Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 250. máls. Ferill 251. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 645  —  250. mál og 251. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði
og um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996,
með síðari breytingum (fækkun lögregluumdæma, aðskilnaður
embætta lögreglustjóra og sýslumanna, hæfiskröfur).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Í nefndaráliti þessu fjallar nefndin um tvö þingmál, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Bryndísi Helgadóttur, Hermann Sæmundsson og Þórunni J. Hafstein frá innanríkisráðuneyti, Snorra Magnússon frá Landssambandi lögreglumanna, Þórólf Halldórsson frá Sýslumannafélagi Íslands, Höllu Bergþóru Björnsdóttur frá Lögreglustjórafélagi Íslands, Ástu Sólveigu Andrésdóttur og Sigurjón Friðjónsson frá Hagstofu Íslands, Harald Johannessen og Jón B. Bjartmarz frá ríkislögreglustjóra, Karl Gauta Hjaltason frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum, Sigríði Björk Guðjónsdóttur frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, Önnu Guðrúnu Björnsdóttur og Þóru Björgu Jónsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Svein Pálsson, Regínu Ásvaldsdóttur, Pál S. Brynjarsson, Gunnar Sigurðsson og Kristin Jónasson frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Stefán Eiríksson frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, Elliða Vignisson frá Vestmannaeyjabæ, Aðalstein Óskarsson frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Þorvarð Hjaltason og Gunnar Þorgeirsson frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Valdimar Hermannsson frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Pál Björnsson frá sýslumanninum á Hornafirði, Bjarna Jónsson og Katrínu Maríu Andrésdóttur frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Árna Stefán Jónsson og Ölmu Lísu Jóhannsdóttur frá SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu og Pétur Þór Jónasson og Geir Kristin Aðalsteinsson frá Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Umsagnir bárust frá Akraneskaupstað, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bláskógabyggð, Blönduósbæ, Borgarbyggð, Dalabyggð, Dómarafélagi Íslands, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Jafnréttisstofu, Jónmundi Kjartanssyni, Landssambandi lögreglumanna, Lögreglustjórafélagi Íslands, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjóranum á Suðurnesjum, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Seyðisfjarðarkaupstað, Sveitarfélaginu Skagafirði, SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu, sýslumanninum á Blönduósi, sýslumanninum á Höfn, Skútustaðahreppi, tollstjóranum í Reykjavík, Vestmannaeyjabæ og Þjóðskrá Íslands.
    Málin eru að stórum hluta samkynja en unnið hefur verið að heildarskipulagningu og framtíðarstefnumótun í málefnum sýslumanna og lögregluembætta um margra ára skeið.

Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, 251. mál.
    Meginmarkmið frumvarps til laga um breytingu á lögreglulögum er að efla lögregluna og gera hana betur í stakk búna til að sinna lögbundnum skyldum sínum. Í þeim tilgangi er í frumvarpinu annars vegar lagt til að fækka lögregluembættum í landinu úr fimmtán í átta og hins vegar að skilja á milli embætta lögreglustjóra og sýslumanna, þ.e. að lögregluembætti verði framvegis sjálfstæð embætti undir stjórn lögreglustjóra. Fram kemur í frumvarpinu að með fækkun og stækkun lögregluumdæma er stefnt að því að ná fram hagkvæmni í rekstri til lengri tíma litið og að til verði öflug lögreglulið sem standi vörð um grunnþjónustu lögreglunnar með aukinni samhæfingu og samstarfi. Jafnframt eiga þessar breytingar að leiða til þess að lögreglustjórum verði gert kleift að sinna lögreglustjórn óskiptri í ljósi aukinna krafna sem gerðar eru til löggæslu.

