Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 307. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 690  —  307. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um sjúkraflug.


     1.      Hve oft á árunum 2008–2013 var sjúkraflugvél ekki tiltæk þegar eftir henni var kallað?
    Samkvæmt samningi um sjúkraflug skal flugrekandi hafa til ráðstöfunar aðalsjúkraflugvél og varavél til að sinna fluginu. Aðalsjúkravél skal ávallt standa tilbúin til útkalls nema þegar annað sjúkraflug stendur yfir. Aðalsjúkravél sinnir ekki öðrum verkefnum en sjúkraflugi. Einnig er gerð krafa um varavél sem skal vera til staðar svo að verksali nái að sinna flugi innan tímamarka.
    Vegna bráðaútkalla (forgangur F1 og F2) skal sjúkraflugvél tilbúin til flugs innan 35 mínútna frá því að útkall berst. Ef bráðaútkall berst meðan á öðru sjúkraflugi stendur er tímafrestur til að gera flugvél tilbúna 105 mínútur.
    Kröfur samnings gera það að verkum að ávallt skal vera tiltæk sjúkraflugvél. Til nánari upplýsingar eru hér lagðar fram upplýsingar um viðbrögð við útköllum í sjúkraflug árin 2012 og 2013.

Viðbrögð við útköllum í sjúkraflug 2012 2013
Flug innan tímamarka (35 mín. mörk) 217 220
Flug utan tímamarka (35 mín. mörk) 29 24
Hlutfall umfram tímamörk 11,8% 9,8%
Flug innan tímamarka (105 mín. mörk) 242 233
Flug utan tímamarka (105 mín. mörk) 4 11
Hlutfall umfram tímamörk 1,6% 4,5%
Ófullnægjandi skýringar á tíma umfram mörk (fjöldi tilfella að mati SÍ) 0 2

    Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) annast þjónustukaup og eftirlit vegna sjúkraflugs. Á árlegum fundi SÍ með Mýflugi er farið yfir hvert útkall og kallað eftir skýringum í þeim tilvikum sem viðbragðstími fer fram yfir tímamörk. Að mati SÍ voru lagðar fram fullnægjandi skýringar vegna allra ferða 2012 og allra ferða utan tveggja 2013 eins og fram kemur í töflu hér að framan.
    Upplýsingarnar sýna að sjúkraflugvél var tiltæk vegna allra útkalla sem bárust og langoftast innan þess tímafrests sem tilgreindur er í samningi. Algengustu ástæður þess að útkallstími fór fram úr mörkum voru þær að bíða þurfti eftir sjúklingi eða lækni og að útkall kom meðan á öðru sjúkraflugi stóð.
    Þau tvö tilfelli þar sem skýringar voru ófullnægjandi að mati SÍ og viðbragð umfram viðmið því á ábyrgð flugrekanda voru annars vegar þegar biðtími var 45 mínútur vegna þess að skipt var um flugvél til að fara viðkomandi flug og hins vegar þegar biðtími var 1,2 klst. vegna þess að viðgerð tafðist.

     2.      Hversu marga daga á árinu 2013 voru varavélar Mýflugs í útleigu erlendis eða bundnar í öðrum verkefnum?
    Varaflugvél Mýflugs, TF-FMS, sinnir reglubundnum verkefnum fyrir Isavia á Grænlandi og í Færeyjum í allt að fimm vikur á ári. Á meðan hafa vélarnar TF-MYV og TF-NLB sinnt hlutverki varavéla.
    Aðalsjúkraflugvél Mýflugs, TF-MYX, fórst eins og kunnugt er 5. ágúst 2013. Tók þá TF-FMS við hlutverki aðalsjúkraflugvélar og var flugvélin TF-NLB leigð sem varaflugvél, en hún uppfyllir tæknilegar kröfur samnings. Meðan TF-FMS sinnti reglubundnum verkefnum fyrir Isavia á Grænlandi og í Færeyjum var lánsvélin TF-NLB notuð sem aðalvél og TF-MYV, sem er ekki búin jafnþrýstibúnaði og ekki með hverfihreyflum, sinnti hlutverki varaflugvélar. Aldrei þurfti þó að grípa til vélarinnar á árinu. 1. október 2013 var tekin í notkun ný aðalsjúkraflugvél Mýflugs, TF-MYA, og var þá flugflotinn aftur kominn í fyrra horf.
    Varavélin TF-FMS var í verkefnum erlendis í 24 daga á árinu 2013 en önnur vél gegndi þá hlutverki varavélar.
    Í eftirfarandi töflu kemur fram hvaða vélar voru notaðar til að sinna sjúkraflugi Mýflugs árin 2009–2013. Af töflunni sést að aðalflugvél sinnir við venjulegar aðstæður um 90–95% af sjúkraflugi.

Flugvél 2009 2010 2011 2012 2013
MYA 115
MYX 356 426 420 427 267
FMS 40 16 56 22 72
MYV 2 1 1
NLB 2 16
DHC 1 1
Ferðir alls 397 445 477 452 470

     3.      Hversu oft á síðasta ári sinnti Landhelgisgæsla Íslands sjúkraflugi og hversu oft Mýflug?
    Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni fór stofnunin 89 sjúkraflug innan lands á árinu 2013. Þar af voru farin tvö flug með þyrlu á grundvelli samnings við SÍ um neyðarflug til Vestmannaeyja þegar veður hamlaði flugi sjúkraflugvélar. Öðrum 87 sjúkraflugum sinnti Landhelgisgæslan fyrir eigin fjárveitingu.
    Í eftirfarandi töflu eru sjúkraflug sem Mýflug fór á grundvelli samnings við SÍ á árinu 2013 flokkuð eftir útkallstegund. Sjúkrahús greiða fyrir sjúkraflug milli sjúkrahúsa samkvæmt ákveðnum reglum en SÍ greiðir fyrir önnur sjúkraflug.

