Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 240. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 582  —  240. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn
frá Árna Þór Sigurðssyni um hvalveiðar.


     1.      Hvaða vísindalegum gögnum um dauðatíma við veiðar á hrefnu og langreyði við Ísland hefur verið safnað frá 1989 og hvar verða þær upplýsingar gerðar aðgengilegar?
    Hvorki Hafrannsóknastofnun né Fiskistofa hefur safnað vísindalegum gögnum um dauðatíma við veiðar á hrefnu eða langreyði við Ísland. Af þeim sökum eru engin slík gögn til hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum þess.
    Hins vegar hefur Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðið (NAMMCO) óskað eftir því að Ísland framkvæmi mælingar á dauðatíma við veiðar á hrefnu og langreyði við Ísland. Því stendur nú yfir undirbúningur hjá Fiskistofu að hefja mælingar á dauðatíma við veiðar á hrefnu og langreyði næsta sumar með hjálp viðurkenndra erlendra sérfræðinga. Mikilvægt er að vanda vel til þessara mælinga og fá ráðgjöf og leiðbeiningar frá færustu erlendu sérfræðingum á þessu sviði til að tryggja nákvæmni mælinganna og að þær verði sambærilegar við erlendar rannsóknir.
    Það að hvalveiðar við Ísland séu framkvæmdar með bestu aflífunaraðferðum sem þekktar eru er okkur mikilvægt með sama hætti og við veiðar á öðrum villtum dýrum. Frá endurupptöku hvalveiða í atvinnuskyni hefur verið lögð mikil áheyrsla á þetta sjónarmið og það verið haft að leiðarljósi við setningu reglugerða. Jafnframt hefur verið fenginn erlendur sérfræðingur til að halda námskeið, sem hvalveiðimönnum er skylt að sækja, um framkvæmd aflífunar hvala. Auk þess eru gerðar ríkar kröfur til veiðibúnaðar og þannig skylt að nota við veiðarnar bestu fáanlegu tækni, penthrite-sprengjur sem framleiddir eru í Noregi. Norðmenn hafa gert viðamiklar prófanir og rannsóknir á hrefnuveiðum með þessari aðferð. Frá því að atvinnuveiðar hófust hér við land að nýju hefur verið byggt á þessum norsku veiðiaðferðum.
    Mikilvægt er að hafa í huga að hvalveiðar eru veiðar á villtum dýrum og lúta sömu lögmálum og aðrar slíkar veiðar t.d. á stórum landdýrum. Þrátt fyrir að fylgt sé ítrustu kröfum um búnað o.þ.h. munu alltaf koma upp sérstök atvik. Í umræðunni um hvalveiðar hafa slík undantekningatilfelli tilhneigingu til að vera túlkuð sem hið almenna sem ekki á sér stoð. Slík umræða hefur leitt til þess að hvalveiðiþjóðir hafa hætt að leggja fram slík gögn t.d. á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC).

     2.      Hve margir sprengiskutlar hafa alls verið notaðir við þessar veiðar síðan 1989?
    Skráning á skutulsprengjum sem teknar eru um borð í hrefnuveiðiskip og notaðar eru við hrefnuveiðar var ekki gerð að skilyrði í skráningu veiðidagbóka hrefnuveiðibáta fyrr en árið 2009. Af þeim sökum eru ekki til upplýsingar um fjölda skutulsprengja við hrefnuveiðar fyrir þann tíma. Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu er fjöldi skutulsprengja sem notaðar hafa verið við veiðar á hrefnu frá og með árinu 2009 samtals 285 stykki. Vakin er athygli á að í reglugerð 359/2009 er í 4. mgr. gert ráð fyrir að um borð í skipi sem ætlað er til hrefnuveiða sé hlaupvíður rifill a.m.k. .458 cal sem skal nota ef þörf er á seinna skoti. Þar er tekið fram að aflífist hrefna ekki samstundis við skutulskot skal svo fljótt sem auðið er aflífa hana með riffilskoti í höfuðið.
    Í leyfi Hvals hf. til veiða á langreyði árin 2009–2013 frá árinu 2009 er ekki kveðið á um skyldu til skráningar á þeim skutulsprengjum sem teknar eru um borð í hvalveiðiskip og notaðar eru við langreyðarveiðar í veiðidagbók. Af þeim sökum býr ráðuneytið ekki yfir þessum upplýsingum í tengslum við langreyðarveiðar.

     3.      Hvernig hefur eftirliti með veiðunum sjálfum verið háttað frá árinu 1989? Hvenær hafa eftirlitsmenn NAMMCO verið um borð í hvalveiðibátum og hvar eru skýrslur þeirra aðgengilegar?
    Frá því að atvinnuveiðar hófust að nýju árið 2006 hefur eftirlit með veiðunum verið framkvæmt af Fiskistofu.
    Á árunum 2006–2009 fólst eftirlit Fiskistofu í því að safna upplýsingum um veidda hvali en þegar umfang hvalveiða í atvinnuskyni jókst árið 2009 hóf Fiskistofa einnig eftirlit með veiðunum ásamt eftirliti með búnaði til hvalveiða um borð í hvalveiðiskipum.
    Eftirlit með hvalveiðum er fyrst og fremst fólgið í skoðun á skipum og veiðibúnaði, veiðiaðferðum, mælingaraðferðum, sýnatökum og að veiðarnar séu stundaðar á leyfilegum svæðum.
    Sjá má í töflu hér að neðan veidd dýr og þær eftirlitsferðir sem eftirlitsmenn (elm.) Fiskistofu og NAMMCO fóru með skipum sem veiða hvali frá og með 2009 til og með 2013.

Sjóeftirlit með hvalveiðum.

Fiskistofa
Langreyður Hrafnreyður
Ár Sjóferðir elm. Fiskistofu Veidd dýr,
elm. er um borð
Sjóferðir með veiðum Veidd dýr,
elm. er um borð
2009 1 2 5 6
2010 4 6 2 3
2011 Engar veiðar Engar veiðar 4 3
2012 Engar veiðar Engar veiðar 6 9
2013 4 7 2 2
NAMMCO
Langreyður Hrafnreyður
Ár Sjóferðir elm. NAMMCO Veidd dýr, elm. NAMMCO um borð Sjóferðir elm. NAMMCO Veidd dýr, elm. NAMMCO um borð
2009 0 0 0 0
2010 2 3 1 2
2011 Engar veiðar Engar veiðar 1 2
2012 Engar veiðar Engar veiðar 0 0
2013 2 4 2 4

    Skýrslur eftirlitsmanna NAMMCO eru ekki opinberar.