Lögregluumdæmi.
    Í 3. gr. frumvarpsins kemur fram að landið skuli skiptast í átta lögregluumdæmi en umdæmamörk skulu ákveðin í reglugerð sem ráðherra setur með hliðsjón af skipulagi annarrar opinberrar þjónustu í umdæmum og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram ábendingar um að mikilvægt væri að landshlutasamtök sveitarfélaga kæmu einnig að þessu samráði þar sem þau vinna að sameiginlegum hagsmunamálum sveitarfélaganna í hverjum landshluta, sbr. 97. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og bendir á að í 2. mgr. 97. gr. sveitarstjórnarlaga segir að ráðuneyti og opinberar stofnanir skuli ávallt leita umsagnar hlutaðeigandi landshlutasamtaka um stefnumótun eða ákvarðanir sem varða viðkomandi landsvæði sérstaklega. Til að auðvelda samráð og í ljósi þeirra hagsmuna sem frumvarpið felur í sér fyrir sveitarfélögin leggur nefndin til þá breytingu að umdæmamörk embætta skuli jafnframt ákveðin í samráði við landshlutasamtök sveitarfélaga. Jafnframt leggur nefndin til þá breytingu að einnig skuli haft samráð við lögreglustjóra, en það er til samræmis við 2. gr. frumvarps til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, en þar er kveðið á um samráð við viðkomandi sýslumenn. Nefndin ræddi einnig nokkuð ákvæði 2. mgr. 3. gr. um að umdæmamörk lögregluembætta skuli ákveðin í reglugerð. Bendir nefndin á að fjöldi sveitarfélaga í landinu hefur tekið breytingum undanfarin ár. Sökum þessa gæti verið nauðsynlegt að hnika til umdæmum, t.d. vegna sameininga sveitarfélaga. Með vísan til þessara röksemda er það álit nefndarinnar að rétt sé að umdæmamörk séu ákvörðuð í reglugerð. Gert er ráð fyrir því að ný og sameinuð embætti taki til starfa 1. janúar 2015. Nefndin áréttar að ný lögregluembætti taka við öllum réttindum og skyldum þeirra embætta sem fyrir eru, m.a. taka við öllum starfsmönnum á sömu kjörum, að undanskyldum lögreglustjórunum sjálfum, en um starfslok þeirra gilda ákvæði starfsmannalaga.
    Í frumvarpinu er gert er ráð fyrir því að landið skiptist í átta lögregluumdæmi en umdæmi sýslumanna verði níu, þ.e. að í Vestmannaeyjum verði sýslumannsembætti en ekki lögregluembætti. Á fundum nefndarinnar kom fram gagnrýni á þessa fyrirætlan sem frumvarpið felur í sér. Ljóst má vera að Vestmannaeyjar hafa sérstöðu umfram aðra landshluta þegar kemur að samgöngum. Bent var á að þegar best lætur liggja samgöngur niðri hálfan sólarhringinn, þ.e. hvorki er siglt né flogið. Nefndin ræddi þetta nokkuð og er það álit hennar að vegna hinna sérstöku aðstæðna Vestmannaeyja í samgöngumálum sé rétt að Vestmannaeyjar verði sjálfstætt lögregluumdæmi og leggur fram breytingartillögu þar um. Jafnframt leggur nefndin til að ráðherra verði heimilt að tillögu ríkissaksóknara að kveða á um að rannsókn tiltekinna brotaflokka í umdæmi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum fari fram í öðru umdæmi, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir varðandi umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.
    Fram kemur í 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins að ráðherra ákveði í reglugerð hvar aðalstöð lögreglustjóra skuli staðsett. Nefndin vill í þessu sambandi árétta að með aðalstöð er átt við þann stað þar sem yfirstjórn hefur aðsetur sitt og rekstrareiningar, svo sem skjalavörslu og starfsmannahald.
    Þá er í 7. mgr. 3. gr. frumvarpsins sérákvæði er lýtur að samræmingu á starfi lögreglunnar þar sem kveðið er á um að ráðherra skuli setja nánari reglur um fyrirkomulag samvinnu lögregluembætta. Nefndin fjallaði í þessu sambandi um mikilvægi samræmingarhlutverks ríkislögreglustjóra sem fjallað er um í 5. gr. lögreglulaga. Telur nefndin rétt að ríkislögreglustjóri hafi aðkomu að setningu reglna er lúta að samræmingarstarfi lögreglu og leggur til breytingartillögu þess efnis.

