Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 462  —  1. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


    Breytingar hafa verið gerðar á fjárlagafrumvarpinu á milli 2. og 3. umræðu en ennþá er gert ráð fyrir að afgangur verði á fjárlögum 2014. Nú er miðað við að heildarjöfnuður verði jákvæður um 927,3 millj. kr.

Millj. kr. Frumvarp 2. umr. tillögur 3. umr. tillögur Samtals
Heildartekjur 587.554,3 4.264,4 21.244,0 613.063,2
Heildargjöld 587.095,6 4.061,9 20.978,4 612.135,9
Heildarjöfnuður

458,7

203,0
265,6 927,3

    Stefnan um hallalaus fjárlög er metnaðarfull og er vonandi að þau áform gangi eftir svo hægt verði að stöðva skuldsetningu ríkissjóðs. 3. minni hluti vill þó ítreka að hallalaus fjárlög eru ekki ávísun á hallalausan rekstur ríkisins. Veikleikar eru margir, bæði á gjaldahlið og tekjuhlið, og því má lítið út af bregða eins og rakið er ítarlega í nefndaráliti 3. minni hluta við aðra umræðu um frumvarpið.
    Á milli annarrar og þriðju umræðu hafa verið gerðar breytingar og má þar helst nefna nýjan gjaldalið að upphæð 20.888,4 milljarðar kr. sem ætlaður er í niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimila. Á fjórum árum er áætlað að verja 80 milljörðum kr. í þessa aðgerð. Höfuðstóll verðtryggðra lána, að tilskildum ákveðnum skilyrðum, verður lækkaður auk þess sem lántakendum verður heimilt að greiða séreignarsparnað sinn inn á höfuðstól lánsins og veitir ríkið skattafslátt á móti. Áætlað að sú aðgerð kosti um 70 milljarða kr. Hluti kostnaðarins fellur á ríkið en einnig á sveitarfélög og síðan munu lántakendur sjálfir greiða hluta. Leigjendur og þeir sem ekki eru með húsnæðislán geta látið séreignarsparnað renna skattfrjálst í sérstakan húsnæðissparnað. Þá munu einnig verða einhver skattaúrræði fyrir þá sem hafa selt fasteignir sínar eftir hrun og eru því ekki lengur að borga af þeim lánum sem hækkuðu vegna efnahagshrunsins. Þessar aðgerðir virðast þó ekki útfærðar ennþá.
    Hvað varðar tekjuöflun er ætlunin að fjármagna skuldaniðurfellinguna með skatti á fjármálastofnanir, þar á meðal þær sem eru í slitameðferð. Skatturinn verður hækkaður í 0,376%. Algerlega er óljóst á þessari stundu hversu lengi þessi skattur getur skilað svo umfangsmiklum tekjum í ríkissjóð. Í greinargerð frumvarps til laga um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 kemur auk þess fram að gengið sé út frá þeirri forsendu að í lok árs 2015 verði slitameðferð föllnu bankanna að fullu lokið. Ekkert hefur komið fram í umræðunni sem gefur tilefni til þess að ætla að þessar forsendur hafi breyst. Eftir stendur því spurningin um það hvernig eigi að fjármagna aðgerð til fjögurra ára með skattstofni sem ekki er gert ráð fyrir að skili nægum tekjum nema í tvö ár.
    Þriðji minni hluti gagnrýnir að farið sé í svo umfangsmiklar og dýrar aðgerðir sem byggist á jafnveikum tekjugrunni og telur skynsamlegra að skattfjár sem er aflað með tímabundnum skattstofnum sé varið til verkefna sem spara ríkissjóði fé til langs tíma eða skila arði. Meðal slíkra aðgerða væri niðurgreiðsla opinberra skulda og fjárfestingar í atvinnulífi og innviðum samfélagsins.
    Þriðji minni hluti hefur efasemdir um að almenn skuldaniðurfelling af því tagi sem boðuð hefur verið sé réttmæt ráðstöfun á almannafé. Hún er ríkissjóði mjög dýr og virðist ekki hönnuð þannig að hún hjálpi þeim sem eiga í hvað mestum vandræðum með að greiða af lánum sínum. Eftir sem áður gæti því verulegur greiðsluvandi heimila verið áfram óleystur. Þá er ekki ljóst hvaða efnahagslegu áhrif aðgerðirnar hafa í för með sér, en leiða má að því líkur að þær auki verðbólgu og setji þrýsting á krónuna. Jafnframt vill 3. minni hluti benda á að aðgerðunum fylgja engar áætlanir um að taka á undirliggjandi vanda efnahagslífsins, en hann er grundvöllur síendurtekinna „forsendubresta“ fyrir heimili og fyrirtæki á Íslandi.
    Við 3. umræðu hafa orðið nokkrar breytingar á gjaldahliðinni. Dregið hefur verið úr niðurskurði til Vinnumálastofnunar til að stofnunin geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki þar sem atvinnuleysi er enn of mikið. Þá er fjármagni varið í verkefnið „brothættar byggðir“ til að styrkja byggðir á svæðum sem eiga undir högg að sækja. Myndlistarsjóður og Hönnunarsjóður fá aukið framlag auk margra annarra verkefna sem 3. minni hluti styður. Þá er fallið frá legugjöldum á sjúklinga og er það vel.

Alþingi, 19. desember 2013.



Brynhildur Pétursdóttir.