Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 288. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 747  —  288. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings um þátttöku lýðveldisins Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Högna S. Kristjánsson og Önnu Katrínu Vilhjálmsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Evu Margréti Kristinsdóttur frá velferðarráðuneyti.
    Með frumvarpinu er gerð tillaga um að samningur um þátttöku lýðveldisins Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu verði fullgiltur, auk þess sem lagt er til að þær breytingar sem gerðar eru á meginmáli EES-samningsins með aðildarsamningnum hafi lagagildi hér á landi. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga vegna þeirra aðlagana sem gerðar voru við ákvæði um frjálsa för launþega, en aðildarríkjum EES- samningsins er heimilt að beita eigin reglum á þessu sviði í ákveðinn tíma frá aðild Króatíu að Evrópusambandinu.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að í aðildarsáttmála Evrópusambandsins var samið um sérstaka aðlögun á löggjöf Evrópusambandsins gagnvart Króatíu á tilteknum sviðum. Meðal þess sem gerður var fyrirvari um var gildistaka ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar (ESB) nr. 492/2011, um frelsi launafólks til flutninga innan Evrópusambandsins, með síðari breytingum. Þannig heimilar samningurinn um inngöngu Króatíu í Evrópusambandið aðildarríkjum að fresta gildistöku ákvæðanna til 1. júlí 2015. Þá er aðildarríkjum Evrópusambandsins enn fremur heimilt að fresta gildistöku ákvæðanna í allt að fimm ár til viðbótar eða til 1. júlí 2020. Sömu aðlaganir voru gerðar í aðildarsamningnum að Evrópska efnahagssvæðinu og hafa aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, þ.m.t. Ísland, því sömu heimildir til aðlagana á þessu sviði.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Ísland nýti sér framangreindar heimildir og að ákvæði 1.–6. gr. reglugerðar (ESB) nr. 492/2011, um frelsi launafólks til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, ásamt síðari breytingum, verði frestað að því er varðar aðgengi ríkisborgara Króatíu að íslenskum vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að ákvæði þessi taki gildi 1. júlí 2015.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Árni Þór Sigurðsson gerir fyrirvara við álitið sem lýtur að því að hann telur ekki nauðsynlegt að nýta heimildir til tímabundinnar frestunar á gildistöku ákvæða.
    

Alþingi, 12. mars 2014.



Birgir Ármannsson,


form.


Vilhjálmur Bjarnason,


frsm.


Ásmundur Einar Daðason.



Árni Þór Sigurðsson,


með fyrirvara.


Frosti Sigurjónsson.


Óttarr Proppé.



Silja Dögg Gunnarsdóttir.


Össur Skarphéðinsson.


Sigríður Á. Andersen.