Greiningardeild.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði 5. mgr. 8. gr. lögreglulaga verði felld brott, en þar er heimild til að koma á fót greiningardeild við einstök embætti lögreglustjóra er leggi mat á hættu af hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að heimildin hafi aldrei verið notuð, enda ekki talið hagkvæmt að hafa fleiri en eina greiningardeild innan lögreglunnar. Fram kom á fundum nefndarinnar að ekki væri hægt að útiloka að slíkt kynni að verða gert. Í því sambandi væri sérstaklega hægt að líta til þess að hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum væri sérhæfð þekking og starfsemi er varðar landamæraeftirlit. Sú staða kynni að koma upp að nauðsynlegt væri að þróa greiningarstarfsemi til þess að mæta kröfum innlendra og erlendra samstarfsaðila. Nefndin fjallað nokkuð um þetta atriði og tekur undir þessi sjónarmið en telur samt sem áður að ákvæðið eigi að falla brott. Með þessari breytingu fellur brott heimild til þess að setja á laggirnar greiningardeild innan hvers lögregluumdæmis til að meta skipulagða glæpastarfsemi og hryðjuverk. Það er skilningur nefndarinnar að þessi breyting dragi ekki úr starfi lögregluliða á þessu sviði, enda er ómetanleg og þörf samvinna þeirra við greiningardeild ríkislögreglustjóra til að sporna gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.
     Samkvæmt f-lið 2. mgr. 5. gr. laganna hefur ríkislögreglustjóri það verkefni með höndum að starfrækja áfengisdeild sem annast eftirlit með meðferð áfengis. Þar sem starfræksla áfengisdeildar var fyrir allnokkrum árum lögð niður hjá embættinu leggur nefndin til að ákvæðið falli brott.

Hæfisskilyrði og skipun embættismanna.
    Í 7. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um hæfisskilyrði ríkislögreglustjóra, aðstoðarríkislögreglustjóra, lögreglustjóra, aðstoðarlögreglustjóra og skólastjóra Lögregluskóla ríkisins. Nefndin bendir á að þessar breytingar fela í sér að gildandi hæfisreglur í lögum um dómstóla eru hér að mestu teknar upp og er það álit nefndarinnar að það sé rétt og eðlilegt að kveða á um hæfisskilyrði fyrrgreindra í lögreglulögum og að það auki skýrleika.
    Í 4. mgr. 7. gr. frumvarpsins er fjallað um veitingu embætta annarra en ríkislögreglustjóra, lögreglustjóra, aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Gerð er sú tillaga að skipanir yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna færist frá ráðherra til ríkislögreglustjóra. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að rökin fyrir því að færa ekki allar skipanir að fullu til embættanna í einu lagi eru annars vegar þær að heppilegra sé að gera breytingar að þessu leyti í áföngum og hins vegar það sjónarmið að mikilvægt sé að haldið sé á skipunarmálum embættanna með samræmdum og tryggum hætti eftir að hin nýju sameinuðu embætti taka til starfa. Þá er lagt til að lögreglustjórar skipi alla lögreglumenn nema yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna við sitt embætti og er það gert til að undirstrika stjórnunarheimildir lögreglustjóra yfir starfsliði sínu. Jafnframt segir í athugasemdum með ákvæðinu að eðlilegt sé að sá sem ber ábyrgð á störfum undirmanna sinna skipi starfsmenn sína, enda hefur það stjórnvald sem fer með skipunarvald jafnframt það hlutverk að veita mönnum áminningu, sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Fram kom hjá þó nokkrum umsagnaraðilum að mikilvægt væri að skrefið yrði stigið til fulls og allar skipanir lögreglumanna færðar til lögreglustjóra og að rökin er varða ráðningu lögreglumanna eigi jafnt við um yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna. Á hinn bóginn komu einnig fram sjónarmið um að með því að færa skipunarvald yfir lögreglumönnum í hendur einstaka lögreglustjórum aukist hættan á því að ekki verði staðið að ráðningum með samræmdum og gagnsæjum hætti. Nefndin ræddi þetta og er það álit hennar að mikilvægt sé að gera þessar breytingar á veitingu embætta í einu lagi og leggur nefndin til þær breytingar að lögreglustjóri skuli skipa yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna til fimm ára í senn, sem og aðra lögreglumenn. Nefndin kynnti sér efni skýrslu sem unnin var fyrir ríkislögreglustjóra um vinnumenningu og kynjatengsl lögreglunnar. Það er mat nefndarinnar að staðið skuli að ráðningum á faglegan hátt og á með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi, sbr. ákvæði jafnréttislaga, nr. 10/2008, þannig að gætt sé að jafnri stöðu karla og kvenna við ráðningar.
    Í ljósi framangreindra sjónarmiða leggur nefndin til þær breytingar að ríkislögreglustjóri skuli starfrækja hæfnisnefnd sem veiti lögreglustjórum ráðgefandi álit um hæfni umsækjanda við skipun í störf lögreglumanna skv. 28. gr. laganna. Niðurstaða hæfnisnefndar verði ráðgefandi við skipun í embætti. Jafnframt leggur nefndin til að ráðherra skuli setja reglur um skipan og störf hæfnisnefndarinnar þar sem m.a. væri fjallað um skipun hennar, hæfi nefndarmanna, verkefni og málsmeðferð. Lögreglustjóri mun eftir breytinguna skipa yfirlögregluþjóna, aðstoðaryfirlögregluþjóna og aðra lögreglumenn innan síns embættis að fenginni umsögn hæfnisnefndar.

