Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 213. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 714  —  213. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna færslu eftirlits
með rafföngum til Mannvirkjastofnunar (forræði rafmagnsöryggismála).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Axelsson og Helgu Sigurðardóttur frá Neytendastofu, Björn Karlsson og Jóhann Ólafsson frá Mannvirkjastofnun, Árna Kristinsson frá BSI á Íslandi, Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu og Ásbjörn Jóhannesson frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum rafverktaka. Umsagnir bárust frá Áslaugu Guðmundsdóttur, BSI á Íslandi, Félagi raftækjaheildsala, Mannvirkjastofnun, Neytendastofu, Rafiðnaðarsambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum rafverktaka.
    Með frumvarpinu er lagt til að sá hluti af markaðseftirliti raffanga sem er undir eftirliti og forræði Neytendastofu verði færður til Mannvirkjastofnunar þannig að forræði rafmagnsöryggismála verði hjá einni stofnun.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu var með lögum nr. 29/2009, um breytingu á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga frá Neytendastofu til Brunamálastofnunar (nú Mannvirkjastofnun), forræði rafmagnsöryggismála flutt frá viðskiptaráðuneyti til umhverfisráðuneytis og dagleg umsjón málaflokksins flutt frá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar. Jafnframt var ákveðið að Neytendastofa hefði eftirlit með rafföngum sem ekki væru varanlega tengd mannvirkjum en eftirlit með rafmagnsöryggi almennt og markaðseftirlit með rafföngum að öðru leyti væri hjá Mannvirkjastofnun.
    Nefndin bendir á að á Norðurlöndunum eru öll rafmagnsöryggismál á hendi einnar og sömu stofnunarinnar, þ.m.t. markaðseftirlit með öllum rafföngum. Hvergi á Norðurlöndunum er markaðseftirlit raffanga á forræði stofnunar sem fer með neytendamál, enda er rafmagnsöryggi tæknilega sérhæfður málaflokkur. Nefndin áréttar að markaðseftirlit Mannvirkjastofnunar með rafföngum sem varanlega eru tengd mannvirkjum er framkvæmt af faggiltum skoðunarstofum. Fram kemur í ársskýrslu Mannvirkjastofnunar frá árinu 2012 að það ár voru 244 söluaðilar raffanga víðs vegar um land heimsóttir en til samanburðar bendir nefndin á að samkvæmt ársskýrslu Neytendastofu fyrir árið 2012 heimsótti skoðunarstofa 23 söluaðila raffanga vegna markaðseftirlits þeirrar stofnunar. Það er því álit nefndarinnar að góð þekking og reynsla sé til staðar hjá Mannvirkjastofnun til þess að sinna markaðseftirliti með rafmagnsöryggismálum í heild sinni, sér í lagi vegna smæðar íslenska markaðarins.
    Það er álit nefndarinnar að það sé hagkvæmara, skilvirkara og öruggara í alla staði að hafa rafmagnsöryggismál á einni hendi. Það muni leiða til þess að öryggi neytenda sem og rafmagnsöryggi í landinu verði betur tryggt því að dreifing á eftirliti á fleiri en eina stofnun getur dregið úr gagnsæi fyrir neytendur um það hvert þeir skuli leita þurfi þeir ráðleggingar eða aðstoðar við. Jafnframt er að mati nefndarinnar mikilvægt að stjórnsýsla sé eins skilvirk og kostur er og leitast skuli við að koma í veg fyrir tvíverknað, en tvöfalt eftirlit getur haft í för með sér aukið flækjustig og kostnað fyrir eftirlitsskylda aðila.
    Nefndin leggur til breytingu lagatæknilegs eðlis sem og breytingu á gildistíma frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      12. gr. orðist svo:
                  2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.
     2.      14. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. september 2014.

Alþingi, 11. mars 2014.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form.


Vilhjálmur Árnason,
frsm.

Páll Valur Björnsson.



Líneik Anna Sævarsdóttir.


Elsa Lára Arnardóttir.


Guðbjartur Hannesson.



Helgi Hrafn Gunnarsson.


Jóhanna María Sigmundsdóttir.


Svandís Svavarsdóttir.