um að meðfylgjandi uppstilling á breytingum á tekju- og útgjaldahlið fjárlaga muni þurfa að koma til endurskoðunar við umfjöllun Alþingis um frumvarp til fjáraukalaga fyrir næsta ár þegar fyrirkomulagið liggur betur fyrir.
    Í eftirfarandi töflu eru tekin saman tekju- og útgjaldaáhrif framangreindra ráðstafana til lækkunar á höfuðstól húsnæðislána sem meiri hlutinn gerir tillögu um við 3. umræðu málsins.

Áhrif á fjárlagafrumvarp 2014 í milljörðum króna.

Tekjuáhrif 21,2
Hækkun á bankaskatti í 0,376% 23,0
Tekjutap ríkissjóðs vegna úttektar á séreignarsparnaði frá 1.7.2014 -1,8
Útgjaldaáhrif -20,5
Lækkun á höfuðstól húsnæðislána á fjórum árum -20,0
Aukið framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga vegna hærri skatttekna -0,4
Framkvæmd útgreiðslna til skuldaleiðréttingar og eftirlit -0,1
Samtals áhrif á afkomu ríkissjóðs 0,7

    Eins og fram kemur í töflunni er grunnforsenda þessarar tillögugerðar að aðgerðirnar raski ekki afkomu ríkissjóðs. Til þess að sú forsenda haldi þarf að tryggja að við gerð fjárlaga næstu árin verði að hámarki 20 milljörðum kr. ráðstafað til niðurfærslu, vaxta og verðbóta leiðréttingarlána og staðið verði þannig að málum að ekki verði mögulegt að auka þau útgjöld innan fjárlagaárs eða við gerð fjáraukalaga. Einnig þarf að tryggja að ef fjármögnun með bankaskatti skilar ekki öllum þeim tekjum sem á þarf að halda árlega verði brugðist við því.
    Auk fyrrgreindra tillagna gerir meiri hlutinn tillögu um nokkrar gjaldaheimildir, eina tekjufærslu og millifærslur. Þá eru nokkrar breytingartillögur sem fjárlaganefnd stendur að í heild sinni. Þær snúa einkum að hækkun framlaga til sjóða og framhaldi verkefnis Byggðastofnunar um brothættar byggðir, auk þess sem fallið er frá fyrri áformum um legugjald hjá sjúkrahúsum. Einnig eru framlengd vinnumarkaðsverkefni sem Vinnumálastofnun hefur unnið að með fjármögnun frá Atvinnuleysistryggingasjóði.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR
Á TEKJU- OG GJALDAHLIÐ



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 19. desember 2013.



Vigdís Hauksdóttir,


form., frsm.


Guðlaugur Þór Þórðarson.


Willum Þór Þórsson.



Haraldur Benediktsson.


Karl Garðarsson.


Valgerður Gunnarsdóttir.