Almannavarnarnefnd.
    Í 9. gr. laga nr. 82/2008, um almannavarnir, er fjallað um almannavarnanefndir. Þar er kveðið á um að í hverju sveitarfélagi skuli starfrækt almannavarnanefnd sem sveitarstjórn skipar og ákveður sveitarstjórn fjölda nefndarmanna. Einnig segir að almannavarnanefnd skuli m.a. skipuð sýslumanni þess umdæmis sem sveitarfélagið tilheyrir. Hlutverk almannavarnanefnda er m.a. að móta stefnu og gera grein fyrir ástandi og horfum í almannavarna- og öryggismálum í landinu, fjalla um áhersluatriði varðandi skipulag almannavarna- og öryggismála, forvarnarstarf, nauðsynlega samhæfingu á efni viðbragðsáætlana og starfsemi opinberra stofnana á því sviði, sbr. 3. gr. laganna. Fram kemur í 2. mgr. 5. gr. laganna að ríkislögreglustjóri annist málefni almannavarna í umboði ráðherra. Það er mat nefndarinnar að þegar embætti sýslumanna og lögreglustjóra verða aðskilin sé rétt að lögreglustjóri sitji í almannavarnanefnd en ekki sýslumaður, enda samrýmist það betur hlutverki nefndarinnar sem og samstarfi hennar við ríkislögreglustjóra. Jafnframt vísar nefndin til þess að í 9. gr. laganna er kveðið á um að á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum sitji lögreglustjórar viðkomandi umdæma í almannavarnanefndum en ekki sýslumenn. Leggur nefndin til breytingar sem lúta að þessu.

Ákvæði til bráðabirgða.
    Fram kemur í ákvæði til bráðabirgða I að ráðherra skuli skipa verkefnisstjórn sem hafi með höndum undirbúning þeirra breytinga sem mælt er fyrir um í frumvarpinu. Í ákvæðinu er einnig fjallað um þá starfsmenn sem starfa hjá embættunum en fram kemur að leitast verði við að enginn núverandi starfsmanna missi starf sitt við fyrirhugaðar breytingar. Hér er því um að ræða mikilvæga þætti er varða réttindi starfsmanna. Það er álit nefndarinnar að mikilvægt sé að starfsmenn embættanna séu hafðir með í ráðum við þessar breytingar. Nefndin mælist því til að sú verkefnisstjórn sem skipuð verði hafi samráð við hlutaðeigandi stéttarfélög við undirbúning sameiningarinnar.
    Fram kemur í ákvæði til bráðabirgða III sú heimild til handa ráðherra að sameina embætti lögreglustjóra í hverju umdæmi fyrr en lögin kveða á um. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að slíkt geti átt við í þeim tilvikum þar sem ekkert standi í vegi fyrir því að sameina embætti lögreglustjóra, lokið hafi verið við að taka ákvörðun um að skipa sýslumann og lögreglustjóra í umdæmið og þeir væru jafnvel þeir einu sem væru starfandi í umdæminu samkvæmt eldra skipulagi. Nefndin fjallaði nokkuð um þetta og bendir á að samkvæmt frumvarpinu tekur ákvæði 3. gr. þess, sem kveður á um fækkun lögregluumdæma og að lögreglustjórn verði alfarið í höndum lögreglustjóra, gildi 1. janúar 2015. Það er mat nefndarinnar að mikilvægt sé að gæta samræmis í þessum efnum, þ.e. skipa í allar stöður á sama tíma. Nefndin leggur því til að ákvæði til bráðabirgða III falli brott.