Flug eftir útkallstegund 2013 Flug greidd af SÍ Flug greidd af sjúkrastofnunum Samtals Hlutfall
F1 119 22 141 30%
F2 84 19 103 22%
F3 57 34 91 19%
F4 17 118 135 29%
Alls 277 193 470 100%


     4.      Hversu mikið greiðir Isavia Mýflugi árlega fyrir rekstur flugvélar sinnar?
    Samningur milli Isavia og Mýflugs er tvíþættur, annars vegar um leigu á vélinni TF-FMS til Mýflugs og hins vegar um endurleigu hennar til Isavia vegna flugprófana. Í eftirfarandi töflu koma fram greiðslur milli aðila vegna samningsins. TF-FMS er á flugrekstrarleyfi Mýflugs sem greiðir allan rekstrarkostnað annan en meiri háttar yfirhalningu á mótor. Við flugprófanir leggur Isavia til annan tveggja flugmanna þar sem flugmenn Mýflugs hafa ekki þekkingu til að sinna verkefninu.

Greiðslur milli Isavia og Mýflugs, millj. kr. 2012 2013
Greiðslur Isavia til Mýflugs fyrir flugprófanir 85,4 72,1
Greiðslur Mýflugs til Isavia fyrir flugvélaleigu 27,5 29,9
Nettógreiðsla Isavia til Mýflugs 57,9 42,2

     5.      Hversu mikið greiðir ríkið Mýflugi árlega fyrir að halda úti sjúkraflugi?
    Samkvæmt samningi um sjúkraflug greiða SÍ Mýflugi fastagjald og gjald fyrir einstök flug. Sjúkrahús greiða fyrir millistofnanaflutninga þegar sjúklingur hefur dvalið meira en 36 klst. fyrir flugið á viðkomandi sjúkrahúsi. Í eftirfarandi töflu eru heildargreiðslur ríkisins til Mýflugs vegna sjúkraflugs árin 2012 og 2013.
    Á árinu 2013 var í fyrsta sinn krafist opnunargjalda, alls að fjárhæð 11.988.000 kr., vegna opnunar flugvalla fyrir sjúkraflug. Mýflug greiddi Isavia gjaldið sem SÍ endurgreiddi síðan Mýflugi. Samkvæmt samningi um sjúkraflug er opnunarkostnaður eini kostnaður við flugreksturinn sem flugrekandi skal ekki greiða.

Greiðslur ríkisins til Mýflugs 2012 2013
Fastagjald fyrir sjúkraflug 136.960.612 175.756.160
Greiðslur SÍ fyrir einstök flug 68.648.355 74.814.875
Greiðslur stofnana fyrir sjúkraflug 44.865.509 45.663.023
Alls 250.474.476 296.234.058

     6.      Hvenær má vænta niðurstöðu athugunar á því hvort hagkvæmt sé fyrir ríkið að hafa sjúkraflugið allt á einni hendi, þ.e. hjá Landhelgisgæslu Íslands?
    Í aðdraganda síðasta útboðs á sjúkraflugi á árinu 2012 var Landhelgisgæslu Íslands kynnt fyrirhugað útboð. Lýstu forsvarsmenn Landhelgisgæslunnar þá yfir áhuga á að taka við almennu sjúkraflugi til að efla starfsemi stofnunarinnar. Hvorki Landhelgisgæslan né innanríkisráðuneytið hafa fylgt málinu eftir frá því að lauslegar tillögur um aðkomu Landhelgisgæslu Íslands að almennu sjúkraflugi voru lagðar fram árið 2012.
    Ríkisendurskoðun gerði skýrslu um sjúkraflug á árinu 2013. Í skýrslunni er eftirfarandi ábending til innanríkisráðuneytis vegna framkominna hugmynda um aðkomu Landhelgisgæslu að almennu sjúkraflugi. „Taka þarf formlega ákvörðun um aðkomu Landhelgisgæslu Íslands að sjúkraflugi. Innanríkisráðuneytið þarf að skoða með formlegum hætti hvort aðkoma Landhelgisgæslu Íslands að almennu sjúkraflugi á Íslandi er raunhæfur og framkvæmanlegur kostur. Vinna ætti langtímaáætlun um starfsemi Landhelgisgæslu um land allt og raunhæfa áætlun um kostnað sem fylgir mögulegum breytingum.“ Velferðarráðuneytinu hefur ekki borist niðurstaða slíkrar vinnu.
    Núgildandi samningur var upphaflega gerður til eins árs fyrir árið 2013. Samninginn má framlengja um ár í senn allt að fimm sinnum. Var það gert til að tryggja þjónustu án þess að útiloka til lengri tíma aukna aðkomu Landhelgisgæslunnar að sjúkraflugi þar sem málið var til skoðunar þegar samningurinn var gerður. Nú er sjúkraflugi sinnt á grundvelli fyrstu framlengingar samningsins og gildir hún fyrir árið 2014. Ákveða þarf fyrir 1. júlí 2014 hvort samningurinn við Mýflug verður framlengdur öðru sinni.
    Í ljósi þess að framkvæmd samningsins hefur almennt gengið vel og hann talinn hagkvæmur fyrir ríkið er að óbreyttu fyrirhugað að halda áfram að veita þjónustuna á grundvelli samnings við Mýflug. Komi fram upplýsingar sem benda til þess að veita megi þjónustuna með hagkvæmari eða tryggari hætti eða ná öðrum eftirsóknarverðum markmiðum verður sú ákvörðun tekin til endurskoðunar.