Lögregluskóli ríkisins.
    Nefndin ræddi nokkuð framtíðarskipulag Lögregluskóla ríkisins. Í VIII. kafla lögreglulaga er vikið að ákvæðum um Lögregluskóla ríkisins. Þar er fjallað um hlutverk hans og skyldur, um stjórn skólans og um inntöku nýnema og námstilhögun. Fram kom á fundum nefndarinnar að innan lögreglunnar hafa undanfarin ár verið miklar umræður um menntun lögreglumanna, fyrirkomulag hennar og hvort hún, að einhverju eða öllu leyti, eigi að vera á háskólastigi. Árið 2007 skipaði þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra nefnd til að gera tillögu um uppbyggingu alhliða löggæslu- og öryggismálaskóla. Nefndin skilaði tillögum sínum árið 2008, en þar kom m.a. fram að ein af kröfum Landssambands lögreglumanna væri að færa Lögregluskólann á háskólastig. Þær hugmyndir hafa komið fram m.a. í tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, að Lögregluskólinn verði sameinaður ríkislögreglustjóra. Einnig hefur á undanförnum árum reynst erfiðara að fá nemendur skólans til að starfa utan höfuðborgarsvæðisins og eiga mörg lögreglulið erfitt með að fá ungt fólk til starfa. Má leiða að því líkur að ástæða þess sé sú að Lögregluskólinn býður ekki upp á fjarnám að neinu leyti þannig að mjög erfitt og kostnaðarsamt er fyrir fólk af landsbyggðinni að stunda nám við skólann, í óvissu um starf að námi loknu í heimahéraði.
    Nefndin ræddi þetta nokkuð og telur brýnt að skipulag og starfsemi Lögregluskóla ríkisins verði endurskoðað og gerð verði tillaga að framtíðarskipan lögreglumenntunar hér á landi. Nefndin telur í því sambandi að mikilvægt sé að menntun lögreglumanna svari kröfum samtímans um almannaöryggi og sé sambærileg stöðu menntunarmála lögreglunnar í Evrópu, einkum annars staðar á Norðurlöndum. Telur nefndin að skoða þurfi þann möguleika að færa Lögregluskóla ríkisins undir ríkislögreglustjóra sem leita mundi eftir samstarfi við starfandi menntastofnanir í almenna menntakerfinu og horfa sérstaklega til sjónarmiða varðandi háskólamenntun. Nefndin leggur til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem ráðherra verði falið í samráði við hlutaðeigandi aðila að setja á laggirnar starfshóp í þessu skyni sem skuli skila tillögu ásamt greinargerð til ráðherra eigi síðar en 1. ágúst 2014.
Frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, 250. mál.
    Frumvarp til laga um felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, og er nýjum lögum ætlað að taka gildi 1. janúar 2015.
    Sýslumannsembættin eru gamalgrónar og traustar stjórnsýslu- og þjónustustofnanir sem gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Meginmarkmið frumvarpsins er að efla sýslumannsembættin og gera þau betur í stakk búin til að sinna lögbundnum skyldum sínum.

Umdæmi sýslumanna.
    Í frumvarpinu er lagt til að löggæsla og ákæruvald verði skilið frá starfsemi sýslumanna og færð til sjálfstæðra embætta lögreglustjóra en það felur í sér að sýslumannsembættin verða sameinuð og þeim fækkað úr 24 í 9. Sýslumenn munu þá fara með framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði eftir því sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um. Frumvarpið gerir ráð fyrir sömu umdæmisskiptingu og lagt er til að gildi fyrir löggæsluna í landinu en þó er lagt til að Vestmannaeyjar verði áfram sérstakt umdæmi sýslumanns.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ýmsar ástæður liggja til grundvallar sameiningu sýslumannsembætta. Má þar nefna byggðaþróun og bættar samgöngur, sameiningu sveitarfélaga og sameiningu stofnana, aukna samskiptatækni og rafræna þjónustu, kröfu um hagræðingu í ríkisrekstri og að með sameiningu embætta verði til öflugar þjónustueiningar sem tryggi samræmt verklag.
    Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins verða umdæmamörk embætta sýslumanna ákveðin í reglugerð sem ráðherra setur með hliðsjón af skipulagi annarrar opinberrar þjónustu og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi sýslumenn. Nefndin leggur til, til samræmis við frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, að jafnframt verði haft samráð við landshlutasamtök sveitarfélaga þegar kemur að því að ákveða umdæmamörk sýslumannsembætta. Að auki er lagt til að í hverju stjórnsýsluumdæmi starfi samstarfsnefnd sýslumanns, lögreglustjóra og sveitarfélaga sem hafi það að markmiði að tryggja að góð samskipti verði á milli stjórnsýslu ríkisins í héraði og staðbundinnar stjórnsýslu sveitarfélaganna.
    Nefndin leggur áherslu á að frumvarpið felur ekki í sér að starfsstöðvum verði fækkað. Nefndin vill beina því til verkefnisstjórnar sem hefur með höndum undirbúning þeirra breytinga sem mælt er fyrir um í frumvarpinu að á þeim stöðum þar sem aðalskrifstofa sýslumanns verður ekki staðsett sé þess gætt að löglærður fulltrúi sé til staðar til að gæta þess að aðgangur að þjónustu verði tryggður um allt land.

Nýtt ákvæði til bráðabirgða.
    Það er álit nefndarinnar að nái frumvarpið fram að ganga verði til stærri og öflugri þjónustustofnanir sem muni standa betur að vígi til þess að sinna verkefnum sínum. Jafnframt verða hin sameinuðu sýslumannsembætti betur í stakk búin til að taka við auknum verkefnum, líkt og stefnt er að samkvæmt markmiðum frumvarpsins. Innanríkisráðuneytið hefur þegar hafist handa við flutning verkefna frá ráðuneytinu til sýslumannsembætta, sbr. lög nr. 145/2013. Nefna má fjölmörg dæmi þess að vel hafi tekist til við flutning verkefna til sýslumannsembætta, svo sem innheimtumiðstöð sekta á Blönduósi og útgáfu Lögbirtingablaðsins í Vík í Mýrdal. Við meðferð frumvarpsins fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að brýnt væri að halda vel utan um þau verkefni sem ætlunin er að flytja frá ráðuneyti til undirstofnana, þar sem nauðsynlegt væri að tryggja eftirfylgni í því sambandi. Nefndin tekur heilshugar undir þau sjónarmið og mikilvægi þess að gera aðgerðaráætlun þar að lútandi. Nefndin leggur því til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um það að við samþykkt frumvarpsins skuli innanríkisráðuneytið í samstarfi við forsætisráðuneytið vinna aðgerðaráætlun fyrir Stjórnarráðið, þar sem afmörkuð verði þau stjórnsýsluverkefni ráðuneyta og undirstofnana þeirra sem talið er ákjósanlegt að flutt verði til embætta sýslumanna. Aðgerðaráætlunin skal liggja fyrir eigi síðar en 1. janúar 2015, eða við gildistöku umdæmamarka sýslumannsembætta og lögregluembætta.
    Líkt og í frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum er í ákvæði til bráðabirgða III lagt til að ráðherra verði heimilt að sameina embætti sýslumanna í hverju umdæmi, fyrr en kveðið er á um í 10. gr. frumvarpsins, þ.e. 1. janúar 2015. Til að gæta samræmis við þær breytingar sem nefndin leggur til á lögreglulögunum leggur hún til að ákvæði þetta til bráðabirgða falli brott.

Sameining ríkisstofnana.
    Árið 2008 gaf fjármálaráðuneytið út skýrslu um sameiningu ríkisstofnana. Nefndin kynnti sér skýrsluna. Þar kemur m.a. fram að vandaður undirbúningur stuðlar að góðum árangri. Einnig segir að mikilvægt sé að breytingunum sé stjórnað og forsenda þess sé að þekkja viðkomandi stofnanir, hlutverk þeirra og markmið. Mælt er með því að fela hópi manna að gera frumathugun áður en ákvörðun um sameiningu er tekin. Nefndin bendir í þessu sambandi á þingsályktun um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland sem samþykkt var á Alþingi 19. júní 2012 og skýrslu innanríkisráðherra um störf nefndar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar sem lögð var fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi. Við skýrslugerðina var gengið út frá þeirri forsendu að tillögur um aðskilnað lögreglu frá embættum sýslumanna og fækkun umdæma næðu fram að ganga. Einnig má benda á skýrslu frá árinu 2010, um tillögur að breytingum á skipan sýslumannsembætta á landinu.
    Mat nefndarinnar er að undirbúningur beggja frumvarpanna hafi verið mikill og vandaður og að um mikið framfaraskref sé að ræða. Nefndin áréttar að vandaður undirbúningur að framkvæmd sameininganna er lykillinn að því að tryggja góðan árangur og ná þeim markmiðum sem að er stefnt.
    Nefndin leggur til að frumvörpin verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 21. febrúar 2014.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form., frsm.


Páll Valur Björnsson.


Líneik Anna Sævarsdóttir.



Elsa Lára Arnardóttir.


Guðbjartur Hannesson.


Helgi Hrafn Gunnarsson.



Jóhanna María Sigmundsdóttir.


Svandís Svavarsdóttir.


Vilhjálmur Árnason.